2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Fátt eins notalegt og að borða pottrétt á veturna“

Ritstjóri Gestgjafans gefur uppskrift að ljúffengum pottrétti og nokkur góð ráð í leiðinni.

Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, ritsjóri Gestgjafans, hefur starfað um árabil á þessu fallega matartímariti sem margir hafa alist upp við í eldhúsinu. Mannlíf kom því ekki að tómum kofa þegar það fór þess á leit við Hönnu að fá ráð varðandi gerð pottrétta. Og fékk eina gómsæta uppskrift í kaupbæti.

Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, ritsjóri Gestgjafans, hefur starfað um árabil á þessu fallega matartímariti sem margir hafa alist upp við í eldhúsinu. Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Ég er mikið fyrir pottrétti, sérstaklega á þessum árstíma. Þeir eru svo þægilegir að mörgu leyti. Það er hægt að elda stóra skammta og frysta eða geyma, uppvaskið verður ekki mikið þar sem allt er eldað í einum potti og svo er gaman að breyta uppskriftunum og leika sér með krydd og hráefni,“ segir Hanna. „Fyrir utan það eru pottréttir eru oft hægeldaðir og því hægt að kaupa ódýrt kjöt sem verður lungamjúkt við hægeldun.“

Að hennar sögn falla sumir pottréttir undir svokallaðan „comfort“ mat sem ritstjórn Gestgjafans hefur þýtt bæði sem „notalegur matur“ eða „vetrarmatur“. Enda eigi pottréttir einmitt svo vel við á veturna, þar sem það sé fátt eins notalegt og að borða góðan pottrétt við kertaljós á meðan kaldur vindur lemji á gluggana.

AUGLÝSING


Við gerð slíkra rétta segir Hanna að það sé nánast hægt að sækja sér innblástur til hvaða heimsálfu sem er þar sem pottréttir þekkist í einhverri mynd í flestum samfélögum. „Á mínu heimili eru indverskir, franskir, taílenskir og marokkóskir pottréttir nokkuð vinsælir. Dætur mínar eru mikið fyrir mexíkóska pottrétti og maðurinn minn eldar oft ítalska réttinn „osso bucco“, þannig að fjölbreytileikinn er mikill.“

Sjálf kveðst hún stundum blanda saman pottréttum. Til dæmis geri hún taílenska -indverska samsuðu enda þyki sér gaman að prófa sig áfram í matargerð og gera eitthvað nýtt.

„Ef ég býð í mat finnst mér gaman að bjóða upp á franska kjúklingaréttinn coq au vin, en þótt pottréttir flokkist almennt undir frekar grófa matargerð þá finnst mér þetta afar fínlegur og lekker réttur,“ segir hún og getur þess að áður fyrr hafi hún alltaf gert coq au vin með rauðvíni en nú finnist sér betra að nota hvítvín.

„Margir pottréttir eru betri daginn eftir að þeir hafa verð eldaðir því þá hefur bragðið náð að sogast inn í hráefnið og í sósuna. Ég krydda oft pottréttinn með nýju kryddi daginn eftir þegar ég hita hann upp og þá verður hann eins og nýr og börnin fatta ekki að þau eru að borða afganga.“

 

„Einn uppáhaldspottrétturinn minn er samt ratatouille sem ég lærði að gera þegar ég bjó í Frakklandi fyrir mörgum árum. En þessi skemmtilegi réttur, sem varð á augabragði heimsfrægur eftir að samnefnd teiknimynd var frumsýnd hér um árið, er grænmetispottréttur. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera kjöt,“ bendir hún á.

Innt eftir ráðleggingum varðandi gerð pottrétta gefur Hanna eftirfarandi ráð.

„Mér finnst, eins og alltaf, skipta höfuðmáli að nota gott hráefni. Helst það sem er ferskast hverju sinni. Það getur reyndar verið erfitt yfir hávetrartímann en þá mæli ég með rótargrænmeti.

Mikilvægt er að brúna allt kjöt áður en vökvi er settur út í pottinn. Alls ekki þrífa pottinn á milli þess sem kjötið er steikt og anað sett í hann. Notið skófina sem myndast í botninum til að fá góða bragðið.

Notið almennilegt gæðasoð, helst heimagert. Alla vega ekki ódýran tening.

Ekki spara kryddið. Grænmeti og kjöt soga oft til sín bragð og því þarf vel af því. Ég salta og pipra alltaf vel þegar það á við. Þó þarf að passa saltið ef notað er soð, því það getur oft verið salt.

Ef ég er að búa til pottrétt sem er með tómötum, ferskum eða í dós, nota ég oft smávegis sykur til að jafna út bragðið á móti sýrunni í tómötunum.

Margir pottréttir eru betri daginn eftir að þeir hafa verð eldaðir því þá hefur bragðið náð að sogast inn í hráefnið og í sósuna. Ég krydda svo oft pottréttinn með nýju kryddi daginn eftir þegar ég hita hann upp og þá verður hann eins og nýr og börnin fatta ekki að þau eru í raun að borða afganga.

Nautagúllaspottrétt er sniðugt að setja í eldfast mót daginn eftir og setja deig eða ost yfir og hita í ofninum, þá er kominn nýr réttur.

„Ég krydda svo oft pottréttinn með nýju kryddi daginn eftir þegar ég hita hann upp og þá verður hann eins og nýr og börnin fatta ekki að þau eru í raun að borða afganga.“

Í vetrarlega pottrétti, sem innihalda kjöt, er mikilvægt að nota líka mikið grænmeti, því nauðsynlegt er að hafa jafnvægi á milli hráefnisins.

Verið óhrædd við að hugsa út fyrir boxið og notið fjölbreytt kryddmauk, það getur aldrei skaðað.

Mér finnst mikilvægt að elda pottrétt í góðum potti. Ég nota mikið emailéraðan pottjárnspott sem dreifir vel hitanum og helst lengi heitur t.d. þegar hann er settur á borðið. Það er líka svo skemmtilegt að elda í góðum og fallegum gerðarlegum potti.

Loks mæli ég auðvitað með uppskriftum úr Gesgtjafanum. Þar er reglulega að finna góðar uppskriftir að pottréttum sem eru eldaðaðir, myndaðir og smakkaðir til af ritstjórninni.“
Texti / Roald Eyvindsson

_______________________________________________________________

Ljúffengur réttur sem yljar. Mynd / Karl Petersson

Lambakjöt í taílenskri kókós-kóríandersósu fyrir 4

sósa:
1 búnt kóríander
4 hvítlauksgeirar
2 chili-aldin
5 cm fersk engiferrót, skræld
½ dl bragðlítil olía, t.d. kornolía
½ límóna, safi notaður
2 msk. red curry paste
1 ½ msk. fiskisósa
1 msk. sojasósa
2 tsk. kurlað sítrónugras,
1 msk. sykur
1 dós kókósmjólk

Setjið kóríander, hvítlaukinn, chili-aldinið og engiferið í matvinnsluvél og hellið olíunni út í litlum skömmtum þar til allt er orðið vel maukað. Bætið þá restinni af hráefninu saman við nema kókósmjólkinni og maukið áfram. Hellið kókósmjólkinni saman við alveg í lokin.

3 msk. bragðlítil olía, t.d. kornolía
1 búnt spergilkál, hlutað í minni bita
3 gulrætur, smátt sneiddar
2 rauðar paprikur
500 g lambalund, snyrt og skorin í bita
1 msk. sojasósa

Hitið 3 msk. af olíu á stórri pönnu, helst wok-pönnu, og steikið grænmetið í u.þ.b. 4-5 mínútur. Bætið kjötinu saman við ásamt sojasósunni og brúnið kjötið. Hellið kókos út á pönnuna og látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið malla í u.þ.b. 3-4 mínútur. Berið fram með hrísgrjónum og ferskum kóríander. Sósuna má gera að morgni og geyma til kvölds en þá er betra að setja kókósmjólkina saman við þegar rétturinn er eldaður. Hægt er að ráða hvað rétturinn er sterkur með því að minnka eða bæta við chili-aldini, munið að fræin eru afar sterk.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum