2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Unaðslegt súkkulaði-fondant

Árstími til að baka

Kökur eru mér afar hugleiknar þessa dagana þar sem ég skilaði af mér risastóru kökublaði fyrir skemmstu. Þessum árstíma tilheyrir einhvern veginn að baka og fara svolítið inn á við, dunda sér í eldhúsinu á meðan hlustað er á góða tónlist. Uppskriftir eru alls konar og það er mikið af þeim út um allt en þær eru mjög misjafnar að gæðum. Hér er ein sérlega góð uppskrift að súkkulaðiköku sem ég hef bakað reglulega í gegnum árin en hún er tilvalin sem eftirréttur í matarboðum enda fínleg en samt með kröftugu súkkulaðibragði. Kakan er með litlu hveiti en í staðinn nota ég möndlumjöl sem mér finnst bæði gefa gott bragð og áferð og svo er möndlumjöl hollt. Kakan myndi nú samt ekki flokkast undir neina hollustuköku, hér er bara á ferðinni alvörusælkerakaka sem gælir við bragðlaukana og bráðnar í munni.

Best með rjóma og hindberjasósu

Flestar súkkulaði-fondant-kökur eru bornar fram heitar en þessi er öðruvísi þar sem hún verður að standa og ná að þéttast vel í ísskáp áður en hennar er neytt og hún er best ísköld. Mér finnst nauðsynlegt að bera kökuna fram með rjóma og jarðarberjum en stundum þegar ég vil vera flott á því bý ég til hindberjasósu (coulis) og hef með, það er bæði fallegt og gott. Til að gera sósuna set ég u.þ.b. 500 g af hindberjum í pott með u.þ.b 100-120 g af sykri og bæti við tveimur msk. af vatni eða sítrónusafa og sýð berin í u.þ.b. 2-3 mín. og sía þau svo í fíngerðu sigti, kæli sósuna og ber síðan fram með kökunni.

AUGLÝSING


Frægasta kökusetning heims – sem var sennilega ekki sögð

Innblásturinn að þessari köku fékk ég frá Frakklandi sem er, eins og margir vita, mekka matar- og kökugerðar. Þar eru ríkar og sterkar hefðir í matar-, brauð- og kökugerð. Bakstursmenning Frakka er mjög fjölbreytt, litskrúðug og reglulega sæt. Í báðum merkingum þess orðs. Hefðirnar eru sterkar, makrónur með kampavíni tilheyra þegar fagna á einhverju. Rúllutertur eru hluti af jólunum, Baba au Rhum tilheyra afmælum og hátíðum og svo mætti lengi telja. Frakkar hreinlega elska kökur og setja þær ofar mörgu eins og t.d. brauði. Hver þekkir ekki hina frægu setningu Marie Antoinette þegar hún svaraði svöngum lýðnum sem sagði að ekki væri til brauð í landinu, „að fá sér þá bara frekar kökur“. Reyndar er búið að sanna að þessi setning er mýta og líklegt að drottningin hafi ekki sagt hana en setningunni er samt ætlað að lýsa firringunni hjá konungafólkinu. En ég er ekki firrt tíðarandanum þegar ég segi; fáið ykkur bara köku og njótið hennar í botn, munið bara að gæta hófs.

 

Kalt súkkulaði-fondant

 

230 g dökkt súkkulaði

2 msk. kornolía eða önnur bragðlaus olía

150 g smjör, við stofuhita

150 g sykur

3 egg

50 g hveiti

40 g möndlur, settar í matvinnsluvél og malaðar n.k. í duft

50 g möndluflögur

rifsber, til skrauts

 

Hitið ofninn í 160°C og smyrjið smelluform, 20 eða 22 cm í þvermál.

Bræðið súkkulaði ásamt olíu yfir vatnsbaði. Hrærið smjör og sykur saman á meðan þar til blandan verður létt og ljós. Setjið súkkulaðið til hliðar þegar það er alveg orðið bráðið og látið kólna. Bætið þá eggjum, hveiti og möndludufti saman við smjörblönduna í litlum skömmtum og hrærið vel í á milli. Bætið súkkulaðinu út í og hrærið vel saman. Hellið deiginu í formið, setjið inn í miðjan ofn og bakið í 25-30 mín. eða þar til kakan hefur aðeins lyft sér og er þurr á köntunum en rök í miðjunni. Ofnar eru afar mismunandi og því þarf að fylgjast vel með kökunni í ofninum. Takið kökuna út úr ofninum og látið kólna. Losið hana frá forminu, látið á kökudisk og setjið filmu þétt yfir. Kælið í ísskáp í a.m.k. 3 klst. eða lengur, ég baka oft kökuna deginum áður. Skreytið með möndluflögum og rifsberjum. Berið kökuna fram eina sér eða með rjóma, jarðarberjum eða hindberjasósu. Til að láta rifsberin líta út eins og á myndinni þarf að velta þeim upp úr örlitlum flórsykri.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum