Fátt hentar eins vel með salati og góð vinaigrette-sósa. Hægt er að gera slíkar sósur á óteljandi máta en mikilvægt er ávallt að smakka þær til þar sem edik og olíur eru afar mismunandi að bragði. Ef olían er of römm og edikið of súrt getur verið gott að bæta við skvettu af hunangi. Ef edikið er aftur á móti of sætt getur aukaskvetta af sítrónusafa gert gæfumuninn og svo má ekki gleyma að krydda með pipar og salti.
Hérna koma tvær útgáfur, ein klassísk sem klikkar ekki og svo ein öðruvísi sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur.
KLASSÍSK VINAIGRETTE-SÓSA
2 msk. rauðvínsedik eða balsamedik
2 tsk. dijon-sinnep
6 msk. ólífuolía
sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
Hrærið saman edik og sinnep í skál og bætið ólífuolíunni saman við og hrærið vel í. Kryddið
til með pipar og salti og smakkið til.
Svo er þessi í sérstöku uppáhaldi hjá okkur.
SÍTRÓNU-LAUK-VINAIGRETTE
1 lítill skalotlaukur, smátt saxaður
1 dl olía
2 msk. hvítvínsedik
2 msk. sítrónusafi
1 tsk. sítrónubörkur
1 tsk. hunang
sjávarsalt
svartur pipar
Blandið öllu saman í skál og smakkið til. Þessi sósa er jafnvel betri daginn eftir þegar hún
hefur fengið að taka sig aðeins.
Gestgjafinn er vandað fagtímarit um mat, vín og ferðalög. Allar uppskriftir í matarþáttum blaðsins eru þróaðar, eldaðar og prófaðar í tilraunaeldhúsi Gestgjafans. Blaðið fæst í öllum helstu matvöruverslunum og bókabúðum en einnig er hægt að gerast áskrifandi í vefverslun.