2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Út að borða í Amsterdam

Amsterdam er ein af þessum borgum sem hægt er að heimsækja aftur og aftur enda hefur hún upp á margt að bjóða bæði í mat og drykk eða menningu. Hollendingar eru afslappaðir og vinalegir og andrúmsloftið sérlega afslappað.

Gaman er að ganga um götur og síki þar sem hjólin þeysast hljóðlega um göturnar. Tilvalið er að fara í siglingu, versla eða heimsækja eitthvað af þeim fjölmörgu söfnum sem borgin státar af. Í öllum góðum helgarferðum þarf að drekka og borða og hér bendi ég á nokkra skemmtilega staði sem gaman er að koma á til að njóta bæði matar og umhverfis.

Cafe restaurant de plantage.

Cafe restaurant de plantage er einstaklega fallegur stílhreinn evrópskur staður í hjarta Artis-garðsins í Amsterdam. Húsið var upprunalega gróðurhús byggt árið 1870 en var gert upp árið 2014 til að hýsa matsölustaðinn. Á hádegisverðarmatseðlinum er mikið úrval af matarmiklum súrdeigsbrauðsneiðum ásamt öðrum gómsætum réttum. Einnig er fjölbreytt úrval á kvöldseðlinum af bæði kjöt- og grænmetisréttum. Vefsíða: caferestaurantdeplantage.nl

The Duchess.

AUGLÝSING


Hertogaynjan eða The Duchess býður upp á fjölbreyttan matseðil allan daginn. Umhverfi staðarins er ævintýralegt og minnir helst á gamla lestarstöð. Á staðnum er mikið lagt upp úr high tea, eftirmiðdagstei, en þar er hægt að fá litlar samlokur eða sætabrauð og skála í kampavíni eða Mariage Fréres-tei sem blaðamenn Gestgjafans geta sannarlega mælt með. Matargerðin er klassísk og franskra áhrifa gætir víða en þó með nýstárlegum blæ. Það er líka gaman að fara á The Duchess og fá sér kokteil á barnum. Fremur dýr staður en ferðarinnar virði. Vefsíða: the-duchess.com

Jansz.

Jansz á Pulitzer-hótelinu er einstaklega fallegur matsölustaður þar sem tilvalið er að gæla við bragðlaukana. Hægt er að fá góðan morgunmat á hótelinu með öllu tilheyrandi en einnig er hægt að snæða hádegis- og kvöldverð. Staðurinn leggur áherslu á einfalda evrópska matargerð sem borin er fram á skapandi hátt. Pulitzer-barinn er líka áhugaverður og á Pause-kaffihúsinu er hægt að sitja úti í rólegheitum og sötra góðan drykk í góðu veðri. Vefsíða: janszamsterdam.com og pulitzeramsterdam.com/eat-drink

Góðir barir

Door 74.

Door 74 er vel falinn bar en hann er talinn meðal bestu svokallaðra speak easy-bara í heiminum í dag. Staðurinn er dökkur og töff í anda bannáranna. Úrval af kokteilum gerðum úr fágætum vínum. Ég mæli með að farið sé inn á vefsíðuna þeirra til að skoða hvernig á að finna staðinn. Vefsíða: door-74.com

Tunes Bar.

Tunes Bar er á einu fínasta hótelinu í borginni The Conservatorium. Staðurinn er dökkur og nútímalegur með verulega flottum barvegg sem gleður augað. Fínn bar en samt afslappaður. Úrvalið af gini og tónik kemur á óvart og margir kokteilarnir eru innblásnir af hinum ýmsu löndum í heiminum. Vefsíða: conservatoriumhotel.com/tunes-bar

The Tailor.

The Tailor er hlýlegur og smart bar á Krasnapolsky-hótelinu á Dam-torgi. Þar er gott úrval af kokteilum og árið 2015 vann einn barþjónninn þeirra, Tess Posthumus, titilinn besti kvenbarþjónn í heiminum svo þau kunna sitt fag á The Tailor. Vefsíða: barthetailor.com

Tales & Spirits.

Tales & Spirits býður upp á áhugavert úrval af skemmtilegum kokteilum sem enginn áhugamaður um kokteilagerð ætti að láta fram hjá sér fara enda hafa þeir birst á listum yfir bestu bari í heiminum. Barinn er notalegur en hann er í húsi sem var byggt árið 1550. Vefsíða: talesandspirits.com/home.

Ferðamáti:
WOW air flýgur til Amsterdam allt árið um kring. Verð aðra leið með sköttum frá 6.499 kr.

Lestu meira

Annað áhugavert efni