Miðvikudagur 17. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Kolfallinn fyrir súrsuðu grænmeti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sennilega eru ekki margir ungir menn að fikta við að súrsa grænmeti heima hjá sér á kvöldin en það gerir hann Grettir Gautason. Grettir hefur verið að prófa sig áfram í gerð súrsaðs grænmetis síðustu ár og er eiginlega kolfallinn fyrir þeirri iðju, að hans sögn.

 

Við fréttum af þessu skemmtilega áhugamáli og fengum að koma í heimsókn og smakka. Grettir gefur lesendum uppskriftir að einföldu súrsuðu grænmeti sem tekur enga stund að gera, kostar lítið og allir geta gert.

„Margir veitingastaðir voru með heilu veggina af krukkum af allskonar súrsuðu grænmeti.“

En hvernig hófst þessi áhugi? „Það var þegar við félagarnir fórum í tveggja vikna ferðalag til Austur-Evrópu haustið 2016. Fyrsti viðkomustaðurinn var Varsjá og það gerðist eitthvað á fyrsta veitingastaðnum sem við fórum á. Við pöntuðum okkur snitsel og bjór og svo átti að vera salat með. Þegar salatið kom rákum við upp stór augu því allt salatið var ekki annað en 2 msk. af rifnum súrsuðum gulrótum. En við átum þetta með bestu lyst og fórum strax að spá í hvernig þetta væri gert. Við fórum til staða eins og Krakár, Búdapest, Vínar, Prag og Berlínar og fengum okkur alltaf eitthvað súrsað á hverjum stað, eins og gúrkur, gulrætur, lauk, perlulauk, hvítlauk og papriku. Margir veitingastaðir voru með heilu veggina af krukkum af allskonar súrsuðu grænmeti,“ segir Grettir.

Grettir hefur verið að prófa sig áfram í gerð súrsaðs grænmetis síðustu ár.

Það kom fljótlega í ljós að fyrir utan að kunna að súrsa grænmeti er Grettir mikill matgæðingur og sá sem fær að hafa völdin í eldhúsinu heima hjá sér.

„Þegar ég fór að leigja mér á menntaskólaárunum og þurfti að bjarga mér sjálfur, voru það nú bara hakkréttir og tilbúnir réttir sem lentu á pönnunni en eftir að ég fór að búa með kærustunni minni fór ég að elda fyrir alvöru. Ég er reyndar alinn upp við mikla og góða eldamennsku frá mömmu sem alltaf er að prófa eitthvað nýtt og hef því lært mikið af henni.“

Súrsað chili-aldin

2 ½ -3 dl ferskt chili-aldin, skorið niður í frekar smáa bita
1 msk. salt
1 msk. sykur
1-2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir, fer eftir hversu mikið bragð hver vill
hvítvínsedik eftir þörfum
1 meðalstór glerkrukka með loki

- Auglýsing -

Setjið chili-aldin í skál ásamt salti, sykri og hvítlauk. Kreistið saman með fingrunum. Gott að nota einnota hanska en ef þeir eru ekki við hendina er gott að muna að þvo sér vel um hendurnar. Hellið yfir það ediki þannig að það fljóti yfir og látið standa í 2 klst. við stofuhita.

Grettir segir okkur frá því að gott sé að hafa súrsað í partíum, t.d. gúrkur og chili, því saltið í leginum virki vel sem mótvægi við víndrykkju.

Ágætt er að nota tímann á meðan og sótthreinsa krukkuna með sjóðandi vatni. Setjið í krukkuna og fyllið upp með ediki. Geymist vel í ísskáp í að minnsta kosti 2 mánuði.

Súrsaður rauðlaukur

1 rauðlaukur, skorinn í 5 mm þykkar sneiðar
1 ½ dl vatn
1 ½ dl hvítvínsedik
1 ½ tsk. salt
nokkur piparkorn
kóríanderfræ eða hvítlaukur, eftir smekk

- Auglýsing -

Setjið laukinn í sjóðandi vatn í eina mínútu, hellið vatninu frá og setjið í sótthreinsaða krukku. Blandið vökva og kryddi saman og hellið yfir laukinn. Lokið krukkunni og geymið í ísskáp. Má geyma allt upp í 2 vikur í kæli.

„Eitt sniðugt ráð er að eiga til vökvann í súrsaða laukinn í 2 lítra plastflösku. Þá er einfalt að setja laukinn í vökvann að morgni eða um hádegi ef á að grilla t.d.hamborgara um kvöldið,“ segir Grettir.

Laukurinn er mjög góður á hamborgara og ýmiskonar steikarsamlokur. Einnig sem meðlæti með kjöti og jafnvel fiski. Grettir hvetur fólk til að prófa ýmis krydd eins og kóríanderfræ eða hvítlauk.

Myndir / Unnur Magna

Þess má geta að í uppskeruhandbók Gestgjafans, sem er nýkomin út, er að finna fjölbreyttar uppskriftir og hugmyndir að súrsuðu og pikkluðu grænmeti og ávöxtum. Tilvalið fyrir þá sem langar til að prófa sig áfram með súrsað og pikklað.

Tryggðu þér áskrift að Gestgjafanum í vefverslun

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -