2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Unaðslegar biscotti-kökur í hollari kantinum

Það er mun einfaldara að búa til biscotti en margur heldur. Möguleikarnir eru auk þess óþrjótandi þar sem hægt er að prófa sig áfram með mismunandi krydd, hnetur eða ólíkar tegundir af súkkulaði. Biscotti geymist vel og er þess vegna tilvalin tækifærisgjöf sem bragð er að.

Biscotti-kökur eru frábærar með kaffinu.

Súkkulaðihúðað biscotti með kanil og döðlum 

3 egg
1 tsk. vanillusykur
260 g hveiti
150 g sykur
1 tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
1 tsk. kanill
100 g döðlur, saxaðar
150 g dökkt súkkulaði, brætt

Hitið ofninn í 150°C. Þeytið egg og vanillusykur saman í skál og bætið hveiti, sykri, lyftidufti, salti og kanil saman við. Hrærið deigið saman þar til það verður þykkt og samfellt og bætið þá döðlunum út í. Látið bökunarpappírsörk á plötu, skiptið deiginu í tvennt og notið kökukefli til að móta tvo hleifa úr því og setjið á plötuna. Hafið svolítið bil á milli þeirra því þeir renna út við baksturinn. Bakið hleifana í u.þ.b. 20 mínútur, takið þá úr ofninum og kælið í 15 mínútur. Skerið í sneiðar, um það bil 3 cm þykkar, og leggið þær á hliðina á bökunarplötuna og bakið áfram í 12 mínútur á annarri hliðinni og 12 mínútur á hinni hliðinni eða þar til biscotti-kökurnar eru orðnar harðar í gegn. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en annarri hliðinni er dýft ofan í súkkulaði sem hefur verið brætt í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Leggið kökurnar því næst á bökunarpappír og leyfið súkkulaðinu að storkna. Biscotti geymist vel í tvær vikur í lokuðu íláti á þurrum, svölum stað.

AUGLÝSING


Texti / Sólveig Jónsdóttir

Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Mynd / Karl Petersson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum