2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Tel Aviv – litskrúðug og lystug

Ísrael er einstakt land fyrir botni Miðjarðarhafs sem kemur sannarlega á óvart.

Andrúmsloftið í Tel Aviv er talsvert frábrugðið Jerúsalem, borgin er líflegri og vestrænni og þar er iðandi mannlíf og fólk er almennt frjálslyndara, trú og trúarklæði eru ekki eins sýnileg.

Fyrr í vetur fjölluðum við um Jerúsalem sem er einn merkasti sögustaður jarðar og Dauðahafið sem er engu líkt. Hér fjöllum við um borgina Tel Aviv sem er talsvert ólík fyrrnefndum stöðum en algerlega ferðarinnar virði. Ísrael tilheyrir hinum svokölluðu Mið-Austurlöndum og á landamæri að Egyptalandi, Líbanon, Sýrlandi og Jórdaníu að ógleymdri Palestínu en Ísraelríki var formlega stofnað árið 1948.

Menningin í landinu er afar fjölbreytt og ólík milli svæða og andstæðurnar eru víða miklar og áþreifanlegar. Á meðan Tel Aviv er nútímaleg og vestræn með heillandi strendur, söfn, markaði, bari, matsölustaði og iðandi næturlífi þá er gamli hlutinn í Jerúsalem eins og farið sé aftur í tímann um nokkrar aldir, jafnvel á Biblíutíma. En það eru þessar miklu andstæður sem eru einmitt svo framandi og heillandi á einhvern áhugverðan hátt. Þótt Ísrael sé fremur lítið land er náttúrufegurðin mikil og fjölbreytt. Ljósir fjallgarðar og hæðir, pálmatré, eyðimerkursandar og hvítar strandir eru einkennandi og að Ísrael liggja nokkur höf, Miðjarðarhafið, Rauðahafið, Dauðahafið og Galilee-sjór. Loftslagið í Ísrael er einkar gott sem gerir þetta landsvæði hagkvæmt fyrir ræktun.

Borg viðskipta og menningar!
Andrúmsloftið í Tel Aviv er talsvert frábrugðið Jerúsalem, borgin er líflegri og vestrænni og þar er iðandi mannlíf og fólk er almennt frjálslyndara, trú og trúarklæði eru ekki eins sýnileg. Ungt fólk sækir meira í borgina enda er þar að finna aragrúa af skemmtilegum verslunum, kaffihúsum og skemmtistöðum. Tel Aviv er talsvert dreifð og í raun er hún margar smærri borgir. Ýmsar hátíðir eru haldnar og Gay pride-gangan þykir mögnuð en hún fer fram í júní ár hvert. Þeir sem vilja sleikja sólina ættu ekki að vera í vandræðum með að finna strandir því strandlengjan er löng, falleg og fjölbreytt. Veitingahúsaflóran er breið og varla hægt að þverfóta fyrir góðum stöðum í öllum verðflokkum. Tel Aviv er sannarlega spennandi heim að sækja.

AUGLÝSING


Skemmtilegt að gera í Tel Aviv:

  • Göngu- eða hjólatúr um Ha´Yarkon-garðinn sem er fyrir norðanverða smábátahöfnina (e. marina). Einnig er hægt að sigla á ánni Yarkon og fara um svæðið á Segway-tæki. Í kringum gömlu höfnina (Old Port Area) sem er við ósa árinnar er iðandi mannlíf, verslanir, kaffihús og matsölustaðir og þar er oft opið lengi á kvöldin.
  • Gamla Jaffaborg. Enginn verður svikinn af því að ganga um þröngar götur Jaffa sem margir tengja við appelsínur sem kenndar voru við borgina. Jaffa er í raun meira eins og hverfi í Tel Aviv en borgin er mjög gömul. Jaffa-flóamarkaðurinn er æðislegur og þar er hægt að gera góð kaup á gömlum og nýjum hlutum en inn á milli eru einnig skemmtilegar hönnunarbúðir, þetta er hipp og kúl hverfi sem iðar af lífi á kvöldin. Mikið er af skemmtilegum matsölustöðum, kaffihúsum og börum.
  • Neve Tzedek-hverfið er skemmtilegt og þar eru litlar hönnunarbúðir, ísbúðir og sælkerabúðir. Flestar þeirra eru á Shabazi-götu og þar er líka slatti af áhugaverðum kaffihúsum og matsölustöðum.
  • Carmel-götumatarmarkaðurinn er markaður sem heimamenn sækja mikið en hann er rétt norðan við Neve Tzedek-hverfið. Þar er hægt að fá margar ferskar afurðir eins og kryddjurtir, grænmeti, döðlur og krydd en einnig er hægt að finna ýmislegt annað áhugavert eins og skargripi og slæður.
  • Eretz Israel Museum. Einstaklega fjölbreytt og skemmtilegt sögu- og fornleifasafn sem var opnað árið 1958. Safnið er í nokkrum byggingum með mismunandi áherslu og munum. Hér borgar sig að gefa sér góðan tíma, ég mæli með í það minnsta hálfum degi. Afar skemmtileg safnabúð með góðu úrvalið af ísraelskri hönnun og skartgripum.

Hagnýtar upplýsingar
WOW air flýgur til Ísrael allt árið um kring. Verð aðra leið með sköttum er frá 16.999 kr. Flugvöllurinn heitir Ben Gurion, mikil öryggisgæsla er á vellinum og farþegar eru spurðir ítarlega út í dvöl sína þegar þeir yfirgefa landið. Ísrael er svokölluð útstöð þannig að farþegar eru teknir aftur í öryggisleit í Leifsstöð.

Myndir / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og infogoisrael.com

Lestu meira

Annað áhugavert efni