Sælkeramáltíð sem slær í gegn

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -
Baka sem ætti að alveg að slá í gegn.

Til eru margar gerðir af bökum og segja má að þær eigi sér nokkuð langa sögu. Bökur eiga það sameiginlegt að innihalda einhverskonar kjöt og grænmeti, baðað er í uppbakaðri sósu sem sett er á brauðdeig og bakað. Talið er að kjötbakan sé runnin undan rifjum Rómverja en einnig eru vísbendingar um að Grikkir eigi tilkall til hennar. Bakan þótti sérlega þægileg í Rómaveldi þar sem sjaldnast var borðað með hnífapörum og því gott að nota deigskelina sem áhald til að borða með. Skemmtilegt er frá því að segja að bakan var sérlega lifandi á tímum Rómverja og innihélt oft eitthvað óvænt, eins og lifandi fugl sem flaug út þegar skelin var brotin við mikinn fögnuð matargesta. Til eru heimildir um lifandi fugla í bökum á Englandi á 16. öld. Þetta er eitthvað sem væri gaman að prófa fyrir lengra komna, eða ekki. Bakan þróaðist svo í gegnum aldirnar og til eru heimildir um að litlar kjötbökur með beinmerg og þorskalifur hafi verið bornar fram í fínum frönskum veislum á fjórtándu öld.

Kjúklingabaka – Chicken potpie

Fyrsta matreiðslubókin sem vitað er um að hafi verið gefin út í Bandaríkjunum heitir American Cookery en hún kom út árið 1796 og er eftir Amelia Simmons. Þar er að finna nokkrar uppskriftir að bökum og þar á meðal kjúklingaböku, nautakjötsböku og böku sem kölluð er sjávarbaka en inniheldur samt ekki neinn fisk heldur dúfu, kalkún, kálfa- og lambakjöt. Líklegt þykir að nafnið sé dregið af því að bakan var oft gerð um borð í skipum og þess vegna eru svona margar gerðir af kjöti þar sem verið var að nýta allt um borð. Kjúklingabakan virðist aftur á móti hafa heillað bragðlauka Bandaríkjamanna mest enda er hún þekktust og sennilega sú algengasta af bökum en þess má geta að fyrsta frosna máltíðin sem seld var í verslunum vestanhafs var einmitt kjúklingabaka.

Hver ástæðan var fyrir vinsældum bökunnar í nýja heiminum er erfitt að segja til um en sennilega eru ástæðurnar nokkrar. Bakan er algeng í ýmsum samkomum þar sem hver og einn á að koma með sinn rétt eða svokölluð Pálínuboð en þau eru vinsæl í Bandaríkjunum. Í raun má segja að í einni böku sé heil máltíð úr öllum fæðuflokkum, kjöt, kolvetni, fita og grænmeti og því er um einkar næringarríkan rétt að ræða. Grunnurinn í hefðbundinni kjúklingaböku samanstendur af kjúklingi, soði, hveiti, selleríi, gulrótum, lauk og grænum baunum. Hægt að gera margar útfærslur á henni og setja önnur hráefni með þessum hefðbundnu eða skipta einhverju út, einnig er tilvalið að nota afganga af kjúklingi í bökuna. Ef tíminn er naumur má hreinlega kaupa tilbúinn kjúkling og rífa niður. Uppskriftin sem ég gef ykkur hér er að vísu ekki með lifandi fugli sem flýgur út með tilheyrandi látum og flottheitum þegar deigið er skorið en bakan ætti samt alveg að slá í gegn.

Kjúklingabaka
fyrir 4-6

4 kjúklingabringur, helst með skinni
2 msk. ólífuolía
2 msk. smjör
1 stór laukur
3-4 hvítlauksgeirar
4 meðalstórar gulrætur
3 sellerístilkar
3 greinar tímían, lauf notuð
2 greinar fáfnisgras (estragon), laufin söxuð og notuð
1 msk. herbes de Provence
45 g hveiti
700 ml gæðakjúklingasoð
1 ½ dl frosnar baunir
1 hnefafylli steinselja, söxuð
1 pakkning smjördeig, fæst ferskt víða
1 lítið egg + 1 msk. vatn.
salt og pipar

1
Hitið olíu og smjör á þykkbotna pönnu, saltið kjúklingabringurnar á báðum hliðum, piprið og steikið á hvorri hlið í u.þ.b 6-8 mín. Takið bringurnar af pönnunni og setjið til hliðar, ekki þrífa pönnuna á milli.

Skref 1.

2
Á meðan kjúklingabringurnar eru að steikjast, saxið þá laukinn, hvítlaukinn, gulræturnar og sellerístilkana.

Skref 2.

3
Setjið laukinn, gulræturnar og selleríið á pönnuna og steikið við meðalhita í 6-8 mín., passið að hvítlaukurinn brenni ekki. Bætið öllum kryddjurtunum saman við nema steinseljunni og bragðbætið með pipar og salti.

Skref 3.

4
Hitið ofn í 215°C. Setjið hveitið saman við grænmetisblönduna og blandið vel. Bætið svo soðinu við í 3-4 skrefum og hrærið vel í á milli þar til blandan þykknar og lítur út eins og á mynd 5.

Skref 4.

5
Rífið kjúklinginn niður og setjið út á pönnuna ásamt baununum og steinseljunni og blandið öllu vel saman.

Skref 5.

6
Rúllið deigið úr umbúðunum, hafið það tvöfalt, annars er það of þunnt. Sláið eggið saman í skál með vatninu. Ef notuð er panna sem fara má inn í ofn, eins og gert er á mynd, er gott að láta hana kólna aðeins svo deigið bráðni ekki á köntunum. Þeir sem ekki eiga þannig pönnur nota bara eldfast bökumót og setja deigið yfir.

Skref 6.

7
Skerið nokkrar rákir í deigið með beittum hníf og penslið vel með eggjablöndunni. Setjið bökuna inn í ofn og bakið við 215°C í u.þ.b. 20 mín., lækkið þá hitann í 180°C og bakið áfram í u.þ.b. 15-20 mín. Ef ykkur finnst bökudeigið verða of dökkt, setjið þá álpappír yfir það. Takið bökuna úr ofninum og berið fram eina sér en mér finnst gott að bera hana fram með léttu salati en þess þarf þó ekki.

Skref 7.

Hugmyndir að öðru hráefni til að nota í bökuna

sveppir
brokkólí
paprika
blaðlaukur
strengjabaunir eða snjóbaunir
kartöflur
næpur
sellerírót
svolítil sletta af rjóma skaðar ekki
verið óhrædd við að prófa önnur krydd

Umsjón / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Hannes og Karen Ósk nýtt par

Hann­es Stein­dórs­son, fast­eigna­sali og einn eigenda Lind fast­eigna­sölu og Karen Ósk Þorsteinsdóttir, flugfreyja og naglasérfræðingur, eru nýtt...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -