2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Tryllt salat með skemmtilegu tvisti

Salöt bjóða upp á endalausa möguleika og geta vel staðið sem aðalmáltíð ef haft er í huga að hafa hráefni úr öllum fæðuflokkum svo sem prótín, trefjar og góða fitu. Við fáum góðar fitur úr til dæmis hnetum, olíum og avókadói og grænmeti er fullt af góðum vítamínum, steinefnum og trefjum sem okkur veitir ekki af á þessum árstíma. Hér er eitt dásamlega gott og næringaríkt.

Rauðrófusalat með blámygluosti, plómum, ristuðum heslihnetum og hunangssósu

fyrir 3-4

Hunangssósa
3 msk. ólífuolía
1 ½ msk. sérríedik, má nota rauðvínsedik
1 msk. hunang
¼ hvítlauksgeiri, fínt saxaður eða pressaður
1 tsk. fennelfræ, ristuð á pönnu og steitt í mortéli
¼ rauðlaukur, afhýddur og skorinn í þunnar sneiðar
½ tsk. sjávarsalt

Hrærið allt hráefnið saman í skál, setjið rauðlaukinn og ½ tsk. af salti síðast saman við. Látið sósuna standa í 30 mínútur þannig að laukurinn mýkist.

AUGLÝSING


Rauðrófur og plómur
4-5 rauðrófur (um 350 g), afhýddar og gróft rifnar í rifjárni
3-4 plómur (um 250 g), skornar í 0,5 cm þykkar sneiðar
20 g fersk basilíka, stór lauf rifin í tvennt
5 g ferskt fáfnisgras
salatblanda að eigin vali
70 g góður blámygluostur rifinn
niður í grófa bita, við notuðum ost frá Castello
hnefafylli ristaðar heslihnetur án hýðis sem eru skornar gróft niður

Setjið rauðrófurnar, plómurnar, helminginn af basilíkunni og helminginn af fáfninsgrasinu saman í stóra skál. Hellið sósunni yfir og hrærið saman. Setjið á stóran disk með salatblöndunni. Dreifið ostinum yfir rauðrófublönduna ásamt heslihnetum og restinni af fersku kryddjurtunum.

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni