2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Danskar eplaskífur í helgarbaksturinn

Eplaskífur eru frábærar í helgarbaksturinn

 

Æbleskiver eða eplaskífur er danskt sætabrauð sem er bakað í sérstökum pönnum. Eplaskífur minna á samblöndu af pönnuköku og bökuðum kleinuhring. Algengt er að bera fram þær fram í kringum jólin í Danmörku og hægt er að fá þær á götumörkuðum og í mörgum stórmörkuðum. Þó svo að enn sé langt í jólin ættum við ekki að láta það stoppa okkur í að baka þetta frábæra sætabrauð og hafa með kaffinu. Upprunalega voru settir eplabitar inn í deigið eða eplasósa og þannig kom nafnið til, það er hins vegar ekki alltaf gert í dag og algengara er að bera þennan rétt fram með flórsykri og sultu. Þó svo að hægt sé að kaupa æbleskiver tilbúnar í sumum stórmörkuðum þá jafnast ekkert á við að gera þær sjálfur og borða nýbakaðar.

Æbleskiver (eplaskífur)
20-25 stk.

250 g hveiti
¼ tsk. salt
½ tsk. matarsódi
1 msk. vanillusykur
4 dl súrmjólk
100 g smjör, brætt
3 egg
1 msk. sykur

AUGLÝSING


Brjótið eggin og setjið eggjahvíturnar í hrærivélarskál og eggjarauðurnar í aðra skál. Stífþeytið eggjahvíturnar. Skálin verður að vera tandurhrein og þurr þegar eggjahvíturnar eru þeyttar. Setjið til hliðar. Blandið eggjarauðum, hveiti, matarsóda, salti og vanillusykri saman í skál. Notið handþeytara til að blanda hráefninu saman og hellið súrmjólkinni saman við rólega og hrærið í allan tímann. Hrærið brædda smjörinu varlega saman við í mjórri bunu. Passið að smjörið sé ekki heitt þegar því er blandað saman við. Notið trésleif og hrærið stífu eggjahvítunum varlega saman við deigið. Gott er að byrja á litlum skammti af eggjahvítum til að létta deigið og blanda restinni svo varlega saman við. Hér þarf að passa að halda loftinu í deiginu.
Til að elda æbleskiver þarf sérstaka pönnu. Hitið pönnuna á miðlungshita og setjið örlítið af smjöri eða olíu í hverja holu. Fyllið holurnar upp að ¾ með deigi. Þegar hliðarnar á deiginu byrja að verða stökkar er skífunum snúið um 90° með því að nota trépinna eða svipað áhald. Fyllið holuna sem hefur myndast með örlitlu deigi og snúið skífunum aftur um 90° þannig að skífurnar lokist. Gott er að byrja að snúa þeim skífum sem voru fylltar fyrst með deigi. Þegar eplaskífurnar eru lokaðar er hægt að snúa þeim reglulega á öllum hliðum þannig að myndist jöfn stökk áferð. Setjið eplaskífurnar til hliðar á pappír og endurtakið ferlið með restina af deiginu. Dustið flórsykri yfir eplaskífurnar og berið fram með til dæmis hindberjasultu.

Eplaskífur með flórsykri og sultu. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Stílisti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum