2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sumarlegt kjúklingasalat með grilluðum gulrótum og appelsínum

Hvað er sumarlegra en gott og matarmikið salat? Mögulega salat með grillkeimi? Hér er eitt æðislegt salat.

 

Kjúklingasalat með grilluðum gulrótum og appelsínum
fyrir 2-4

2 kjúklingabringur
2 msk. olía
safi og börkur af 1 límónu
1 tsk. sojasósa
1 hvítlauksgeiri, saxaður fínt
3 cm bútur engifer, rifinn fínt
½ chili-aldin, saxað
4 stórar gulrætur
1 msk. olía
1-2 appelsínur
u.þ.b. 200 g blandað salat
hálft búnt kóríander, gróft saxað
hálft búnt mynta, gróft saxað
4-6 litlar gúrkur eða ⅔ venjuleg
1 chili-aldin, skorið í þunnar sneiðar
1 dl salthnetur, ristðar
3 msk. sesamfræ, ristuð

Skerið kjúklingabringur í tvennt eftir endilöngu þannig að þið séuð með 4 þunnar sneiðar. Blandið saman olíu, safa, berki, sojasóu, hvítlauk, engifer og chili-aldini og blandið vel saman við kjúklingabringurnar. Látið gjarnan standa í 30-60 mín. Hitið grillið á háum hita og grillið bringurnar þar til þær eru eldaðar í gegn. Látið kólna og skerið svo í strimla. Afhýðið gulrætur og skerið hverja í fjóra parta eftir endilöngu. Sjóðið í saltvatni í 2-3 mín. Sigtið þá vatnið frá og þerrið gulræturnar. Veltið þeim upp úr olíu og stráið svolitlu salti og pipar á þær. Grillið gulræturnar þar til þær hafa tekið fallegan lit. Setjið til hliðar.

AUGLÝSING


Skerið börkinn vandlega af appelsínunum og skerið þær síðan í 2-3 þykkar sneiðar. Grillið þær við meðalhita eða þar til þær hafa tekið fallegan lit.

Blandið saman salati, kryddjurtum, kjúklingi, gulrótum, appelsínum, gúrku og chili í skál eða raðið fallega á disk og stráið ristuðum salthnetum og sesamfræjum yfir. Dreypið salatsósunni yfir þegar salatið er borið fram.

Salatsósa

safi úr ½ límónu
1 msk. sojasósa
1 msk. púðursykur
2 tsk. sesamolía
1-2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
smábútur ferskt engifer, rifinn fínt

Blandið öllu vel saman og bragðbætið með sojasósu og púðursykri eftir smekk.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni