2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Gómsætt meðlæti með páskamatnum

Rétt meðlæti er oft það sem gerir máltíðina að sælkeramat. Hér gefum við ykkur uppskriftir að gómsætu meðlæti sem er fullkomið á páskaborðið.

Bakaðar gulrætur með parmesanosti og steinselju
fyrir 4-6

2 msk. smjör, bráðið
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
8-10 heilar gulrætur, burstaðar og þvegnar
gróft sjávarsalt, eftir smekk
svartur nýmalaður pipar, eftir smekk
4 msk. parmesanostur, rifinn
2 msk. steinselja, söxuð

Hitið ofninn í 200°C. Blandið saman hvítlauk og smjöri og veltið gulrótunum upp úr því, Bragðbætið með salti og pipar. Bakið í 20 mín. Takið úr ofninum og stráið parmesanosti yfir og bakið áfram í 10 mín.

Stráið saxaðri steinselju yfir eftir að gulræturnar koma úr ofninum. Eldunartíminn fer svolítið eftir stærð á gulrótunum.

AUGLÝSING


Perlulaukar soðnir í epladjús

10-12 stk. perlulaukar
500 ml epladjús
2 tsk. kjúklingakraftur
1 msk. ferskt timjan eða 1 tsk. þurrkað
½ tsk. pipar
½ tsk. salt

Sjóðið laukana í 1 mín. og takið hýðið af, þetta er gert til að auðveldara sé að ná hýðinu af lauknum. Setjið þá síðan á djúpa pönnu eða í pott ásamt öllum innihaldsefnum. Látið malla í 30-40 mín. og hrærið í annað slagið á meðan.

Laukurinn er tilbúinn þegar epladjúsinn hefur breyst í fallega karamellu utan um laukinn.

Steiktar apríkósur með kanil

1 tsk. kanill
2 msk. döðlusykur eða önnur sykurtegund
3 apríkósur, sneiddar í báta
2 msk. smjör

Blandið kanil og sykri saman og veltið apríkósubátunum upp úr blöndunni. Bræðið smjörið á pönnu og steikið bátana upp úr smjörinu í 5 mín.

Veltið þeim til á pönnunni á meðan. Þetta er einstaklega gott meðlæti með kjöti eins og svíni og lambi og jafnvel bragmiklu kjöti eins og villibráð.

Umsjón / Bergþóra Jónsdóttir og Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir  
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum