2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Gott nesti gerir gæfumuninn

Gott nesti í skólann eða vinnuna getur bjargað deginum en það vefst oft fyrir fólki að „nesta“ sig upp. Skipulagning er lykilatriði, reynið að útbúa allt sem hægt er kvöldinu áður og setja saman í nestispakkann. Hafið salatsósu á salatið í séríláti, annars vill það verða blautt og ólystugt. Litlar krukkur undan sultu eða barnamat eru t.d. tilvaldar undir einn skammt af salatsósu. Hér eru nokkrir góðir réttir sem tilvalið er að hafa í farteskinu.

Pastasalat með grænu góðgæti
3-4 skammtar

200 g heilhveitipastaskrúfur
2 dl frosnar grænar baunir
nokkur blöð lambhagasalat
1-2 lúkur ferskt spínat
½ bakki alfalfaspírur (refasmári)
120 g óðalsostur, skorinn í bita
¼ gúrka, skorin í bita
1 vorlaukur, skorinn smátt (eða væn lúka af graslauk)

Salatsósa
3 msk. ólífuolía
3 msk. hvítvínsedik
2 msk. vatn
1 msk. sítrónusafi
2-3 msk. söxuð fersk steinselja (eða ½ msk. þurrkuð)

Sjóðið pasta skv. leiðbeiningum. Þegar um 3 mín. eru eftir af suðutímanum eru grænar baunir settar út í pottinn og soðnar með pastanu. Hellið vatninu af og látið kólna aðeins.
Blandið öllu grænmetinu saman, ásamt osti og pasta, í skál. Bætið salatsósu út í þegar salatið er borið fram.

Grillað grænmeti með kínóa
2-3 skammtar

AUGLÝSING


2 dl kínóa
4 dl vatn
½ -1 teningur kjúklingakraftur
1 rauð paprika, skorin í stóra bita
1 gul paprika, skorin í stóra bita
½ hnetugrasker (butternut squash), fræhreinsað og skorið í bita, það er óþarfi að taka hýðið af
4-6 hvítlauksgeirar í hýðinu
4 msk. ólífuolía
1 rauðlaukur, skorinn gróft
1-2 msk. harissa-mauk
50 g möndlur
1 sítróna, safi og börkur
u.þ.b. ½-1 dl minta, söxuð smátt

Setjið kínóa, vatn og kjúklingakraft í pott og látið suðuna koma upp. Hrærið örlítið í og lækkið hitann, sjóðið undir loki í u.þ.b. 20 mín. Hitið ofninn í 200°C. Setjið allt grænmeti, nema rauðlauk, á ofnplötu, dreifið 3 msk. af ólífuolíu yfir og blandið vel saman. Bakið þetta í 20 mín. Bætið þá rauðlauk, möndlum og harissu saman við og bakið í aðrar 20 mín. Blandið saman sítrónuberki, sítrónusafa og 1 msk. ólífuolíu í skál og kreistið bakaðan hvítlaukinn úr hýðinu út í og stappið vel saman við. Blandið kínóa, grænmeti og hvítlauksleginum saman.

Kjúklingavefja með asískum blæ
2 stk.

Það er tilvalið að nota afgang af kjúklingi í þessa vefju, en tilbúið kjúklingaálegg er líka ágætur valkostur. Til þess að koma í veg fyrir að vefjan verði blaut og ólystug í nestisboxinu er best að smyrja sósunni á salatið en ekki beint á tortilluna sjálfa.

2 heilhveiti-tortillur
nokkur blöð lambhagasalat
4 sneiðar kjúklingaálegg
½ rauð paprika, skorin í strimla
¼ bakki alfalfaspírur (refasmári)

Salatsósa
2 msk. grísk jógúrt
1 msk. majónes
1 msk. sojasósa
1 msk. dijon-sinnep
1-2 tsk. sesamolía
1 -2 tsk. sweet chili-sósa

Blandið öllu hráefni í sósunni vel saman. Leggið salatblöð á tortilluna og dreifið sósunni yfir salatið. Raðið því næst kjúklingi, papriku og baunaspírum ofan á og vefjið hverri tortillu þétt upp.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir/ Karl Petersson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum