2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sjáðu Hinrik Carl grilla gómsætt lambakjöt fyrir Gestgjafann

Hinrik Carl grillar dýrindis lambakjöt fyrir Gestgjafann á Napoleon Rogue-grilli.

Fátt er skemmtilegra en að grilla á góðviðrisdögum. Til að ná góðum árangri er nauðsynlegt að vera með réttu græjurnar og sælkerauppskrift við höndina. Við fengum því Hinrik Carl, matreiðslumeistara og grillsnilling, til liðs við okkur og báðum hann um að sýna hvernig á að grilla dásamlegt lambakjöt. Hinrik sýnir okkur bæði hvernig á að meðhöndla lambið og hvernig við nýtum kosti grillsins sem best.

Hinrik notaði Napoleon Rogue 10,8 kólóvatta gasgrill frá BYKO en það er kanadískt hágæða merki. Grillið er með tvo brennara og Sizzle Zone-hliðarbrennara sem er innrauður brennari og nær miklum hita, allt að 980°C á 30 sek. Þessi tækni eykur ýmsa möguleika við grillun og gerir hráefnið safaríkara en við hefðbundna grillun. Hægt er að stilla hitastig á innrauða brennaranum og því er bæði hægt að snöggsteikja eða hægelda sem verður að teljast mikill kostur. Grillgrindurnar eru úr ryðfríu stáli. Í lokinu er Accu-Probe-hitamælir og Jetfire-kveikikerfi. Hliðarborðin er hægt að fella niður báðum megin sem sparar pláss þegar grillið er ekki í notkun. Áhöldin sem Hinrik notaði eru úr Weber Original-línunni en þau eru ryðfrí og fremur lítil sem gerir þau meðfærileg og þægileg að vinna með en þau henta einnig vel í ferðalagið.

Hinrik hefur töfrað fram marga góða grillrétti í Gestgjafanum í gegnum árin en hann er eins og áður segir matreiðslumeistari og starfar nú sem rekstarstjóri yfir Dill, Hverfisgötu 12 og Kexhostel & handverksbrugghúsi. Hér gefur hann okkur frábæra uppskrift að lambakjöti með grilluðu káli, portobello-sveppum og einfaldri piparrótarsósu, einnig sýnir Hinrik nokkur gagnleg og sniðug grillráð sem gagnast við grillun á öllum mat.

Með réttinum mælum við með Laurent Miquel Pas de Geant-rauðvíni frá Languedoc-héraði í Frakklandi en það er með meðalfyllingu, ferska sýru og fallega kirsuberjarautt að lit. Greina má dökk ber og plómur. Vínið er gert úr grenache- og syrah-þrúgum en grenache er þó í meirihluta eða 80%. Fyrir þá sem vilja eitthvað sumarlegra og léttara mælum við með lífrænu rósavíni frá Adobe reserva í Chile. Vínið hentar sérlega vel fyrir þá sem ætla að borða meira af meðlætinu og minna af kjötinu. Vínið er sérlega ferskt en það er unnið úr cabernet sauvigonon-þrúgunni. Liturinn er fallega fölapríkósubleikur með angan af ávöxtum og rauðm berjum.

AUGLÝSING


Lamba-fillet með kryddhjúpi og grilluðu káli með piparrótarsósu
1 meðalstór lambahryggur hreinsaður eða tilbúið lamba-fillet
olía, til að pensla með
salt
2 portobello-sveppir

Setjið sveppina á efri hæð grillsins og látið þá eldast þar á meðan allt annað er útbúið. Penslið lamba-fillet með olíu og bragðbætið með salti. Hitið grillið í a.m.k. 300°C. Brúnað báðum megin í 2 mín. og látið svo á óbeinan hita u.þ.b. 170°C í 3 mín. til viðbótar, þá er kryddhjúpurinn settur á og lundirnar settar aftur á beinan hita í 2 mín. til viðbótar. Látið hvíla í 3-5 mín.

Kryddhjúpur:
10 g kóríander
10 g graslaukur
10 g steinselja
100 g smjör
safi úr ½ límónu
salt eftir smekk

Setjið allt í mortél eða matvinnsluvél, maukið og bragðbætið með kryddi.

Grillað salat:
1 romain-salathaus
1 avókadó
½ límóna
1 ferskja
½ rautt chili-aldin
2 stk. vorlaukur
hnetur, eftir smekk t.d. pistasíur
salt

Skerið salathausinn í tvennt, setjið smávegis olíu yfir og grillið á háum hita í 3 mín. Skerið avókadóið í tvennt, setjið salt og límónusafa yfir og grillið í 5 mín. á háum hita. Skerið restina af hráefninu niður ásamt portobello-sveppunum og dreifið yfir salatið eftir að það kemur af grillinu. Látið hnetur og rauðrófuflögur yfir og berið fram með kjötinu og sósunni.

Piparrótarsósa:
100 ml grísk jógúrt
15 g fersk piparrót, rifin
safi úr 1 límónu
salt, eftir smekk

Blandið öllu saman og bragðbætið með kryddi ef vill.

Unnið í samstarfi við Byko.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum