2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Shaksuka, norðurafrísk bökuð egg

Egg eru frábær hluti af fjölbreyttu mataræði enda góður prótíngjafi. Shaksuka er klassískur norðurafrískur réttur sem hentar vel á brönsborðið um páskana enda fljótlegur og auðveldur í eldun.

Shaksuka, norðurafrísk bökuð egg
fyrir 4

3 msk. ólífuolía
1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
1 rauð paprika, skorin í þunnar sneiðar
1 rautt chili-aldin
3 hvítlauksgeirar, skornir í þunnar sneiðar
2 tsk. kummin
1 ½ msk. ungversk paprika
800 g heilir tómatar í dós
sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
1 hnefafylli fersk steinselja, fínt söxuð
1 hnefafylli ferskur kóríander, fínt saxaður
6 egg
100 g hreinn fetaostur

Hitið olíu í djúpri pönnu. Setjið laukinn, paprikuna og chili-aldinið saman á pönnuna og steikið í um 5 mínútur án þess að hreyfa við því. Grænmetið á að ná að brúnast aðeins. Bætið við hvítlauk, kummin og paprikudufti og eldið saman í 1 mínútu. Setjið því næst maukuðu tómatana út á pönnuna og blandið saman við grænmetið. Brjótið tómatana aðeins niður með gaffli. Lækkið hitann undir pönnunni og leyfið blöndunni að malla í um 10 mínútur. Smakkið til með salti og pipar og setjið helminginn af kryddjurtunum saman við. Notið skeið til að gera holur í blönduna og brjótið eggin beint ofan í holurnar með skeiðinni. Gott er að setja smávegis af tómatblöndunni yfir eggjahvítuna þegar búið er að brjóta eggin. Setjið svolítið sjávarsalt og nýmalaðan svartan pipar yfir eggin. Setjið lok á pönnuna og eldið í 5 mínútur eða þar til eggjahvíturnar eru sestar en rauðan er enn mjúk. Dreifið restinni af kryddjurtunum ofan á blönduna ásamt fetaostinum og berið fram heitt. Gott er að bera þennan rétt fram með fersku salati.

Umsjón/Folda Guðlaugsdóttir
Stílisti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir/Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum