2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sælkeramáltíð úr grænmetisuppskerunni

Fátt jafnast á við brakandi ferskt og nýupptekið grænmeti og við ættum að vera dugleg að borða það á þessum árstíma.

Margir vita ekki hvað á að gera úr öllu grænmetinu sem kemur upp á haustin en í raun eru möguleikarnir óendanlegir og grænmeti getur verið algert sælgæti. Hér eru tvær skemmtilegar og góðar grænmetisuppskriftir sem sýna vel hversu auðvelt er að gera sælkeramáltíð úr venjulegu hráefni eins og hvítkáli, fenniku og hnúðkáli.

Steikt fenníka og hvítkál í eplasíder fyrir 4 (sjá mynd að ofan)

1 haus hvítkál
1-2 fenníkur
3-4 msk. olía
1 tsk. kummin
1 tsk. sinnepsduft
½ tsk. túrmerik (kúrkúma)
1 tsk. herbes de provence
1 tsk. kúmenfræ
1 ½ dl eplasíder
sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

Þvoið hvítkálið vel og skerið í strimla. Þvoið fenníkuna, skerið kjarnann frá ogsaxið fremur gróft, einungis hvíti hluti fenníkunnar er notaður. Hitið olíu á pönnu og steikið kálið og fenníkuna í nokkrar mínútur, bætið öllu kryddinu við og steikið á meðalhita í u.þ.b. 4-5 mínútur. Hellið eplasíder yfir og látið sjóða svolítið niður. Smakkið til og bragðbætið með salti og nýmöluðum pipar, einnig má bæta við af
hinu kryddinu eftir smekk.
Til að gera þennan rétt svolítið hátíðlegri má setja ½ dl rjóma saman við í lokin, einnig er gott að setja smávegis karrí saman við fyrir þá sem vilja hafa indverskan keim.

Baka með hnúðkáli.

Baka með hnúðkálifyrir 4

AUGLÝSING


Í þessa uppskrift er líka gott að nota rófur eða nípur. Eins er gott að blanda öllum þessum tegundum saman.
2-3 stk. hnúðkál, fer eftir stærð
½ dl sykur
1 msk. vatn
25 g smjör
2-3 greinar ferskt timían, laufin
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
½ pakki filo-deig (3-4 blöð)
3-4 msk. smjör, brætt

Stillið ofn á 180°C. Hreinsið hnúðkál, skerið það í þunnar sneiðar og sjóðið í saltvatni í 2 mín. Sigtið vatnið frá og setjið grænmetið til hliðar. Setjið sykur og vatn saman á pönnu og látið bráðna saman, þegar sykurinn fer að taka á sig gylltan lit er smjörinu bætt saman við ásamt timíani. Hellið sykurblöndunni í smurt bökuform og raðið hnúðkálinu fallega ofan á. Athugið að sykurbráðin stífnar en það er allt í lagi, reynið að dreifa henni eins og hægt er í botninn, hún mun síðan bráðna aftur og dreifast betur. Stráið salti og pipar yfir grænmetið. Smyrjið filo-deigblöð með bræddu smjöri og raðið ofan á grænmetið, setjið 3-4 lög af deigi og reynið að brjóta brúnirnar vel undir grænmetið þannig að það myndist einskonar skel. Pikkið filo-deigið með gaffli og bakið í u.þ.b. 25 mín. Látið bökuna kólna í 10-15 mín. áður en hún er tekin úr bökuforminu. Gott að bera fram t.d. með góðu salati.

Texti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og Kristín Dröfn Einarsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Ernir Eyjólfsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum