2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Bakað grasker með jógúrt og kóríander

Grænmetisréttur sem jafnvel hörðustu kjötætur standast ekki.

Grænmetisréttir geta verið mjög fjölbreyttir og þarf það ekki að koma niður á bragði eða áferð í matnum að sleppa kjötinu af og til. Þvert á móti þá býður grænmetismatur upp á marga möguleika og spennandi getur verið að prófa sig áfram með öllum þeim nýjungum í korni, kryddi og grænmeti sem fæst nú hérlendis. Þessi grænmetisréttur hefur verið prófaður og samþykktur af hörðustu kjötætum en hann getur staðið einn og sér sem ljúffengur grænmetisréttur en virkar einnig vel sem meðlæti með ljósu kjöti.

Þrátt fyrir nafnið er bókhveiti ekki korntegund, heldur er það skylt jurtum eins og súrum og rabarbara. Það er fræ plöntunar sem er nýtt til manneldis og er neysla þess algeng í Asíulöndum en fer vaxandi á Vesturlöndum. Bókhveiti er ríkt af trefjum og inniheldur ekki glúten og hentar því vel fólki með slíkt óþol. Hérlendis er einnig hægt að fá malað bókhveiti sem hentar vel í pönnukökur og annan bakstur.

Bókhveiti og bakað grasker með jógúrt og kóríander
fyrir 4
Hægt er að kaupa bókhveiti bæði malað og ómalað, hér er notast við ómalað bókhveiti. Það fæst í heilsudeildum helstu matvöruverslana.

Bókhveiti
500 ml grænmetissoð
1 msk. ólífuolía
1 laukur, fínt saxaður
3 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
250 g bókhveiti
um 2 tsk. af sjávarsalti
um 1 tsk. nýmalaður svartur pipar
hnefafylli fersk steinselja, fínt skorin

AUGLÝSING


Setjið grænmetissoðið í pott og látið malla við væga suðu. Hitið olíu á djúpri pönnu á miðlungshita, steikið lauk og hvítlauk saman í um 2 mín. Bætið bókhveitinu saman við og blandið lauknum vel saman við.

Setjið 150 ml af grænmetissoði saman við og hrærið í allan tímann þar til vökvinn hefur gufað upp að mestu. Bætið við sama magni af soði í einu og látið gufa upp. Endurtakið þar til soðið er búið og bókhveitið hefur eldast. Þetta ferli ætti að taka um 15-20 mín.

Bókhveiti er þétt í sér og það á ekki að vera alveg mjúkt heldur með smá bit undir tönn. Bragðbætið bókhveitið með salti og pipar eftir smekk og hrærið steinseljunni saman við. Berið bókhveitið fram með bakaða graskerinu.

Bakað grasker með jógúrt og kóríander

Bakað grasker með jógúrt og kóríander
1 grasker, um 1,4 kg
1 tsk. kanill
90 ml ólífuolía
50 g kóríander, auka til að skreyta
1 hvítlauksgeiri, fínt saxaður eða kraminn í hvítlaukspressu
20 g graskersfræ, ristuð í 180°C heitum ofni í um 6-8 mín.
200 g grísk jógúrt
1 ½ tsk. Sriracha-sósa, eða önnur chili-sósa sem er ekki sæt
um 1 tsk. sjávarsalt
um 1 tsk. nýmalaður svartur pipar

Hitið ofn í 220°C. Skerið grasker í tvennt langsum og skafið fræin og kjarnann úr graskerinu.

Skerið graskerið í um 2 cm þykkar sneiðar, hafið hýðið á graskerinu. Setjið sneiðarnar í skál með kanil, 2 msk. af ólífuolíu, ¾ tsk. af sjávarsalti og ½ tsk. af pipar. Blandið öllu vel saman. Setjið graskerið á bökunarplötur með smjörpappír. Bakið graskerið í um 20-25 mín., eða þar til það er mjúkt og byrjað að brúnast á endunum.

Takið úr ofninum og setjið til hliðar til að kólna. Setjið kóríander, hvítlauk, ½ tsk. af sjávarsalti og 4 msk. af ólífuolíu saman í matvinnsluvél og maukið saman. Setjið graskerið yfir bókhveitið og hellið kóríandersósunni yfir ásamt grískri jógúrt og Sriracha-sósu.

Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum