2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Þeir eru góðir litlu bitarnir

„Þeir eru góðir litlu bitarnir,” sagði tröllið í sögunni og flestir geta víst tekið undir það og þótt margir hafi borðað sig sadda af kvöldmatnum er engu að síður notalegt að smakka á ljúffengum smáréttum með kampavíninu á miðnætti. Það bætir óneitanlega miklu við veislugleðina.

Villibráðapaté með steiktum ávöxtum

1 baguette, skorið í sneiðar

1 hvítlauksgeiri

AUGLÝSING


4 msk. ólífuolía

Penslið brauðið með ólífuolíunni og látið á grind undir grillið í ofninum í 1-3 mínútur eða þar til brauðið er orðið gullið að lit. Takið brauðið út og nuddið skorna hlutanum af hvítlauksgeiranum vel á olíuborna hluta brauðsins.

200-300 g villibráðarpaté eða annað paté

2 msk. smjör

3 plómur, skornar í báta

3 nektarínur, skornar í báta

3 msk. sykur

3 msk. sítrónusafi

½ dl epla-cider

¼ tsk. allrahanda krydd

½ tsk. kanill

sjávarsalt

svartur nýmalaður pipar

1-2 greinar ferskt fáfnisgras

Bræðið smjörið á pönnu og steikið plómurnar og nektarínurnar í u.þ.b. 2 mínútur. Setjið sykurinn saman við og steikið áfram í 1-2 mínútur. Setjið nú restina af hráefninu saman við, nema fáfnisgrasið, og látið allt malla í u.þ.b. 8-10 mínútur, smakkið til. Setjið lok á pönnuna og látið til hliðar. Smyrjið paté á hverja brauðsneið og setjið ávaxtamaukið ofan á, leggið 1-2 fáfnisgrös yfir og stráið grófu salti og pipar yfir allt í lokin. Hægt er að hita ávaxtamaukið svolítið upp áður en það er sett á brauðið en einnig er hægt að bera það fram kalt.

 

Litlir Parmesandiskar með Caesar-salati

u.þ.b. 20 stk.

Það má vel gera sér lífið auðveldara með því að kaupa tilbúna brauðteninga og jafnvel tilbúna salatsósu ef þannig stendur á. Það er þó þess virði að taka smátíma í að gera salatsósuna frá grunni.

60-80 g ferskur parmesanostur, rifinn

4-6 romaine-salatblöð

½ -¾ dl salatsósa

u.þ.b. 20 stk. brauðteningar (croutons)

lítil skotglös eða annað sem hægt er að leggja „diskana“ yfir til þess að fá þá aðeins kúpta

Hitið ofninn í 180°C. Klæðið ofnplötu með bökunarpappír og setjið 1 msk. af ostinum í litlar hrúgur á pappírinn, dreifið örlítið úr hverri hrúgu. Gætið þess að hafa gott bil á milli svo osturinn bráðni ekki allur saman. Bakið í u.þ.b. 5 mín. eða þar til osturinn hefur aðeins brúnast, þó ekki of mikið. Takið úr ofninum og látið kólna í 10-20 sek. Raðið litlum skotglösum á hvolf og færið „diskana“ varlega með spaða yfir á glösin, það má ýta þeim varlega niður með glasinu til þess að fá betra lag á þá. Látið kólna alveg áður en diskarnir eru teknir af glösunum.

salatsósa:

½ dl olífuolía

2 tsk. eggjarauða, sláið rauðuna í sundur til þess að geta mælt rétt magn

½ hvítlauksgeiri

1-2 tsk. Worchestershire-sósa

½ msk. dijon-sinnep

1 msk. ferskur sítrónusafi

svartur pipar

Blandið öllu, nema olíu, saman í lítilli skál og hrærið vel með litlum písk eða gaffli. Bætið olíunni síðan smátt og smátt saman við þar til sósan fer að þykkna.

brauðteningar:

2-3 brauðsneiðar, best er að nota gamalt brauð sem hefur fengið að standa aðeins

2-3 msk. smjör

1 hvítlauksgeiri, pressaður

Stillið ofninn á 200°C. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið það svo í teninga. Bræðið smjör í potti eða á pönnu og bætið hvítlauknum út í. Veltið brauðteningunum upp úr smjörinu, raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið í u.þ.b. 20 mín, eða þar til þeir eru orðnir dökkir og stökkir.

Skerið salatið frekar smátt og dreifið yfir hvern parmesandisk. Setjið u.þ.b. ½ – 1 tsk. af salatsósu yfir og leggið einn brauðtening þar ofan á. Berið strax fram.

 

Litlar súkkulaðibombur með flórsykri

20-25 stk.

Litlar og dásamlega fallegar súkkulaðikökur sem sóma sér vel á smáréttaborðinu. Þær minna svolítið á franska súkkulaðiköku.

2 dl hveiti

1 tsk. lyftiduft

1 dl kakó, gott að nota 100% kakó

¼ tsk. salt

150 g súkkulaði, 70%

1 ½ dl púðursykur

1 egg

30 ml mjólk

60 g mjúkt smjör

¼ tsk. vanilludropar

170 g súkkulaðispænir

1 dl flórsykur, til þess að velta kökunum upp úr

Bræðið 70% súkkulaði yfir vatnsbaði og setjið til hliðar. Blandið hveiti, lyftidufti, kakói og salti saman í annarri skál og setjið til hliðar. Setjið smjör og púðursykur saman í hrærivélaskál og hrærið vel saman þar til blandan er létt og mjúk. Bætið þá egginu út í og hrærið vel saman við, athugið að það gæti þurft að nota sleikju til þess að skafa deigið niður í skálina svo að allt blandist vel. Stillið á minnsta hraðann og bætið mjólk saman við, vanilludropum og bræddu súkkulaðinu. Blandið þurrefnunum varlega saman við ásamt súkkulaðispæni og hrærið vel saman. Breiðið plastfilmu yfir skálin og setjið í kæli í 1 klst.

Stillið ofninn á 180°C. Takið deigið úr kæli og mótið litlar kúlur, u.þ.b. 3 cm í þvermál, þrýstið þeim aðeins niður og veltið vandlega upp úr flórsykri, það gæti þurft að velta kúlunum tvisvar sinnum upp úr flórsykrinum til þess að hylja þær alveg. Raðið á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið í 7-10 mín. Athugið að baka þessar kökur ekki of mikið, þær eru fljótar að þorna, en þær eiga að vera mjúkar undir tönn.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum