2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Pönnukökur með jarðarberjum, súkkulaði og rjóma

Jarðarber og rjómi er samsetning sem varla er hægt að klúðra og þegar súkkulaði bætist við verður allt fullkomið. Hér er einfaldur sætur réttur sem inniheldur þessa heilögu þrenningu, hvað er betra og sumarlegra á sólríkum degi?

Pönnukökur með jarðarberjafyllingu
fyrir 6

Hér má gjarnan nota góða tilbúna súkkulaðisósu í stað saxaðs súkkulaðis. Eins er gott að bera þessar pönnukökur fram með ferskri myntu sé hún við höndina. 

Pönnukökur
u.þ.b. 10 stk.

AUGLÝSING


100 g hveiti
¼ tsk. salt
matarsódi á hnífsoddi
½ msk. sykur
2 ½ dl mjólk
1 egg
½ sítróna, börkur notaður
½ tsk. vanilludropar
25 g smjör

Blandið hveiti, salti, matarsóda og sykri saman í skál. Hellið 1 1/2 dl af mjólkinni út í og hrærið saman í kekkalaust deig. Bætið eggjum í, einu í senn, og sláið vel saman. Bætið afganginum af mjólkinni og vanilludropum út í og blandið vel. Bræðið smjörið á pönnukökupönnunni, bætið því í deigið og hrærið saman þar til það samlagast. Hellið deigi á pönnuna þannig að það þeki hana. Bakið þar til deigið fer að þorna. Losið um brúnirnar á deiginu með pönnukökuspaða, setjið spaðann undir pönnukökuna og snúið henni við. Bakið pönnsuna þar til hún er fallega gullin. Hvolfið á disk. Bakið úr öllu deiginu. Þetta er lítil pönnukökuuppskrift en auðvelt er að tvöfalda eða þrefalda hana. Úr deiginu ættu að nást u.þ.b. 10 pönnukökur en uppskriftin að fyllingunni dugir fyrir sex svo einhverjar kökur verða afgangs en þær má að sjálfsögðu borða með sykri.

fylling:
1 msk. smjör
4-5 kardimommur, fræin möluð í mortéli (eins má nota ½ tsk. af kardimommudufti)
250 g jarðarber, skorin í stóra bita
1 msk. hlynsíróp
100 g saxað súkkulaði
2-3 dl rjómi, þeyttur

Hitið smjör á pönnu og bætið kardimommum saman við. Steikið jarðarberin í stutta stund, ekki of lengi því þá verða þau of maukuð, og bætið hlynsírópi saman við. Dreifið söxuðu súkkulaði yfir pönnuköku og setjið jarðarberin ofan á. Berið fram með þeyttum rjóma.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmyndari / Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum