2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Geggjað á grillið – kalkúnaspjót sem slá í gegn!

Vor í lofti? Er ekki kominn tími á fyrsta grillið?

Hefð er fyrir því að grilla mat hjá mörgum þjóðum víðs vegar um heim enda eldunaraðferð sem notuð hefur verið frá örófi alda. Í mörgum löndum í Asíu er matur grillaður á hverju götuhorni svo loftið ilmar af grilluðu kjöti og fiski með engifer, kóríander, hvítlauk og chili. Bragðmikil krydd, kryddjurtir og fjölbreytt úrval af sósum einkenna grillmat frá þessum heimshluta og það er í raun ótrúlegt hvað sósurnar gera mikið fyrir matinn. Þess má geta að sósurnar í asískri matargerð eru fremur einfaldar og fljótlegar en í dag ættu allir að geta nálgast allt það hráefni sem til þarf bæði í matvörubúðum og búðum sem sérhæfa sig í asískri matargerð. Þessi kalkúnaspjót eru algert sælgæti!

Úrval af asískum vörum hefur aukist og fæst í flestum verslunum í dag.

Kalkúnaspjót
fyrir 4

Hér má einnig nota kjúklingahakk

600 g kalkúnahakk (fæst frosið í Hagkaup)
2 msk. kasjúhnetur
hnefafylli ferskur kóríander
5 skalotlaukar
4 hvítlauksgeirar
1 ferskur chili-pipar
2 stilkar sítrónugras, marðir vel með skafti á hníf og saxaðir
4 cm ferskt engifer
2 tsk. túrmerik
½ tsk. salt

AUGLÝSING


8 stilkar sítrónugras, klofið í tvennt eða gróf grillspjót

Setjið allt nema hakkið í matvinnsluvél og maukið vel. Setjið hakkið í skál og blandið maukinu saman við, þetta er best að gera með höndunum. Mótið aflangar bollur og klemmið utan um sítrónugrasstilk eða grillspjót. Grillið á heitu grilli í u.þ.b. 8-10 mín. gott að snúa spjótunum. Passið að elda kjötið vel í gegn. Berið fram með sætri ediksósu.

Sæt ediksósa með chili-aldini

1 ⅓ dl hrísgrjónaedik
130 g sykur
3 stórir hvítlauksgeirar, gróft saxaðir
2 rauð chili-aldin, fræhreinsuð og söxuð
salt á hnífsoddi
¼ agúrka, smátt söxuð, má sleppa
3 msk. kóríander, smátt saxaður
2 msk. mynta, smátt söxuð
2 msk. límónusafi

Setjið edikið og sykurinn í skaftpott og sjóðið þar til sykurinn er bráðnaður og blandan hefur þykknað. Setjið hvítlauk, chili-aldin og salt í skál og hellið sósunni yfir, setjið filmu yfir og kælið í ísskáp í a.m.k. 30 mínútur. Setjið agúrkuna og kóríanderinn og myntuna saman við og látið standa í a.m.k. 10 mínútur áður en sósan er borin fram með kalkúnaspjótunum.

Texti og stilisti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir/Ernir Eyjólfsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum