Pottþétt og nákvæm uppskrift af roastbeef |

Pottþétt og nákvæm uppskrift af roastbeef

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Fátt jafnast á við nauta-innanlæri sem flestir þekkja eflaust betur undir nafninu roastbeef. Stór heileldaður kjöthleifur eins og þessi er afar þægilegur í stór matarboð og sér í lagi roastbeef þar sem það er oftast borið fram kalt með tartarsósu og því hægt að elda það deginum áður.

Hér gef ég ykkur pottþétta og nákvæma uppskrift sem auðvelt er að fara eftir og eins og svo oft er með kjöt þá leikur meðlætið stórt hlutverk í því að gera máltíðina gómsæta og því bætti ég við uppskriftum að tartarsósu, laukhringjum og sýrðum agúrkum.

Nauta-innanlæri með steiktum lauk, sýrðum agúrkum og tartarsósu

Heileldað nauta-innanlæri (roastbeef)

u.þ.b. 2 kg nauta-innanlæri

sjávarsalt

nýmalaður svartur pipar

olía, til steikingar

20 g smjör

4 hvítlauksgeirar, skornir gróflega

hnefafylli ferskt tímían

Takið kjötið úr kæli og látið það ná stofuhita. Hitið ofn í 110°C með undir- og yfirhita. Nuddið kjötið með olíu og bragðbætið með salti og pipar. Hitið stóra pönnu á miðlungsháum hita með olíu og smjöri. Steikið kjötið vel á öllum hliðum. Setjið kjötið á grind með bökunarplötu undir. Setjið tímíanið og hvítlaukinn ofan á kjötið. Ef kjarnhitamælir er notaður er honum stungið inn í þykkasta hluta kjötsins. Steikið kjötið í ofni þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 55°C. Ef kjötið vegur u.þ.b. 2 kg ætti það að taka 1 ½ -2 klst. Takið kjötið úr ofninum og látið það hvíla í 15-20 mín. undir álpappír áður en það er skorið í þunnar sneiðar.

Tartarsósa

250 g majónes

100 g sýrður rjómi

2 súrar agúrkur, saxaðar smátt

1 msk. kapers, saxað gróflega

2 msk. fersk steinselja, söxuð fínt

2 harðsoðin egg, skorin smátt

1-2 tsk. karrí

½ tsk. túrmerik

u.þ.b. 1 tsk. sjávarsalt

safi úr ½ sítrónu

nýmalaður svartur pipar

Blandið öllu hráefninu í skál og bragðbætið með salti, pipar og sítrónusafa.

Sýrðar agúrkur

200 ml vatn

200 ml eplaedik

100 g sykur

1 msk. sinnepsfræ

2 agúrkur, skornar í þunnar sneiðar, helst í mandólíni

Blandið saman vatni, ediki, sykri og sinnepsfræjum í potti. Hitið blönduna upp að suðu, takið af og kælið. Skerið agúrkurnar og setjið í skál eða krukku. Hellið ediksblöndunni yfir og geymið í kæli fram að notkun. Gott er að brjóta saman smjörpappír, leggja ofan á agúrkurnar þegar þær eru komnar í edikslöginn og láta örlítið af edikslegi fljóta yfir smjörpappírinn. Með því að gera þetta fljóta agúrkurnar síður upp úr leginum. Það sama á við um sýrða rauðlaukinn sem uppskriftin er að hér á eftir.

Steiktur laukur

3 hvítir laukar

200 g hveiti

olía til að djúpsteikja í

u.þ.b. 2 tsk. fínt salt

Afhýðið laukinn og haldið honum heilum. Skerið svo laukinn í þunnar sneiðar í mandólíni eða með beittum hníf. Hitið olíu í djúpsteikingarpotti eða þykkbotna potti. Olían ætti að vera u.þ.b. 190°C þegar laukurinn er steiktur. Dustið laukinn upp úr hveiti. Steikið laukinn þar til hann verður gylltur. Gott er að miða við að steikja sneiðar af u.þ.b. ½ lauk í einu. Setjið laukinn á eldhúspappír þannig að mesta olían dragist úr lauknum og saltið örlítið. Endurtakið ferlið. Steikti laukurinn geymist í nokkra daga í lokuðum umbúðum við stofuhita. Gott er að setja eldhúspappír í botninn á umbúðunum sem laukurinn er geymdur í.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira