2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fimm fullkomnir partíréttir

Gómsætir réttir sem má töfra fram með lítilli fyrirhöfn.

Þar sem jól og áramót snúast að miklu leyti um mat þá eru margir önnum kafnir í eldhúsinu á þessum tíma. Tímasetningar eru mikilvægar þegar margir réttir eru eldaðir og allt á að vera fullkomið. Lykillinn að stresslausu ástandi í eldhúsinu er gott skipulag, ekki elda t.d. alla réttina í ofni og passið að hafa forrétt og eftirrétt tilbúna fyrirfram. Góður matur þarf líka ekki endilega að vera flókinn. Hér eru nokkrir sniðugir og gómsætir réttir sem má bera fram sem forrétti eða partírétti og hægt er að töfra fram með lítilli fyrirhöfn. Suma er hægt að útbúa áður en jóla- eða áramótasteikin fer inn í ofninn.

Innbakaður lax með tartarsósu.

Innbakaður lax með tartarsósu
fyrir 4

400 g lax
4 msk. góð ólífuolía
4 msk. sítrónusafi
hnefafylli ferskt dill
hnefafylli salatsellerí
4 sítrónusneiðar
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

AUGLÝSING


Hitið ofn í 190°C. Útbúið 4 arkir af bökunarpappír sem eru nægilega stórar til þess að brjóta utan um laxabitana. Setjið 1 msk. olíu, laxastykki og 1 msk. sítrónusafa á hverja örk, dreifið kryddjurtum ofan á og stráið salti og pipar yfir. Setjið sítrónusneið ofan á hvert laxastykki og pakkið inn í bökunarpappírinn. Best er að nota heftara, bretta pappírinn saman þannig að það myndist lokað umslag utan um fiskinn og hefta fast. Bakið í 10-12 mín. og látið síðan standa í 5-10 mín. áður en fiskurinn er borinn fram með tartarsósunni.

Tartarsósa:

Þessa sósu er hægt að gera daginn fyrir notkun og svo má stytta sér leið með því að kaupa gott majónes í stað þess að gera það frá grunni

3 eggjarauður
1 msk. dijon-sinnep
2 ½ dl bragðlítil olía, t.d. sólblóma- eða vínberjaolía
1 msk. sítrónusafi
salt á hnífsoddi
nýmalaður svartur pipar
1 skalotlaukur, saxaður fínt
4 litlar súrsaðar agúrkur, saxaðar fínt
2 msk. kapers
2 harðsoðin egg, skorin með eggjaskera
1 tsk. hunang
2 msk. steinselja, söxuð
2 msk. dill, saxað
1 msk. graslaukur

Setjið eggjarauður og sinnep saman í matvinnsluvél og þeytið með hnífnum á meðalhraða í u.þ.b. 30-40 sekúndur. Blandið nú olíunni saman í könnu sem auðvelt er að hella úr. Hellið olíunni löturhægt í afar mjórri bunu inn um gatið á lokinu á meðan vélin gengur. Blandan ætti að fara að þykkna u.þ.b. 15 sekúndum eftir að byrjað er að hella olíunni. Bætið sítrónusafa saman við. Bætið salti og pipar við í lokin og slökkvið á vélinni. Blandið restinni af hráefninu saman og smakkið til með pipar og salti.

_______________________________________________________________

Nauta-carpaccio með piparrótarrjóma
fyrir 4-6

300 g nautalund
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
u.þ.b. 30 ristaðar furuhnetur
2-3 msk. gæða ólífuolía
4-6 msk. rifinn ferskur parmesanostur
50 g klettasalat
piparrótarrjómi (sjá uppskrift)

Pakkið lundinni inn í plastfilmu og setjið í frysti í 2-3 klst. Takið þá út og skerið í mjög þunnar sneiðar og raðið fallega á lítinn disk.

Nauta-carpaccio með piparrótarrjóma og skelfiskur með mandarínum.

Stráið salti og pipar yfir ásamt ristuðum furuhnetum og dreypið ólífuolíu yfir. Rífið parmesanost og stráið yfir og berið fram með klettasalati og piparrótarrjóma.

Piparrótarrjómi:
2 dl rjómi
1-½ msk. piparrót, rifin
1 tsk. sítrónusafi
½ tsk. sykur
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Léttþeytið rjóma og piparrót saman og bragðbætið með sítrónusafa, salti, pipar og sykri.

Skelfiskur með mandarínum
fyrir 4
6 stk. stór hörpuskel
2 mandarínur
6-8 graslauksstrá, söxuð
2 stilkar dill
3 stilkar kóríander
4 msk. olía, helst hnetuolíla
½ sítróna, safi og börkur
salt
nýmalaður svartur pipar
4 radísur til skrauts, skornar mjög þunnt

Skerið hörpuskelina mjög þunnt niður þversum, látið í skál. Skerið börkinn af mandarínunum með beittum hníf þannig að hvíti hlutinn af mandarínunni sjálfri fari af. Notið hnífinn til að skera laufin frá hvíta hlutanum og látið laufin í skálina, gerið þetta yfir skálinni þannig að safinn leki ofan í hana. Látið restina af hráefninu saman við, smakkið til. Setjið í fallegar skálar eða á disk og berið fram. Einnig má útbúa þennan rétt nokkrum tímum áður en hann er borinn fram.

_______________________________________________________________

Reyktur lax með lárperumauki og kryddjurtaraspi
fyrir 4

u.þ.b. 200 g reyktur lax, í sneiðum
lárperumauk (sjá uppskrift)
krydduð brauðmylsna (sjá uppskrift)
góð ólífuolía
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Samsetning:

Dreifið lárperumauki á lítinn disk, raðið reyktum laxi fallega ofan á, dreifið brauðmylsnu yfir ásamt ólífuolíu og salti og pipar.

Frá vinstri: Reyktur lax með lárperumauki og kryddjurtaraspi. Brúsketta með gæsalifur.

Lárperumauk:
1 stór lárpera
1 límóna, safi og börkur
100 g rjómaostur, gjarnan með kryddjurtum
2-3 greinar ferskt dill
nokkur graslauksstrá
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Setjið allt saman í matvinnsluvél og maukið vel saman. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk.

Krydduð brauðmylsna:
1-2 brauðsneiðar (gott að nota súrdeigsbrauð)
hnefafylli fersk steinselja, söxuð
börkur af ½ límónu
1-2 msk. saxaðar pistasíur
¼-½ hvítlauksgeiri, fínt rifinn

Hitið ofn í 190°C. Rífið brauðið gróft og dreifið á ofnplötu. Bakið í 10-15 mín. eða þar til brauðið er lítillega brúnað. Látið kólna og saxið síðan nokkuð fínt. Blandið saman við restina af hráefninu.

Brúsketta með gæsalifur
fyrir 4

1 dós góð gæsalifur
8 sneiðar af snittubrauði
½ dl ólífuolía
½ hvítlauksgeiri
30-40 g klettasalat
12 pekanhnetur
salt
nýmalaður svartur pipar
8 tsk. gæða fíkjusulta

Hitið grillið í ofninum, raðið brauðsneiðunum á grind og penslið með ólífuolíu. Látið brauðið undir grillið og fylgist vel með. Þegar olían er farin að krauma og brauðið er orðið vel gullið að lit takið það þá út og nuddið hvítlauknum í hvert brauð. Setjið klettasalatið í skál með 1 tsk. af olíu og bragðbætið með salti og pipar. Smyrjið gæsalifrinni á brauðið, látið nokkur klettakálsblöð ofan á hverja sneið og setjið fíkjusultuna yfir og sáldrið pekanhnetunum yfir allt. Bragðbætið með pipar og salti og sáldrið svolítilli olíu yfir allt og skreytið með rifsberjum.

Umjón / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum