2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Dýrindismáltíð á brauði með lítilli fyrirhöfn

Einföld uppskrift að glóðbrauði með reyktum laxi, rauðlauk og eggi.

Brauð býður upp á fjölbreytta möguleika í matargerð, allt frá raspi upp í fágað smurbrauð. Í raun er hægt að töfra fram dýrindismáltíð á brauði með lítilli fyrirhöfn, lykilatriði er að nota gott hráefni. Brauðið sjálft þarf að vera gott, svo og það sem sett er ofan á það. Til að brauð verði að sælkeramáltíð er gott að hafa nokkur atriði í huga, eins og að rista brauðið, nota kryddjurtir, góða olíu, pestó, ýmis mauk, piparrót og kaldar sósur. Sniðugt er einnig að nýta afganga, til dæmis af kjöti eða fiski. Glóðbrauðið sem við gefum ykkur uppskrift að er tilvalin sem kvöldverður í lok vinnuvikunnar, nú eða sem réttur á veisluborðið.

Dýrindis kvöldverður útbúinn með lítilli fyrirhöfn.

GRUNNUPPSKRIFT – GLÓÐBRAUÐ (BRUSCHETTA)

4 brauðsneiðar
2-3 msk. ólífuolía
1 hvítlauksgeiri

AUGLÝSING


Stillið ofninn á grillið og hafið hitann 230°C. Raðið brauðsneiðunum á grind og penslið með olíunni, stundum þarf meiri eða minni olíu, það fer svolítið eftir þéttleika og stærð brauðsneiðanna. Setjið grindina undir grillið í u.þ.b. 2-3 mínútur eða þar til brauðið er orðið gullið að lit. Best er að standa hjá ofninum og fylgjast vel með, því brauðið er mjög fljótt að brenna. Þegar brauðið er tekið úr ofninum, skerið þá hvítlauksgeirann í tvo hluta og nuddið yfir allt brauðið einnig er hægt að setja brauðið í mínútugrill og þá er sama aðferð notuð. Sé notuð brauðrist á aftur á móti að rista brauðið þurrt og pensla það síðan þegar brauðið er búið að ristast.

GLÓÐBRAUÐ MEÐ REYKTUM LAXI, RAUÐLAUK OG EGGI

kryddleginn rauðlaukur:
1 rauðlaukur, fínt sneiddur
½-1 l sjóðandi vatn
1 msk. sykur
1 dl hvítvínsedik
2-3 msk. ferskt dill, smátt saxað
1-2 tsk. einiber

Setjið rauðlauk í skál og hellið sjóðandi vatni yfir. Látið standa í u.þ.b. 1 mín. og sigtið þá vatnið frá. Losið um laukinn og setjið í skál. Blandið saman sykri, hvítvínsediki og fersku dilli. Merjið einiberin lítillega og setjið út í löginn. Hellið yfir rauðlaukinn og látið standa í a.m.k. 1 klst. og hrærið annað slagið.

DILLSÓSA:
1 dós sýrður rjómi
1 msk. ferskt dill, smátt saxað
safi úr ½ límónu
salt og nýmalaður ferskur pipar

OFAN Á:
1 grunnuppskrift að glóðbrauði
dillsósa
300 g reyktur gæðalax, þunnt sneiddur
4 léttsoðin egg, (u.þ.b. 4-5 mínútur)
1 límóna, skorin í sneiðar
kryddleginn rauðlaukur
hnefafylli blaðlauksspírur

Smyrjið þunnu lagi af dillsósunni á brauðin, setjið lax yfir og síðan svolítið meiri sósu. Látið síðan eggið, límónusneiðar og rauðlaukinn ofan á og skreytið með spírum og dilli. Kryddið með svörtum pipar. Einnig er gott að setja rifna piparrót yfir.

Umsjón /Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum