2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Tíu ástæður til að fara til Edinborgar á nýju ári

Góður matur – Sennilega er besta matinn í Skotlandi að finna í Edinborg sem er mikil matar-og sælkeraborg en þar er fjöldinn allur af skemmtilegum og áhugaverðum matsölustöðum sem bjóða upp á matargerð frá öllum heimshornum þótt eðlilega séu margir staðir með skoskan mat. Fjöldann allan af skemmtilegum börum og pöbbum er einnig að finna í Edinborg og þar er hægt að fá frábært gin og góðan bjór.

Fallegar byggingar – Kastalar, kirkjur, gamlar byggingar og afar þröng stræti eða svokölluð „Close“ er víða að finna. Byggingarnar eru margar hverjar í dulúðlegum gotneskum og galdralegum stíl sem er afar heillandi. Höfundur Harry Potter, J. K. Rowling, segist hafa verið innblásin af Edinborg við skrifin sem hún stundaði einmitt á kaffihúsum borgarinnar.

Mynd: Nicola Gadler

Góð gönguborg – Miðborgin er hæfilega stór, þannig að alltaf er nóg að gera og sjá en hægt að fara nánast allt fótgangandi.

AUGLÝSING


Stutt ferðalag – Edinborg er í seilingarfjarlægð frá Íslandi en flugið þangað tekur ekki nema um tvær klukkustundir og aðeins hálfa klukkustund að koma sér niður í miðbæ frá flugvellinum. Easy Jet flýgur beint frá Keflavík til Edinborgar nokkrum sinnum í viku en einnig er hægt að fljúga til Glasgow með Icelandair og taka lest til Edinborgar sem tekur u.þ.b. klukkustund.

Garðar og útivistarsvæði – Græn útivistarsvæði  eru víða þar sem gaman er að ganga og njóta á góðviðrisdögum. Inn í borginni neðst við The Royal Mile er fjall sem kallast Arthur’s Seat en það er tilvalið fyrir útivistarfólk og þá sem vilja fara í fjallgöngu og njóta útsýnisins.

Borg fyrir búðarnörda– Verslanir eru ekki af skornum skammti og þær eru ansi margar í kringum Princesse Street og George Street sem er með svolítið fínni búðum. Mörg þekkt magasín á borð við Harvey Nichols, Jenners , Debenhams, John Lewis og Primark er að finna í miðbænum. Einnig eru margar litlar sætar búðir fyrir aftan kastalann á The Grassmarket.

Mynd: Madeleine Kohler

Vingjarnlegt viðmót – Skotar eru vingjarnlegir og taka vel á móti aðkomufólki og svo geta þeir líka verið skemmtilegir að spjalla við á öldurhúsum þ.e.a.s. ef maður á annað borð skilur skoskuna en framburður hennar getur stundum verið svolítið frábrugðinn þeirri ensku sem við þekkjum en hann er verulega sjarmerandi.

Söguborg – Mikil saga við hvert fótmál, bæði í borginni sem er undir borginni og einnig á götum borgarinna. Tilvalið að fara með leiðsögumanni í sögugöngutúr eða í draugagöngutúr að kveldi en borgin ku vera ein mesta draugaborg í Skotlandi og þó víðar væri leitað.

Hátíðir og viðburðir – Edinborg er mikil hátíðarborg og þar eru haldnir margir viðburðir og hátíðir á ári hverju og mætti nefna kvikmyndahátíð, sögusagnahátíð, vísindahátíð, barnahátíð, listahátíð og jazz og blues hátíð svo fátt eitt sé nefnt. Sjá lista yfir hátíðir borgarinnar hér, www.edinburghfestivalcity.com

Söfn og aftur söfn – Skemmtileg og fjölbreytt söfn eru í borginni og mætti nefna National museum of Scotland, Scottish National Gallery, The Royal Yacht og Mary King’s Close en þar er hægt að sjá hluta af gömlu borginni sem síðar var byggt ofan á.

Mynd: Filip Pizl

Lestu meira

Annað áhugavert efni