2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Ljúffengar kínóabollur með paprikusósu

Kínóa er próteinríkt korn og fljótlegt í eldun. Það hentar vel fyrir fólk á glúteinlaustu matarræði. Hér gef ég uppskrift af kínóabollum með paprikusósu sem ættu ekki að svíkja neinn.

 

Kínóabollur
Um 18 bollur

250 g kínóa
6 vorlaukar, skornir í þunnar sneiðar
1 rauðlaukur, fínt saxaður
2 egg
2 græn chili-aldin, fínt söxuð
120 g kotasæla
50 g cheddar-ostur, rifinn
60 g ljóst brauðrasp eða panko (japanskt brauðrasp)
2 tsk. kummin
Um 1 tsk. sjávarsalt
Um 1 tsk. nýmalaður svartur pipar
Sítrónusneiðar til að bera fram, má sleppa

Hitið ofninn í 200°C. Sjóðið kínóa í 9 mín. og hafið vatnið við suðu allan tímann, eða þar til það er soðið en með smábiti. Sigtið kínóa frá vökvanum og látið kalt vatn renna á kornið. Setjið til hliðar. Setjið restina af hráefninu í skál og blandið saman.

AUGLÝSING


Bætið kínóa saman við þegar það hefur kólnað. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Takið um 40 g af blöndunni í einu og mótið í bollur og setjið bollurnar á bökunarplötuna og bakið í ofni í um 12 mín. Berið bollurnar fram með paprikusósunni og sítrónusneiðum til að kreista yfir.

Paprikusósa

150 g rauð paprika
2 rauð chili-aldin
5 hvítlauksgeirar, með hýði
40 g möndluflögur
4 tómatar, kjarninn tekinn úr og skornir í litla bita
2 tsk. sérríedik
100 ml ólífuolía
salt

Hitið ofn í 220°C. Setjið papriku, chili-aldin og hvítlauk saman á ofnplötu með bökunarpappír. Bakið saman í 10 mín. Takið chili og hvítlauk úr ofninum og setjið til hliðar. Snúið paprikunni við og eldið áfram í 20 mín.

Takið paprikuna úr ofninum og setjið í skál með plasti yfir og látið paprikuna kólna. Afhýðið paprikuna og takið kjarnann úr. Afhýðið chili-aldin og hvítlauk. Setjið möndluflögurnar í matvinnsluvél og maukið þar til myndast hefur fínt duft.

Setjið paprikuna, chili, hvítlaukinn, tómatana og edikið í matvinnsluvélina með möndlunum og maukið þar til allt hefur blandast vel saman. Hellið olíunni rólega saman við á meðan vélin er í gangi þar til myndast hefur þykk sósa.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna iIngibjörg

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum