2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Vanillukökur með brómberjakremi

Þessar smákökur eru innblásnar af uppskrift frá matreiðslumanninum og sjónvarpskokkinum Yotam Ottolenghi en í hans útgáfu er rabarbarakrem.

 

Þær passa einstaklega vel með ísköldu mjólkurglasi eða góðum kaffibolla og eru tilvaldar í kaffiboðið um helgina eða á aðventunni. Hér er okkar útgáfa að þessu yndislegu kökum. Uppskriftin gerir u.þ.b. 15 kökur.

BRÓMBERJAKREM
Kremið má gera allt að 3 dögum áður og geyma inn í kæli. Ef það er gert látið kremið ná stofuhita og hrærið það upp aftur fyrir notkun. Ef kremið skilur sig þegar þetta er gert, stillið þá vélina á hæsta hraða og hrærið kremið í nokkrar mín., þá ætti það að bindast saman aftur.

100 g frosin eða fersk brómber
140 g sykur
85 g golden syrup
fræ úr ½ vanillustöng
4 eggjarauður
300 g ósaltað smjör skorið í kubba, við
stofuhita

AUGLÝSING


Setjið brómber og 20 g af sykri í lítinn pott á miðlungsháan hita og hitið í 4-5 mín. eða þar til sykurinn er uppleystur. Setjið blönduna í matvinnsluvél og maukið.

Sigtið brómberjablönduna í gegnum fínt sigti yfir í skál og setjið til hliðar. Setjið síróp, 120 g af sykri og vanillu saman í lítinn pott og hitið yfir miðlungsháum hita þar til sykurinn er uppleystur. Hafið sykursírópið á lágum hita á meðan eggjarauðurnar eru þeyttar. Setjið eggjarauðurnar í hrærivélarskál með písknum og þeytið þar til þær eru léttar og ljósar.

Hækkið undir sykursírópinu og þegar stórar loftbólur hafa myndast á yfirborði sykursírópsins, byrjið að hella því í mjórri bunu saman við þeyttu eggjarauðurnar á meðan vélin er í gangi á miðlungshraða.

Þegar allt sykursírópið er komið saman við, hækkið þá hraðann á hrærivélinni og þeytið í 10 mín. eða þar til hliðarnar á skálinni eru ekki lengur heitar. Bætið smjörinu því næst saman við, einum bita í einu. Þegar öllu smjörinu hefur verið blandað saman við skrapið hliðarnar á skálinni og hrærið kremið því næst áfram í 2 mín. þar til það er orðið mjög létt og ljóst. Hrærið brómberjablöndunni saman við þar til allt hefur samlagast vel.

VANILLUKÖKUR

175 g hveiti
65 g maíshveiti (corn flour)
65 g flórsykur
1/8 tsk. salt
170 g ósaltað smjör skorið í kubba, við
stofuhita
½ tsk. vanilludropar

Hitið ofn í 170°C. Sigtið hveiti, maíshveiti, flórsykur og salt saman í hrærivélarskál með spaðanum. Blandið saman á lágum hraða. Bætið smjörinu saman við og hrærið rólega þar til blandan líkist brauðmylsnu.

Bætið vanillunni saman við og hrærið saman á miðlungshraða þar til deigið hefur komið saman, tekur u.þ.b. 30 sek. Setjið bökunarpappír á tvær bökunarplötur. Mótið 30 kúlur úr deiginu með höndunum, hver kúla ætti að vera u.þ.b. 3 cm að þvermáli eða 15 g. Dreifið úr kúlunum á bökunarplöturnar og hafið u.þ.b. 4 cm á milli.

Dýfið gaffli í hveiti og notið hann til að þrýsta örlítið á hverja kúlu þannig að myndist rákir. Bakið kökurnar í 25 mín. og snúið bökunarplötunni við í miðju bökunarferlinu þannig að allar kökurnar bakist jafnt. Kökurnar verða viðkvæmar fyrst en byrja að haldast saman eftir að þær kólna. Látið kökurnar kólna í 5 mín. á bökunarplötunni og færið þær síðan á vírrekka. Látið kökurnar kólna alveg áður en þær eru fylltar með kremi.

Búið til samlokur úr kökunum með því að smyrja einn helming með u.þ.b. 10 g af kremi, látið kremið á sléttu hliðarnar á kökunum.

Lestu meira

Annað áhugavert efni