2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Geggjuð hindberja-marensterta með heslihnetum!

Frábær og fljótleg uppskrift sem minnir svolítið á að sumarið er á næsta leiti! Ristaðar heslihnetur, hindber og marens er blanda sem bara getur ekki klikkað!

Heslihnetur verða mun bragðmeiri og betri ef þær eru ristaðar. Gjarnan má nota jarðarber í kökuna ef ekki fást hindber.

Hindberjaterta með heslihnetum
fyrir 10-12

Botnar:
125 g heslihnetur
4  eggjahvítur
250 g sykur
½ tsk. edik
1 tsk. vanilludropar

Fylling:
4-5 dl rjómi
300 g hindber
2 msk. flórsykur

Hitið ofninn í 190°C. Saxið heslihneturnar frekar gróft, best er að saxa þær á bretti svo þær verði jafnari en matvinnsluvél er líka í góðu lagi. Ristið hneturnar á pönnu og kælið þær aðeins. Þeytið eggjahvítur þar til þær fara að stífna. Setjið sykur út í, eina skeið í einu, og hrærið í á meðan. Hrærið í 2-3 mín. í viðbót eftir að sykurinn hefur samlagast. Bætið þá ediki og vanillu saman við. Smyrjið tvö 22 cm lausbotna form með olíu og skiptið deiginu á milli þeirra. Bakið botnana í 35-40 mín.

AUGLÝSING


Þeytið rjómann. Maukið helminginn af hindberjunum og blandið saman við hann ásamt flórsykri. Leggið botnana saman með helmingnum af rjómanum og jafnið hinum helmingnum ofan á. Skreytið með hindberjum og hindberjasósunni.

Hindberjasósa (coulis)

500 g frosin hindber
2 dl sykur
3 dl vatn
safi úr 1 sítrónu

Setjið allt saman á pönnu, hitið að suðu og látið malla við meðalhita í um 10 mínútur. Takið af hellunni og látið kólna. Maukið í matvinnsluvél og þrýstið síðan gegnum sigti. Geymist í 4-5 daga í kæli.

Umsjón/Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir/Kristinn Magnússon
Stílisti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum