Svalandi og sætir heimagerðir íspinnar

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Mun auðveldara er að búa til íspinna en margan grunar og það er sérlega skemmtilegt að nota til þess ýmiss konar sumarlegt hráefni. Hér deili ég uppskriftum að tveimur uppáhaldsíspinnunum mínum en annar þeirra er fullorðinsíspinni með freyðivíni.

Fullorðinsíspinnar með freyðivíni eru frábærir í garðinn þegar sólin lætur loksins sjá sig. Jarðarberja- og jógúrtíspinnarnir slógu rækilega í gegn enda voru íslensku jarðarberin fersk og sérlega bragðgóð en þessi íspinni hentar vel fyrir börnin. Hins vegar vegar lenti ég í smávegis vandræðum með að finna góð íspinnaform, ég fann nokkur ágæt en ekki alveg það sem ég leitaði eftir. Þó að ég styðji vissulega íslenska verslun getur verið sniðugt að panta íspinnaform á Netinu, þar sem þau fást í öllum stærðum og gerðum.

Hindberja- og ferskjuíspinnar með freyðivíni (sjá mynd að ofan)
fyrir 6-8

Hindberjalag
300 g frosin hindber
180 ml freyðivín
55 g sykur
sjávarsalt, á hnífsoddi

Setjið hindber, freyðivín, sykur og salt saman í blandara og maukið þar til allt hefur samlagast vel. Skiptið maukinu á milli íspinnamóta og frystið á meðan ferskjulagið er búið til.

Ferskjulag
500 g ferskjur í dós
300 ml freyðivín
80 g sykur

Setjið ferskjur, freyðivín og sykur saman í blandara og maukið þar til allt hefur samlagast vel. Fyllið íspinnaformin með ferskjublöndunni. Lokið og stingið íspinnum ofan í blönduna. Frystið þar til íspinnarnir eru frosnir í gegn, eða í að minnsta kosti 4 klst. Gott er að dýfa formunum örlítið í heitt vatn til að losa ísinn frá rétt áður en hann er borinn fram.

Jarðarberja- og jógúrtíspinnar
fyrir 6-8

Með því að elda jarðarberin kemur gott sultað jarðarberjabragð af íspinnunum sem minnir jafnvel á gamaldags jarðarberjagraut. Hægt er að skipta jógúrtinni út fyrir kókosmjólk og gera íspinnana þannig væna fyrir þá sem borða ekki mjólkurvörur.

450 g jarðarber
2-3 tsk. balsamedik
120 ml hlynsíróp
240-300 ml grísk jógúrt, má nota kókosmjólk ef vill
1 tsk. vanilludropar
sjávarsalt á hnífsoddi

Hitið ofn í 180°C. Hreinsið jarðarberin og raðið þeim á bökunarplötu með smjörpappír. Hellið balsamediki yfir berin og eldið þau í ofninum í 15-20 mín. Látið kólna í 10 mín. á plötunni og setjið síðan í skál ásamt safanum sem myndast hefur á plötunni. Látið berin ná stofuhita og setjið þau síðan í blandara með 60 ml af hlynsírópi. Maukið í stuttum slögum, blandan á ekki að vera alveg samlöguð heldur frekar gróf. Blandið saman í skál grísku jógúrtinni og restinni af hlynsírópinu. Hrærið vanillu og salt saman við og bragðbætið með hlynsírópi eftir smekk. Setjið 1 msk. af jarðarberjablöndu í hvert íspinnaform og látið 1 msk. af jógúrtblöndunni ofan á jarðarberin. Endurtakið ferlið þar til formin eru orðin full. Frystið í 30 mín. og takið síðan út til að loka formunum og setjið íspinna ofan í mótin. Ísinn verður að ná að frjósa örlítið þannig að pinninn haldist á sínum stað. Frystið áfram í 4 klst. eða yfir nótt. Látið heitt vatn renna á formin í örlitla stund til að losa ísinn frá rétt áður en hann er borinn fram.

Umsjón / Folda Guðlaugsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir/ Unnur Magna

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Elskar ostapinna

Berglindi Hreiðarsdóttur þarf ekki að kynna fyrir íslensku mataráhugafólki. Bloggsíðan hennar Gotterí og gersemar er stútfull af...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -