2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sumarmatur með lúsmýi

Leiðari úr 7. tölublaði Gestgjafans

Mál málanna hjá landsmönnum í sumar er án efa lúsmýið. Kunningi minn setti glettna færslu á Facebook um daginn en þar skrifaði hann að sér fyndist hann vera útundan í samfélaginu af því að hann hefði ekki enn verið bitinn og hefði því ekki frá neinu að segja og bætti við að hann myndi sofa með opinn gluggann í von um bit. Mér fannst þetta mjög fyndið og svolítið mín upplifun af ástandinu.

Ég ætla samt ekki að gera lítið úr flugnabitum enda með ofnæmi sjálf en þurfum við að setja allt sem við verðum fyrir eða gerum á samfélagsmiðla. Ég hef lent í rosalegum bitum og þurft að fara til læknis og alles en hef samt ekki enn tekið myndir af útbrotum til að birta, hver veit nema ég eigi það eftir, aldrei að segja aldrei. Eitt er víst að við getum ekki kvartað undan vondu veðri þetta árið og við eigum það sameiginlegt að fara á stjá í góðu veðri eins og fyrrnefnt mý. Veðrið hefur nefnilega svo víðtæk áhrif á allt, uppskeru, lífríki, vellíðan, jákvæðni og mat.

Í sól og sumaryl viljum við borða eitthvað mjög gott og létt og helst úti á palli og jafnvel með fallegan drykk í hönd. En hvað borðum við Íslendingar mest á sumrin? Ef ég hugsa til þess hvað var í matinn á þessum árstíma í minni æsku þá man ég það ekkert sértaklega fyrir utan radísurnar og rabarbarann sem ég laumaði mér í úr næstu görðum.

AUGLÝSING


Ég man reyndar vel eftir fyrstu íslensku kartöflunum sem mér fannst bara fínar en pabba þótti þær stórkostlegar. Það var nefnilega alltaf sérstök stund þegar ég kom með fyrsta smælkið heim úr skólagörðunum sem mamma eldaði og bar fram með íslensku smjöri, salti og flatkökum. Pabbi hámaði þetta í sig og sagði svona tuttugu sinnum að þetta væri besti matur í heimi og svo tuggði hann, dró andann og sveiflaði höfðinu af og til um leið og hann lygndi aftur augunum og hummaði. Á meðan á átinu stóð fyllist ég stolti og fannst ég náttúrlega besti ræktandi á Íslandi og trúði því statt og stöðugt að ég hefði einhverja náðargáfu tengda mat. Þótt við pabbi borðum kannski ekki oft smælki saman í dag þá leitum við bæði uppi góða matsölustaði í útlöndum sem við förum stundum saman á og sennilega er ég sjálf eins og pabbi var í lýsingunni hér að ofan þegar ég kemst í gott kampavín og kavíar.

Sumarlegur matur getur í raun verið allskonar en eitt er þó sammerkt með flestum þeim landsvæðum sem ég skoðaði, og það er, að hann er yfirleitt fremur einfaldur og fljótlegur. Kannski er það einmitt þess vegna sem Ítalirnir háma í sig pasta yfir sumartímann, það er fljótlegt, einfalt og afar gott.

Við bjóðum upp á allskonar einfalda og fljótlega sumarrétti í 7. tölublaði Gestgjafans sem enginn ætti að þurfa að svitna yfir. En í raun er aðalmálið að borða með vinum og fjölskyldu, helst úti á palli eða í laut uppi í sveit og þá er bara eitt eftir og það er að fara á Facebook og skoða allar færslur um varnir gegn lúsmýi því af hvoru tveggja er af nægu að taka.

Njótið sumarsins.

Sjá einnig: Glæsilegt sumarblað Gestgjafans er komið út

Lestu meira

Annað áhugavert efni