Geggjuð mexíkósk baka sem allir elska

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Bökur eru frábær kvöldmatur og kærkomin tilbreyting frá soðnu ýsunni eða mexíkósúpunni. Þessi uppskrift er einstaklega bragðgóð og sniðug þegar margir eru í mat þar sem hún dugir fyrir u.þ.b átta manns en hún er líka tilvalin til að hita upp daginn eftir. Bakan er góð með fersku salati, nachos-flögum, salsasósu og sýrðum rjóma.

 

Mexíkóbaka með kjúklingi
fyrir 8-10

Ósæt bökuskel
dugar í form sem er 24-26 cm í þvermál

5 dl hveiti
1 tsk. gróft sjávarsalt
150 g kalt smjör í bitum
½  dl ískalt vatn (og 2-3 msk. í viðbót ef þarf)
1 msk. hvítvínsedik

Setjið hveiti og salt saman í matvinnsluvél og blandið vel saman. Setjið smjör saman við og látið vélina ganga í stuttum slögum þar til blandan líkist grófri brauðmylsnu. Setjið vatn og hvítvínsedik út í og blandið saman við, annaðhvort með mjög stuttum slögum í vélinni eða með því að setja deigið í skál og blanda vökvanum saman við með gaffli. Athugið að deigið er þurrt og á rétt að hanga saman þegar það er kreist saman á milli fingranna. Búið til kúlu og pakkið henni inn í plastfilmu. Setjið í kæli í 30 mín. Fletjið deigið út á hveitistráðu borði þannig að það nái að þekja bökuformið, snyrtið brúnirnar, pikkið deigið með gaffli og setjið formið aftur í kæli í a.m.k. 30 mín. Hitið ofn í 180°C. Setjið álpappír þétt ofan á skelina og meðfram og yfir brúnirnar. Setjið gjarnan hrísgrjón, þurrkaðar baunir eða þartilgerðar bökubaunir (úr leir) ofan á. Þetta er gert til þess að bökuskelin haldi laginu þegar hún er blindbökuð. Bakið skelina í 10 mín. takið þá fargið og álpappírinn af og bakið áfram í u.þ.b. 5 mín.

Fylling
1-2 msk. olía til steikingar
1 laukur, þunnt sneiddur
2 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir
1 paprika, skorin í litla bita
1 lítil dós maískorn
300 g eldað kjúklingakjöt, skorið í bita eða rifið
200 g rjómaostur
1 dós sýrður rjómi (180 g)
6 egg
skvetta tabasco-sósa
2 tsk. paprikuduft
½  tsk. reykt paprikuduft
1-2 tsk. salt

Hitið ofn í 180°C. Hitið olíu á pönnu og steikið lauk við meðalhita þar til hann er mjúkur, bætið hvítlauk og papriku saman við og steikið áfram í 10 mín. Sigtið allan vökva vel frá maískornunum og bætið þeim á pönnuna. Steikið áfram í nokkrar mín. Látið kólna lítillega. Hrærið saman rjómaost, sýrðan rjóma, egg, tabasco-sósu og krydd, bragðbætið með salti eins og þarf. Dreifið kjúklingakjöti í botninn á bökuskelinni, setjið grænmetið af pönnunni yfir og hellið að lokum eggjablöndunni yfir. Bakið í u.þ.b 45 mín. Berið bökuna fram volga ásamt góðu salati, nachos-flögum, sýrðum rjóma og salsa-sósu.

Umsjón/Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd/Aldís Pálsdóttir

 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -