Heimalöguð rababarasulta

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hefðbundna rabarbarasultu er ekki flókið að gera. Svo er það líka gaman.

Einfalt og skemmtilegt er að búa til hefðbundna rabarbarasultu.

Óhætt er að segja að rabarbari henti vel til ræktunar hér á landi, enda harðgerður með eindæmum.
Rabarbari er helst notaður til sultugerðar eða í bökur en einnig má gera úr honum ýmisskonar mauk. Rabarbari er afar súr á bragðið og því þarf nokkurt magn af sykri til að hægt sé að neyta hans en auðvitað er það smekksatriði hversu mikinn sykur þarf. Hefðbundna rabarbarasultu er ekki flókið að gera, í hana þarf einungis rabarbara og sykur, eina sem misjafnt er á milli hefðbundinna uppskrifta eru hlutföllin á milli hráefnanna. Sumir nota bæði sykur og púðursykur og persónulega finnst mér betra að blanda hvítum sykri og púðursykri saman, enda kenndi amma mér að gera sultuna þannig. Gaman getur verið að gera ýmsar útgáfur að rabarbarasultum með því að blanda saman fleiri hráefnum. Engifer, vanilla, jarðarber og gráfíkjur eru til dæmis skemmtilegt hráefni sem passar vel með rabarabara. Hér er einföld en afar góð uppskrift að hefðbundinni rabarbarasultu eins og amma kenndi mér að gera!

RABARBARASULTA
1 stór sultukrukka (400-500 g)
700 g rabarbari
140 g púðursykur
420 g sykur

Þrífið rabarbarann vel og saxið í fremur litla bita. Ef rabarbarinn er orðinn nokkuð stór og grófur getur verið gott að skræla hann aðeins. Látið sykurinn og rabarbarabitana í stóran pott, gott að gera þetta í nokkrum lögum, sykur og rabarbari til skiptis. Látið inn í ísskáp yfir nótt. Þetta er gert til að mýkja rabarbarann og stytta suðutímann. Setjið pottinn á hellu og látið suðuna koma upp, lækkið hitann og látið malla í u.þ.b. 25-30 mínútur, nauðsynlegt er að hræra reglulega í sultunni á meðan með trésleif. Eftir því sem sultan sýður lengur því stífari og dekkri verður hún. Sótthreinsið sultukrukkuna t.d. með bensonat eða með því að sjóða hana. Ef rabarbarinn er ekki látinn liggja í sykrinum yfir nótt lengist suðutíminn talsvert.

_______________________________________________________________

FJÓRAR STAÐREYNDIR UM RABARBARA
Fyrsta skráða mataruppskriftin að rabarbararétti er að finna í enskri matreiðslubók eftir Maríu Elizu Rundel frá árinu 1806 en þar gefur hún uppskrift að rabarbaraböku.

Á Íslandi hófst ræktun á rabarbara um miðja nítjándu öldina en þá hét hann því skemmtilega og fallega nafni tröllasúra. Um miðja tuttugustu öldina má segja að nánast hvert einasta sveitaheimili hafi haft aðgang að rabarbara.

Rabarbari er afar trefjaríkur og skýrir það hvers vegna hann hefur verið notaður sem meltingarlyf í gegnum aldirnar.

Orðið rabarbari má rekja til árinnar Volgu en á rússnesku þýðir orðið Rha Volga og gríska orðið barbarum þýðir útlendur eða framandi. Þegar þessi orð eru sett saman fáum við orðið rhubarb. Rabarbari óx vel við ána Volgu en í augum Rómverja og Grikkja var fólkið sem bjó við ána útlent eða framandi.

Myndir: Aldís Pálsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira