2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Myndband: Sælkera-bláberjalambalæri á grillið

Lambalæri er fyrir löngu orðin klassík á mörgum heimilum og því fátt meira við hæfi en að skella einu slíku á grillið. Við viljum verja sem mestum tíma úti við á sumrin og því er tilvalið kaupa kryddlegið lambalæri. Við getum sannarlega mælt með bláberjakryddlegnu lambalæri frá SS. Bláberin gera kjötið meyrt og sérlega bragðgott.

Grillað bláberjakryddlegið lambalæri
fyrir 4-6

2-2,5 kg bláberjakryddlegið lambalæri frá SS
3 msk. ólífuolía
1 tsk. sjávarsalt
1 tsk. nýmalaður svartur pipar

Látið lambalærið standa við stofuhita í ½-1 klst. fyrir eldun. Stillið grill á háan hita. Penslið lambalærið með ólífuolíu og sáldrið örlítið af salti og pipar yfir. Ef notast er við gasgrill skal hafa kveikt á báðum brennurunum í byrjun og slökkva síðan öðrum megin rétt áður en lambalærið er sett á grillið.

Setjið lambalærið þeim megin sem slökkt hefur verið á brennarunum og lokið grillinu. Ef notast er við kolagrill skal hafa kolin öðrum megin og setja lærið þeim megin sem kolin eru ekki. Gott er að hafa lambalærið á grillgrind, og álbakka í miðjunni með dálitlu vatni til að taka við fitunni sem bráðnar.

Grillið lambalærið í 1-1 ½ klst. og snúið því við tvisvar til þrisvar á þeim tíma. Best er að opna grillið sem minnst. Ef óskað er eftir dökkri skorpu má færa lambalærið yfir á hærri hita og snúa því við reglulega þar til æskileg skorpa hefur myndast. Gott getur einnig verið að notast við kjöthitamæli, miðið við að kjötið nái 60°C til 65°C eftir hvíld.

AUGLÝSING


Takið lambalærið af grillinu og látið hvíla á bakka, setjið álpappír yfir í 15-20 mín. áður en það er skorið.

Grilluð steinseljurót og blöðrukál

Grillað blöðrukál er í miklu uppáhaldi hjá ritstjórn Gestgjafans enda frábært meðlæti með grillmatnum. Hægt er að nota aðrar tegundir af káli. Steinseljurót er skemmtileg tilbreyting frá kartöflum en hún gefur líka fínlegt yfirbragð.

1 miðlungsstór sellerírót
1 meðalstór haus blöðrukál
80-100 ml ólífuolía
2-3 tsk. sjávarsalt
1-2 tsk. nýmalaður svartur pipar
1 sítróna, skorin í tvennt

Afhýðið sellerírótina og skerið í miðlungsþykkar sneiðar, setjið í skál og hellið ólífuolíu yfir þannig að hún þeki allar sneiðarnar. Sáldrið sjávarsalti og svörtum pipar yfir, setjið til hliðar. Skerið blöðrukálið í báta og látið í stóra skál.

Hellið ólífuolíu á kálið og sáldrið sjávarsalti yfir. Nuddið ólífuolíunni vel saman við kálið og látið standa í 30 mín. áður en það er grillað. Grillið sellerírótina, blöðrukálið og sítrónuna saman á heitu grilli þar til sellerírótin er elduð í gegn og blöðrukálið hefur fengið á sig góðan lit. Setjið grænmetið á bakka og kreistið örlítið af sítrónusafa yfir úr grilluðu sítrónunni.

Einnig er gott að grilla sítrónur og bera fram með meðlætinu. Það gefur frísklegt og skemmtilegt bragð.

Salsa verde

hnefafylli steinselja, söxuð smátt
1 sítróna
1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
1 msk. kapers, saxað smátt
1 tsk. sjávarsalt
120 ml ólífuolía

Saxið steinseljuna smátt og setjið í skál. Rífið börk af sítrónu og kreistið safann úr. Blandið saman við ásamt hvítlauk, kapers og sjávarsalti. Hellið ólífuolíu saman við og bragðbætið með salti og sítrónusafa.

Súrmjólkursósa með grilluðum jalapenó

1 jalapenó
120 ml súrmjólk
50 ml sýrður rjómi
1 tsk. rifinn börkur af sítrónu
2 msk. nýkreistur sítrónusafi
1 msk. saxaður graslaukur
1 tsk. nýmalaður svartur pipar
½ tsk. sjávarsalt

Grillið jalapenó í u.þ.b. 5 mín. á heitu grilli. Takið af og setjið til hliðar og látið kólna. Setjið restina af hráefninu í skál. Takið fræin innan úr jalapenóinu og saxið það smátt, blandið við sósuna. Bragðbætið með nýmöluðum svörtum pipar og sjávarsalti.

Unnið í samstarfi við Sláturfélag Suðurlands og Hagkaup

Myndataka og klipping / Hákon Davíð Björnsson
Uppskrift og matreiðsla / Folda Guðlaugsdóttir
Stílisti og ritstjórn / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum