Vegan-lífsstíll er ekkert meinlætalíf

Deila

- Auglýsing -

Fólki sem aðhyllist vegan-lífsstíl fer fjölgandi á Íslandi. Í þeim hópi er Rannveig Rúna Guðmundsdóttir Saari rafvirki. Í byrjun var hún að leita að betri líðan en hún hafði lengi glímt við magavandamál. Eftir því sem tíminn leið fór umhyggjan fyrir umhverfinu og velferð dýra að vega meira.

 

Rúna þykir einstaklega góður kokkur og vinir hennar og vandamenn hlakka ævinlega til að vera boðnir í mat, jafnvel hörðustu kjötætur, þótt allir viti að ekki sé annað á boðstólum en næring úr jurtaríkinu.

Þrjú ár eru síðan Rúna gerðist vegan og aðeins inn á það fjórða.

En hvað varð til þess að hún ákvað að breyta mataræðinu? „Ég hef alltaf verið með mjög lélegan maga og magavandamál,“ segir hún. „Ég fékk magasár þegar ég var átján ára. Í framhaldi af því fór ég að minnka kjötneyslu og hætti fljótlega alveg að borða rautt kjöt. Svo hefur þetta þróast yfir í þetta á svona tíu árum. Það var svo í veganúar fyrir þremur árum að ég ákvað að prófa í mánuð að vera vegan og þar með var ekki aftur snúið. Maginn í mér varð bara eðlilegur í fyrsta sinn á ævinni. Ég ákvað því að halda mig við þetta og það er ljúft líf.“

Sumum finnst óhugsandi að sleppa öllum dýraafurðum og halda að vegan-mataræði sé hálfgert meinlætalíf. Er það raunin?

„Ja, fólk gerir sér ekki grein fyrir að það er komið svo margt á markaðinn, vörur sem hægt er að nota í staðinn fyrir rjóma, kjöt og fleira og fleira. Það sem ég gerði, vegna þess að ég er mikil heimilismatartýpa og nenni ekki að borða bara baunir, var að prófa mig áfram með það hráefni sem ég gæti notað. Mig langaði alltaf í steik og kartöflur, lasagna og eitthvað slíkt. Nú hef ég skapað mér uppskriftagrunn sem hentar mjög vel, er til dæmis með rosalega góða uppskrift að vegan-bérnaise-sósu, lasagna sem allir í kringum mig missa sig yfir, bolognese sem ég bý alltaf til stóran skammt af fyrir vini og vandamenn. Mér hefur tekist að þróa mig áfram í að búa til svona heimilismat sem mér finnst nærandi sérstaklega á veturna.“

„Mig langaði alltaf í steik og kartöflur, lasagna og eitthvað slíkt.“

Fjölbreytnin ótrúleg

Hefur þú haft áhrif á aðra í kringum þig með þessum lífsstíl? Finnst þér vinir eða fjölskylda til dæmis vera farin að halla sér meira að grænmetisfæði vegna þess að hún sér hversu vel þetta gengur hjá þér?

„Já og nei. Fjölskylda mín, foreldrum mínum og fleirum finnst alltaf rosalega gott það sem ég elda fyrir þau og líður mjög vel eftir á. Þau hafa bæði fært sig hægt og hægt úr mjólkurvörum yfir í soja- og möndlumjólk því þau finna mun á maganum. Mjólkurvörur fara illa í mjög marga. Ég hef oft fengið spurninguna: „Hvað, borðar þú bara grænmeti?“ Þá svara ég: „Já, þetta er út af maganum.“ Í umræðunni kemur alltaf einhver með athugasemdir á borð við: „Já, ég fæ alltaf í magann af mjólk.“ Þá spyr ég: „Af hverju ertu þá að drekka mjólk.“ Hvers vegna prófar fólk ekki eitthvað annað? Það er svo margt til. Auðvitað á fólk að fá að ráða hvað það borðar en mér finnst það svolítið sérstakt að manneskjur haldi áfram að borða eitthvað sem fer illa í þær. Stundum vita þær ekki betur en fatta þegar þær tala við fólk sem borðar öðruvísi mat að eitthvað fleira og annars konar er til. Líka að líðan þeirra er eitthvað skrýtin og þarf ekki að vera þannig.“

Er þetta val þitt öðru þræði hugsjón? Ertu að hugsa um jörðina, umhverfið og dýrin? „Fyrst þegar ég fór í þetta var það ekki,“ segir hún. „En þegar maður fer að fara inn á síður til að finna uppskriftir og svona rekst maður á alls konar pælingar. Þá kemur allt hitt inn í. Það er kannski ekki ástæða þess að ég byrjaði að vera vegan en er orðið hluti af ástæðunni núna. Með tímanum og umræðum við aðra sem eru vegan opnast augu manns fyrir öllu hinu og það síast inn.“

Margir telja að það sé miklu meiri fyrirhöfn að elda rétti sem eru vegan. Er það þín reynsla? „Nei, svo sannarlega ekki,“ segir hún ákveðin. „En vissulega fer það eftir því hvað ég er að gera. Bolognese tekur langan tíma hvort sem það inniheldur kjöt eða ekki kjöt og sumir réttir þurfa tíma og vinnu. Þessi matreiðsla er ekkert öðruvísi en önnur að því leyti að sumt er flókið og þetta fer bara eftir því hvort ég er að búa til mánudagsmat eða sunnudagsmat.“

Rúna hefur áhuga á matreiðslu og gaman af að spá og spekúlera í slíku. Það hjálpar öllum hvernig mat sem þeir kjósa að búa til. En sér hún fyrir sér að fleiri fari að velja þá leið að vera vegan?

„Ég held það. Svo mikið hefur verið rætt um umhverfisáhrif fjöldaframleiðslu á kjöti að ég tel að það hljóti að hafa áhrif. Menn hér detta svolítið í að segja að á Íslandi sé allt svo gott en það er ekki svo í öllum tilfellum. Og það er þannig í allri húsdýrarækt til manneldis að hún er ekki sjálfbær og það er ekki gott upp á framtíðina að gera. Nú svo má benda á að á markaðinn eru komnar svo margar nýungar, m.a. kjöt unnið úr plöntum sem meira að segja ég get ekki borðað því mér finnst það of líkt kjöti af dýrum. Bragðið er það ótrúlega líkt en fyrir fólk sem borðar kjöt daglega og langar að minnka þá neyslu er þetta náttúrlega snilld,“ segir Rúna að lokum og þær uppskriftir sem hún gefur Vikunni að þessu sinni henta mjög vel til einmitt að reyna eitthvað nýtt.

Edamame-baunir.

Edamame-baunir
Forréttur eða bara snakk, fullt af prótíni.

1 poki frosnar edamame-baunir (fást í Bónus)
1 tsk. sojasósa
2-3 msk. seasamolía (fæst í öllum asískum búðum og líka Hagkaup)
gróft salt

Baunirnar eru settar í pott með vatni og kveikt undir á næsthæstu stillingu, þegar suðan kemur upp, látið bíða í 1/2 mín. Takið af hellunni og sigtið vatnið frá, setjið á fat og dreifið olíu, sojasósu og salti yfir. Berið fram strax. Munið að aðeins á að borða baunirnar en ekki hýðið.

 

 

Portobello-steik með kartöflum.

Portobello-steik með kartöflum
Fyrir 3, miðað er við minnst 2 sveppi á mann.

6 stk. stórir portobello-sveppir
kartöflur (miðað við 3 eða u.þ.b. 4 á mann, fer eftir stærð)
1,5 dl matarolía (ekki ólífu)
2 msk. sojasósa
2 tsk. liquid smoke (fæst í Hagkaup, má sleppa en betra með)

Blanda saman í skál

2 msk. steinselja (má vera þurrkuð)
2 msk. sinnepskorn (best er að malla þau aðeins með mortéli)
1 hvítlauksrif
2 msk. púðursykur
2 tsk. hvítlaukskrydd
2 tsk. laukkrydd
1 tsk. pipar

Blanda sama í skál

Hitið ofninn í 180° C. Penslið eldfast mót með olíu. Skerið stofnanna af sveppunum. Penslið þá með olíublöndunni vel báðum megin. Setjið helminginn af kryddblöndunni á undirhlið sveppanna og leggið í eldfasta mótið með undirhliðina niður. Setjið restina af kryddblöndunni ofan á sveppina. Skerið kartöflurnar í litla báta/hluta og setjið með í eldfasta mótið en passið að kartöflurnar liggi ekki ofan á sveppunum. Penslið kartöflurnar með matarolíu (eða restinni af olíublöndunni ef einhver er).

Setjið álpappír yfir og eldið í 40-45 mín. Takið álpappírinn af og eldið í 5-10 mín. í viðbót. Best er að taka sveppina úr eldfasta mótinu og hvíla þá í um 1-2 mín. á skurðbretti, skera svo langsum í þykkar sneiðar og bera fram.

Portobello-steik með kartöflum og rauðvínssósu.

Rauðvínssósa

1 laukur, miðlungs stór
1 stór gulrót
1 stöngull sellerí
1 hvítlauksrif
2 tsk. salvía
2 tsk. tímían
2 msk. olía eða 110 g vegan-smjörlíki (flest smjörlíki)
2 msk. maísmjöl
2,5 dl rauðvín
4-5 dl grænmetissoð (500 ml sjóandi vatn + 2 grænmetisteningar )
2 tsk. sykur
2 msk. sojasósa
2 msk. sulta eða ber
salt og pipar eftir smekk

Skerið grænmetið smátt og steikið (nema hvítlaukinn) með kryddinu í olíunni/smjörlíkinu. Þegar grænmetið hefur mýkst upp setjið þá hvítlaukinn út í og steikið aðeins lengur.

Takið pottinn af hitanum og bætið maísmjölinu saman við smátt og smátt og hrærið á milli með sósuhrærara þar til allt er kekkjalaust. Setjið pottinn aftur á hitann og lækkið niður í næstlægsta hita. Bætið rauðvíni út í og hrærið, bætið síðan soðinu, sykrinum, sojasósunni og sultunni/berjunum út í og hrærið vel. Smakkið og bragðbætið með salti og pipar.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Myndir / Hallur Karlsson

- Advertisement -

Athugasemdir