2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Ekta skonsur með bökuðum rjóma

Ómissandi í teboðið.

Eftirmiðdagste á sér langa sögu í Bretlandi. Ein sagan segir að í kringum 1840 hafi Anna, hertogaynja í Bedford, þurft eitthvað til að seðja hungrið fram að kvöldverði en í þá daga var borðað tvisvar á dag. Þá tók hún upp á því að panta sér te, kökur og brauð. Þetta komst fljótt í tísku hjá aristókrötum samfélagsins á Viktoríutímabilinu í Bretlandi. Þar með hófst eftirmiðdagste-menningin sem nýtur enn í dag mikilla vinsælda. Skonsur með bökuðum rjóma og sultu eru algerlega ómissandi í hvert teborð og hér eru yndislegar uppskriftir sem auðvelt er að fara eftir.

Skonsur

U.þ.b. 8-10 skonsur
Ef ekki er til kökujárn má alltaf nota glas til að stinga skonsurnar út.

5 dl hveiti
2 tsk. lyftiduft
½ tsk. salt
30 g sykur
80 g smjör, kalt og skorið í litla teninga
85 ml mjólk
1 egg

AUGLÝSING


Setjið hveiti, lyftiduft, salt og sykur í matvinnsluvél og blandið létt saman. Setjið smjörið saman við og látið vélina ganga í stuttum slögum, 7-10 sinnum. Setjið deigið í skál. Látið mjólk og egg saman í aðra skál og hrærið saman. Setjið 2 msk. af eggjablöndunni til hliðar og hellið restinni saman við hveitiblönduna. Blandið saman með sleikju þar til gróft deig hefur myndast.

Færið deigið yfir á hreint borð með smávegis hveiti og hnoðið deigið saman með höndunum í um 2 mín. eða þar til það er orðið að kúlu.

Fletið deigið út með kökukefli þar til það er um 2 cm þykkt og notið um 6 cm breitt hringlaga kökujárn til að stinga út skonsurnar. Mótið afganginn af deiginu aftur og stingið út fleiri skonsur. Setjið skonsurnar á bökunarplötu með smjörpappír eða sílíkonmottu og penslið þær með eggjablöndunni sem var sett til hliðar.

Bakið skonsurnar í 13-15 mín. Skonsurnar eiga að þrefaldast í hæð og vera gullinbrúnar að lit.

Jarðarberjasulta með ylliberjum

300 g fersk jarðarber, grænu laufin fjarlægð
30 ml ylliblómadrykkur, við notuðum organic eldeflower pressé sem fæst í Hagkaup.
50 g sykur

Setjið allt hráefnið saman í skál og látið standa við stofuhita í 4 klst. eða í ísskáp yfir nótt. Setjið jarðarberjablönduna í þykkbotna pott og hitið á miðlungshita, þar til blandan byrjar að freyða. Hrærið í reglulega. Lækkið hitann undir pottinum og sjóðið saman þar til mestur vökvinn hefur gufað upp, u.þ.b. 30 mín. Sultan mun þykkna meira eftir að hún kólnar. Setjið sultuna í krukku og geymið í kæli.

Bakaður rjómi eða „clotted cream“ er fastur liður í eftirmiðdagsteboðum á Bretlandi og passar einstaklega vel með nýbökuðum skonsum.

Bakaður rjómi

Þessi aðferð við að baka rjóma á lágum hita á sér langa sögu í Bretlandi. Bakaður rjómi eða „clotted cream“ er fastur liður í eftirmiðdagsteboðum á Bretlandi og passar einstaklega vel með nýbökuðum skonsum. Í mörgum löndum myndi þessi bakaði rjómi vera flokkaður sem smjör vegna hins háa fituinnihalds hans en til þess að vera flokkaður sem clotted cream í Bretlandi þarf fituinnihaldið að vera að minnsta kosti 55% en er oftast um 64%. Þessi aðferð er ekki flókin en tekur sinn tíma, áferðin er einstök og rjóminn er afar ljúffengur og alveg biðarinnar virði.

1 l rjómi, helst lífrænn
eldfast mót
plastfilma
skál

Skref 1. Hitið ofn í 80°C. Hellið rjómanum í eldfast mót. Rjóminn ætti að ná 3-5 cm upp frá botninum á mótinu. Setjið eldfasta mótið inn í ofn. Skiljið rjómann eftir í 12 klst. án þess að hreyfa við honum.

Skref 2. Takið formið úr ofninum og látið rjómann kólna. Skref 3. Plastið formið og setjið í kæli yfir nótt.

Skref 4. Skafið þykka rjómann úr forminu og setjið í krukku eða krukkur með loki. Hellið rjómanum sem varð eftir undir þykka laginu í skál og notið í aðra matseld.

Skref 5. Geymið krukkurnar með rjómanum í ísskáp.

Skref 6. Smyrjið skonsur með bökuðum rjóma og njótið.

Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum