Þegar lítill tími er til stefnu getur verið þægilegt að kippa með sér bakka af ferskum kjúklingabringum úr búðinni.
Sérstaklega er fljótlegt að elda þær á pönnu og tilvalið að búa til gómsæta sósu úr gúmmelaðinu sem verður eftir á pönnunni við steikinguna. Einföld og fljótleg matreiðsla sem gott er að grípa til þegar á að elda eitthvað gómsætt og gott með litlum fyrirvara.
APRIKÓSU- OG SINNEPSKJÚKLINGUR
fyrir 4
4 stk. kjúklingabringur
6 msk. apríkósusulta
6 msk. hunangs-dijonsinnep
3 msk. hvítvínsedik
1 ½ tsk. fáfnisgras
2 greinar fersk rósmarín, laufin söxuð (eða ½ msk. þurrkað)
1 tsk. nýmalaður svartur pipar
½ púrrulaukur, fínt skorinn
1-2 tsk. sjávarsalt
3-4 msk. olía til steikingar
Skerið hverja kjúklingabringu í tvær þunnar sneiðar eftir endilöngu. Berjið þær létt með kjöthamri til þess að gera þær nokkurnvegin jafnþykkar. Blandið öllu nema olíunni og salti saman í skál og látið kjötið liggja í leginum í a.m.k. 1 klst. Hitið olíu á pönnu, stráið salti á bringurnar og steikið í 3-4 mín. á hvorri hlið eða þar til þær eru steiktar í gegn, eins má klára að elda þær í 180°C heitum ofni í u.þ.b. 10 mín. ef pannan þolir að fara í ofn. Berið fram með smjörsteiktum gulrótum og ofnbökuðum kartöflum.
SMJÖRSTEIKTAR GULRÆTUR:
500 g gulrætur, afhýddar og skornar í strimla
3 msk. smjör
1 msk. olía
1 msk. herbes de provence
1 tsk. sjávarsalt
1/2 tsk. svartur nýmalaður pipar
Sjóðið gulræturnar í saltvatni í 3-4 mín. Sigtið vatnið frá og þerrið gulræturnar lítillega. Hitið smjör og olíu á pönnu og steikið gulræturnar í nokkrar mín. Bætið herbes de provence saman við og bragðbætið með salti og pipar.
OFNBAKAÐAR KARTÖFLUR:
3-4 bökunarkartöflur, skornar í báta
3 msk. ólífuolía
safi úr 1/2 sítrónu
2-3 tsk. gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
Stillið ofn á 220°C. Blandið öllu vel saman og setjið á ofnplötu. Bakið í 30-40 mín. eða þar til bátarnir hafa tekið fallegan lit og eru mjúkir í gegn.
Umsjón/Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir/Rakel Ósk Sigurðardóttir
Stílisti/Ólöf Jakobína Ernudóttir