Algengt er að bjóða upp á allskyns krásir í barnaafmælum en þær innihalda oftar en ekki mikinn sykur. Hér er sniðug uppskrift sem enginn hvítur sykur er í en ég prófaði að nota annarskonar sætu eins og döðlusykur.
Döðlusykur er í raun ekki sykur, heldur þurrkaðar döðlur sem hafa verið steyttar í duft. Döðlur hafa ekki sömu áhrif á blóðsykurinn og hvítur sykur sem hefur þau áhrif að blóðsykurinn rýkur upp úr öllu valdi og fellur síðan niður með þeim afleiðingum að okkur líður ekki vel og leitum stundum í meiri sykur til að rífa okkur upp aftur. Þó gildir ávallt sú regla að neyta allrar sætu í hófi, því döðlur innihalda eðlilega ávaxtasykur sem hækkar blóðsykurinn einnig en þó ekki eins mikið og hann inniheldur einnig meiri næringarefni.
Eplakaka með salthnetum og rúsínum
u.þ.b. 16 sneiðar
600 g hveiti
280 g döðlusykur, hægt er að nota hvítan sykur
375 g smjör
Hitið ofn í 180°C. Setjið hveiti, sykur og smjör saman í skál og blandið vel saman í höndunum. Notið hendurnar til að mylja niður smjörið og blanda því saman við hveitið, það á ekki að samlagast alveg. Smyrjið 20×30 cm bökunarform og þekið með bökunarpappír. Þrýstið helmingnum af blöndunni í bökunarformið. Kælið í 10 mín. eða þar til deigið hefur harðnað. Bakið í 20-25 mín., eða þar til deigið er orðið ljósbrúnt að lit. Setjið til hliðar.
Fylling:
50 g smjör, ósaltað og skorið í litla bita
1 ½ kg Granny Smith-epli, afhýdd og skorin í bita
135 g döðlusykur, hér er einnig hægt að nota púðursykur
½ tsk. kanill
50 g rúsínur
50 g salthnetur
flórsykur, til að skreyta, má sleppa
Setjið smjör, epli, sykur, kanil og rúsínur saman í pott yfir háan hita og eldið saman í 5-7 mín., eða þar til eplin eru orðin mjúk og vökvinn hefur gufað upp. Blandið salthnetunum saman við eplafyllinguna og hellið fyllingunni í bökunarformið með deiginu. Dreifið jafnt úr fyllingunni. Myljið restina af deigblöndunni yfir eplafyllinguna. Bakið í 30-40 mín., eða þar til kakan er orðin gullinbrún að lit. Takið úr ofninum og látið kökuna kólna í forminu. Takið kökuna úr forminu. Dustið með flórsykri og skerið í sneiðar.