Sumarleg og sæt, bökuð ostakaka

Deila

- Auglýsing -

Ostakökur eru vinsælar á Íslandi en þær eru skemmtileg tilbreyting frá marens og súkkulaðikökum. Mér finnst ostakökur passa sérstaklega vel á sumrin því þær eru léttar og frískandi sér í lagi berja- og ávaxtaostakökur. Þótt flestir þekki óbakaðar ostakökur þá eru bakaðar ostakökur afar skemmtileg tilbreyting en þær eru algegnar bæði í Bandaríkjunum og í Þýskalandi. Hér er ein sælkerauppskrift úr minni smiðju sem gælir við bragðlaukana, hún er bæði safarík og sumarleg.

Bökuð ostakaka með berjatríói. Mynd / Kristinn Magnússon

Ostakaka með berjatríói

8-10 sneiðar

Botn
50 g heslihnetur
100 g hafrakexkökur t.d. frá Digestive
80 g Bastogne-kex frá Lu
70 g smjör, brætt

Hitið ofninn í 180°C. Setjið smjörpappír í botninn á 23 cm smelluformi. Ristið heslihneturnar á þurri pönnu, þegar hýðið fer að losna utan af þeim setjið þær þá í þurrt viskastykki og rúllið fram og til baka til að ná hýðinu af, saxið gróft. Myljið kexið annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í poka og lemja með kökukefli. Blandið hnetunum og kexinu saman og þrýstið ofan í smelluformið, gott að nota matskeið til að jafna yfirborðið. Hellið smjörinu jafnt yfir allt saman og þrýstið vel ofan í formið. Bakið í 15 mínútur, takið út og kælið.

Deig
30 g maísmjöl
220 g sykur
600 g hreinn smurostur, t.d. Philadelphia
2 egg
1 vanillustöng
150 g sýrður rjómi
150 g grísk jógúrt

Blandið maísmjölinu og sykrinum saman í skál. Hrærið rjómaostinn vel saman við og setjið eggin eitt í senn út í blönduna. Kljúfið vanillustöngina, skafið kornin innan úr og bætið í blönduna. Hrærið í nokkrar mínútur og setjið svo sýrða rjómann og jógúrtina saman við, hrærið svolítið áfram eða þar til blandan er orðin létt og ljós. Hellið blöndunni ofan á botninn í smelluforminu og jafnið út. Stillið ofninn á 180°C og bakið í 10 mínútur, lækkið þá hitann í 160°C og bakið í u.þ.b. 40 mínútur. Slökkvið á ofninum og alls ekki opna hann. Látið kökuna kólna í ofninum í a.m.k. 3 tíma eða yfir nótt sé kakan bökuð að kvöldi.

Ofan á
90 g sykur
3 msk. vatn
3 msk. límónusafi
1 askja brómber
1 askja bláber
200 g jarðarber
börkur af 1 límónu

Setjið sykurinn, vatnið og límónusafann í lítinn pott og látið suðuna koma upp, þegar sykurinn er uppleystur látið þá límónubörkinn og berin saman við og sjóðið í nokkrar mínútur, takið af hitanum og kælið alveg. Losið kökuna úr smelluforminu og setjið á fallegan kökudisk og hellið berjablöndunni og safanum yfir kökuna, fallegt er að setja smávegis límónubörk ofan á berin á kökunni. Kakan geymist í 1-2 daga í ísskáp.

- Advertisement -

Athugasemdir