2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Franskur réttur í sumarbrönsinn

Pain perdu er frægur franskur eftirréttur sem þróaðist á þeim tíma þegar allur matur var nýttur til fulls og ekkert mátti fara til spillis. Í dag er algengt að þessi réttur sé hafður í bröns enda einfaldur og góður beint af pönnunni með sultu eða berjasósu. Tilvalið ef þið viljið bjóða upp á eitthvað nýtt og ferskt í sumarbrönsinn.

Pain perdu inniheldur mjólk, egg, smjör, sykur, vanillu og hvítt brauð eða sætt brioche-brauð sem því miður fæst ekki hér á landi. Oft var brauðið sem notað var orðið fremur hart og gamalt en fékk nýtt líf þegar það var baðað í mjólk, sykri, eggjum og smjöri. Pain perdu þýðir týnt brauð en ekki er gefin skýring á nafninu sem slíku í Larousse gastronomique, þó má leiða að því líkur að brauðið sjálft hverfi þegar búið er að baða það upp úr mjólk og eggjum. Rétturinn er bestur beint af pönnunni með sultu eða berjasósu. Hér er hefðbundin uppskrift að pain perdu með dásamlegri berjasósu sem reyndar passar með mörgum eftirréttum.

Í Pain perdu fara 5-6 franskbrauðsneiðar, 2 stór egg eða 3 lítil, 2 ½ dl mjólk, 1 vanillustöng, 80 g sykur, 80 g smjör, 40 g ljós púðursykur, eða hrásykur.

Pain perudu
5-6 sneiðar

5-6 franskbrauðsneiðar
2 stór egg eða 3 lítil
2 ½ dl mjólk
1 vanillustöng
80 g sykur
80 g smjör
40 g ljós púðursykur, eða hrásykur

Sláið eggin vel saman með gaffli og hellið í djúpan disk. Látið mjólkina í skaftpott, kljúfið vanillustöngina í tvennt og skafið kornin innan úr og setjið saman við mjólkina ásamt sykrinum. Hitið mjólkina að suðu eða þar til sykurinn hefur bráðnað. Hellið mjólkurblöndunni í djúpan disk. Bræðið helminginn af smjörinu á pönnu, dýfið brauðinu í mjólkina í augnablik á hvorri hlið, alls ekki láta brauðið standa í mjólkinni. Dýfið því næst báðum hliðum á brauðinu í eggjablönduna. Setjið brauðið á pönnu og steikið vel þar til það hefur brúnast vel, snúið því við og sáldrið svolitlum púðursykri ofan á brauðið og klárið steikinguna á brauðinu. Bætið svo við smjöri þegar líður á steikinguna. Passið að hafa góðan hita svo brauðið verði stökkt og gott. Berið fram með berjasósunni og ferskum berjum, einnig má setja síróp eða sultu á brauðið. Stundum læt ég smávegis af kanil út í mjólkina í stað vanillu.

AUGLÝSING


Í berjasósuna fer 1 ½ -2 dl sykur, ½ dl vatn, ½ poki blönduð ber t.d. hindber, bláber, brómber og jarðarber, 1 sítróna, safi notaður, 1-2 msk. cassis-líkjör eða óblandaður Ribena-djús. 

Berjasósa

1 ½ -2 dl sykur
½ dl vatn
½ poki blönduð ber (250 g t.d. hindber, bláber, brómber og jarðarber)
1 sítróna, safi notaður
1-2 msk. cassis-líkjör eða óblandaður Ribena-djús

Setjið berin í skaftpott og stillið á fremur háan hita. Bætið sykrinum saman við ásamt vatninu og sítrónusafanum. Látið sjóða í u.þ.b. 5 mínútur, bætið þá líkjörnum saman við og lækkið hitann. Látið sjóða niður í aðrar 5 mínútur. Setjið sigti yfir skál, hellið innihaldi pottsins í sigtið og stappið vel með skeið þannig að sem mestur vökvi renni af. Hendið hratinu frá og kælið sósuna í ísskáp. Sósan geymist í allt að viku í ísskáp. Ber eru missæt, ef sósan er of súr má setja svolítinn flórsykur saman við. Sósan passar með panna cotta, franskri súkkulaðiköku, marenstertum og ís svo fátt eitt sé nefnt.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum