The Grand Central Market í Los Angeles – sögufrægur sælkeramarkaður

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Í fyrrasumar heimsóttum við, ég og Aldís Pálsdóttir, ljósmyndari Gestgjafans, The Grand Central Market í Los Angeles sem er paradís fyrir mataráhugafólk og erfitt að velja bara einn bás til að borða á.

Við dvöldum í dágóða stund á markaðnum, drukkum í okkur stemninguna, mynduðum í gríð og erg og borðuðum eitt og annað spennandi. Ákváðum báðar að hingað ætluðum við að koma aftur til að borða meira, miklu meira.

Alls kyns kræsingar eru á boðstólum.

Saga The Grand Central Market

Homer Laughlin-fjölskyldan opnaði markaðinn árið 1917 á Broadway Street í miðbæ LA, staðsetningin var engin tilviljun því steinsnar frá var fyrsta almenningssamgöngufarartækið, togbrautin Angels Flight sem fer upp bratta Bunker Hill-hæðina og er enn í notkun. Það voru því svangir ferðalangar sem flykktust á markaðinn en í þá daga voru stórmarkaðir ekki komnir fram á sjónarsviðið og þess vegna fór fólk til slátrarans, í bakaríið og til kaupmannsins á horninu.

Á markaðnum voru þessar sérverslanir sameinaðar undir einu þaki sem augljóslega hafði ákveðin þægindi í för með sér enda voru slíkir markaðir víða í Bandaríkjunum.

Yfir 90 sölubásar

The Grand Central Public Market, eins og hann hét þá, bar nafnið með rentu enda þýðir grand stór en markaðurinn var rúmlega 7.400 fermetrar að stærð. Tvær hæðir voru fyrir sölubása og í kjallaranum voru stór lager- og kæliherbergi.

Fimm árum eftir að markaðurinn var opnaður er talið að hann hafi þjónustað um milljón manns, þá voru um 90 sölubásar og hægt var að kaupa heitan mat þó svo að flestir básarnir hafi selt brauð, kjöt, fisk, ost, kaffi, sætindi og ávexti. Ýmsir básarnir sérhæfðu sig, á May‘s-básnum var til að mynda hægt að kaupa majónes, ólífur, súrsaðar gúrkur og súrkál, á öðrum bás voru eingöngu seld egg og ekkert annað.

Kaffiteríur og diners-staðir seldu tilbúinn mat bæði til að taka með og borða á markaðnum. Í kjallaranum var kínverskur staður sem endurspeglaði fjölbreytileika íbúa svæðisins.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Hnignun í kjölfar kreppunnar miklu

Þegar svarti þriðjudagurinn skall á árið 1929 með kreppunni miklu hafði það eðlilega áhrif á Grand Central-markaðinn sem minnkaði um tíma en náði sér svo aftur á strik í kringum 1940. Í lok þess áratugar festi Beach Lyon kaup á markaðnum en undir hans stjórn breyttust áherslurnar og meira var um mat og hráefni frá öðrum menningarheimum, eins og Asíu og Suður-Ameríku, enda höfðu margir íbúar flutt í úthverfin og innflytjendur voru meira áberandi í miðbænum.

Metnaðarfull ekkja með hugsjónir

Markaðurinn var í frekar döpru ástandi þegar lögfræðingurinn Ira Yellin festi kaup á honum en hann hafði einstakan áhuga á borgarskipulagi og hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig væri hægt að endurvekja markaðinn. Hann gerði ýmsar nauðsynlegar endurbætur á húsinu en fáir í kringum hann höfðu trú á þessu ævintýri. Ira lést um aldur fram árið 2002 án þess að hafa lokið ætlunarverkinu og syrgjandi ekkja hans, Adele, tók við en gerði lítið annað en að horfa á staðinn drabbast niður.

Í efnahagshruninu 2008 lokuðu margir standar og leiguverðið féll um 40%. Adele leyfði mörgum að vera áfram án þess að borga.

Hægt er að fá sér allt á milli himins og jarðar; pítsur, pasta, ostrur, krabba, taco, poke, sticky rice, falafel, ramen, morgunmat og eftirrétti, svo fátt eitt sé nefnt.

Vildi engar keðjur

Í kringum 2012 fór hverfið í kringum markaðinn að lifna svolítið við og nýir veitingastaðir og barir opnuðu. Adele bretti loks upp ermar og hófst handa við að endurvekja markaðinn. Margir reyndu að telja henni trú um að best væri að opna stórmarkað í húsnæðinu eða einhverjar keðjur sem féll í grýttan jarðveg enda hafði Adele metnaðarfyllri hugmyndir. Hún vildi að markaðurinn yrði samkomustaður fyrir fólk í öllum stigum þjóðfélagsins, þar sem hægt væri að sjá og hitta aðra borgara og borða gæðamat á viðráðanlegu verði, henni fannst LA vanta samkomustað.

Eftir að hafa ráðið og rekið marga jakkafatamenn tókst henni loksins að ramma inn hugmyndir sínar og koma markaðnum í það horf sem hann er í dag. Hún sagði ekki upp þeim aðilum sem fyrir voru en vann með þeim og hleypti nýjum inn, hún gerði markaðinn að raunverulegum almenningssamkomustað, sem sagt Grand Central Public Market, eins og hann hét í upphafi.

Yfirlýsing frá Grand Central Market eftir örlagaríkan fund þar sem stefnan var loks sett

„Tilgangur Grand Central Market er að upphefja og ýta undir matarmenningu Los Angeles. Ætlunarverk okkar er að varðveita arfleifð og sögu miðbæjarins í þeim tilgangi að sameina mismunandi hópa fólks á matarmarkaðnum og styðja þannig við næstu kynslóð smákaupmanna.“

Á markaðnum eru 34 matarstandar, hver með sína sérstöðu og sérhæfingu.

Himnaríki fyrir matarperra

Í dag er mest áhersla lögð á að selja tilbúinn mat í einskonar götumatarstíl eins og víða tíðkast í matarheiminum. Á markaðnum eru 34 matarstandar, hver með sína sérstöðu og sérhæfingu, og því má segja að The Grand Central sé hálfgert himnaríki fyrir matarperra, ef svo má að orði komast. Yfirbragðið og útlitið á markaðnum er einstaklega töff og myndrænt með litríkum neonskiltum og iðandi mannlífi enda átti ljósmyndari Gestgjafans erfitt með að hemja sig við að smella af. Ég átti aftur erfiðara með að velja á milli staða og bölvaði litlu magamáli, hingað eiga sælkerar að koma mjög svangir oftar en einu sinni í hverri ferð.

Bæði tilbúinn matur og ferskvara

Matargerðin er fjölbreytt en þó gætir nokkuð mexíkóskra og asískra áhrifa. Sumir standarnir eru vinsælli en aðrir en auðvelt er að sjá hverjir eru vinsælastir því þar myndast oft langar raðir. Hægt er að fá sér allt á milli himins og jarðar; pítsur, pasta, ostrur, krabba, taco, poke, sticky rice, falafel, ramen, morgunmat og eftirrétti, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er hægt að kaupa ýmsa ferskvöru en margir matarstandarnir nota einmitt hráefni sem selt er á markaðnum, fjölbreyttar tegundir af chili er þar að finna og einnig er mikið úrval af mole-mauki sem gaman er að nota eða taka með sér heim.

Uppskrift í anda Eggslut

Til er afar skemmtileg matreiðslubók sem gefin er út af markaðnum en hún ber nafnið The Grand Central Market og er eftir Adele Yellin sjálfa og Kevin West. Þar er að finna a.m.k. eina uppskrift frá hverjum stað og við fengum Foldu Guðlaugsdóttur, blaðamann Gestgjafans, til að elda eina uppskrift sem hefur verið aðlöguð íslenskum aðstæðum fyrir heimiliskokka en uppskriftin er frá einum vinsælasta staðnum á markaðnum, Eggslut, og skemmst er frá því að segja að rétturinn er algert lostæti og hentar sérlega vel í góðan bröns.

Linsoðin egg með kartöflumauki frá Eggslut
Í þessari uppskrift þarf að nota 4 stk. af 250 ml glerkrukkum með loki sem lokast vel.

55 g sjávarsalt, auka til að bragðbæta
450 g russet-kartöflur eða bökunarkartöflur, afhýddar og skornar í 2 cm teninga
10 ½ msk. (u.þ.b. 160 g) ósaltað smjör við stofuhita
4 egg
2 msk. graslaukur, smátt saxaður
ristað baguette-brauð til að bera fram.

Linsoðin egg með kartöflumauki frá Eggslut

Setjið saltið í pott með vatni og hitið að suðu. Sjóðið kartöflurnar í söltuðu vatninu í 15-20 mín. eða þar til þær verða mjúkar í gegn.

Takið pottinn af hitanum og fjarlægið kartöflurnar úr vatninu með götóttri skeið, hellið ekki vatninu úr pottinum. Setjið kartöflurnar í matvinnsluvél og maukið með smjörinu. Setjið kartöflurnar í skál og bragðbætið með sjávarsalti.

Setjið kartöflumaukið í sprautupoka og klippið endann af pokanum. Sprautið kartöflumaukinu í krukkurnar. Fyllið krukkurnar upp að 1/3. Brjótið 1 egg í hverja krukku, ofan á kartöflumaukið, og lokið krukkunum vel.

Setjið pottinn með saltvatninu á miðlungsháan hita og látið vatnið rétt ná suðu. Setjið krukkurnar í vatnið og eldið í 15-20 mín., eða þar til eggjahvítan hefur náð að eldast. Takið krukkurnar úr vatninu með töng og takið lokið af.

Dreifið graslauk yfir eggin og berið fram með ristuðu baguette-brauði.

Gott er að dýfa brauðinu í eggin.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -