2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Biscotti með trönuberjum, pistasíuhnetum og hvítu súkkulaði

Trönuber eru ekki bara mjög holl og góð fyrir okkur heldur eru þau líka alveg ómótstæðilega falleg.

 

Fersk trönuber fást víða í matvörubúðum þessa dagana og það er um að gera að prófa að nota þau í matargerð. Fersk trönuber þarf að matreiða, þau eru ekki mjög góð „eins og þau koma af kúnni“ en aftur á móti eru þau óskaplega falleg og tilvalin til þess að nota í skreytingar eins og við gerum hér. Þurrkuð trönuber eru bæði gott snarl til þess að grípa í og frábært hráefni í kökur og mat.

Biscotti með trönuberjum, pistasíuhnetum og hvítu súkkulaði

18-20 stk.

AUGLÝSING


120 g smjör, mjúkt
2 ½ dl sykur
börkur af 1 appelsínu
2 stór egg
4 dl hveiti
1 dl maizena-mjöl
1 ½ tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
safi úr 1/2 appelsínu
85 g þurrkuð trönuber (1 poki)
50 g pistasíuhnetur, gróft skornar
100 g hvítt súkkulaði, saxað gróft

Stillið ofninn á 175°C. Setjið smjör, sykur og appelsínubörk saman í hrærivélarskál og hrærið vel saman, það er gott að stoppa vélina annað slagið og losa um með sleikju svo að allt blandist vel. Bætið eggjum út í, einu í einu, hrærið vel á milli. Hrærið þar til blandan er orðin létt og ljós.

Setjið hveiti, maizena-mjöl, lyftiduft og salt saman í aðra skál, blandið vel saman, setjið þetta út í hrærivélarskálina og hrærið á hægum hraða þar til allt er vel samlagað. Setjið appelsínusafa saman við. Bætið hveiti út í ef deigið er of blautt, það á að vera klístrað en nokkuð stíft. Bætið hnetum og súkkulaði út í deigið.

Stráið hveiti á borð og veltið deiginu létt upp úr því þannig að auðvelt sé að eiga við það. Setjið deigið á ofnplötu með bökunarpappír og mótið hleif sem er u.þ.b. 3-4 cm þykkur. Bakið í 20-25 mín. eða þar til hleifurinn er bakaður í miðjunni,  best er að finna það með því að ýta létt með fingrunum í miðjuna. Takið plötuna úr ofninum og látið kólna. Lækkið hitann niður í 160°C.

Skerið lengjurnar varlega í u.þ.b. 1,5-2 cm þykkar sneiðar, raðið þeim á bökunarpappír á ofnplötu og bakið á hvorri hlið í 5-7 mín. Fylgist með svo að sneiðarnar verði ekki of dökkar, þær eiga aðeins að þorna og brúnast lítillega. Látið kólna alveg og geymið í lokuðu boxi.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum