2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Ekta béarnaise-sósa – góð daginn eftir

Béarnaise-sósan er dásemd sem allir ættu að læra að gera.

Béarnaise-sósa er kennd við bæ sem heitir Béarn og er í Suðvestur-Frakklandi. Ástæða þess að sósan er kennd við fæðingarbæ Hinriks IV. Frakklandskonung (1553-1610) er líklega sú að hún var fyrst búin til á veitingahúsi rétt fyrir utan París sem hét einmitt Pavillon Henri IV. Hvort það er rétt eður ei þá skiptir mestu máli að sósan er dásemd sem allir ættu að læra að gera og hana er ekki eins erfitt að búa til og menn halda. Sósan er frábær með grilluðu lamba- og nautakjöti en hún passar líka vel með laxi.

1 skalotlaukur
3 msk. ferskt fáfnisgras
(2 ½ msk. sé notað þurrkað)
½ dl ljóst edik
hvítur pipar á hnífsoddi
salt á hnífsoddi
3 eggjarauður
1 msk. vatn
125 g smjör, brætt

Takið til hráefnin. Saxið lauk og fáfnisgras smátt. Hitið fáfnisgras og edik í potti. Kryddið og bætið eggjarauðum út í.

Saxið laukinn mjög smátt og fáfnisgrasið fremur gróft. Setjið skaftpott á helluna og stillið á meðalhita. Setjið laukinn, 2 msk. af fáfnisgrasi og edikið í pottinn og steikið þar til vökvinn hefur alveg gufað upp.

AUGLÝSING


Takið pottinn þá af hellunni, kryddið með pipar og saltið og bætið eggjarauðunum saman við ásamt vatninu.

Þeytið þar til sósan þykknar. Bætið smjöri saman við. Sigtið lauk og fáfnisgras frá. Bætið fersku fáfnisgresi út í.

Þeytið stanslaust í u.þ.b. 2 mínútur eða þar til sósan byrjar að þykkna, bætið þá smjörinu saman við í litlum skömmtum og hrærið í allan tímann, þetta tekur nokkrar mínútur.

Sigtið nú laukinn og fáfnisgrasið frá sósunni, bætið síðan 1 msk. af fersku fáfnisgrasi (1/2 msk. sé notað þurrkað) í sósuna áður en hún er borin fram.

Ef laga á sósuna nokkru áður en hún er borin fram er ráðlegt að blanda fáfnisgrasinu saman við rétt áður því annars getur sósan orðið römm og of bragðmikil.

Texti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum