2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Vertu sælkeri í Kaupmannahöfn – Nokkrir spennandi matsölustaðir

Kaupmannahöfn er ein af vinsælustu áfangastöðum Íslendinga. Þangað koma margir nokkrum sinnum á ári.

 

Mikið er um góða veitingastaði í borginni og margir eiga sína uppáhaldsstaði sem þeir fara á aftur og aftur en gaman getur verið að breyta til. Hér bendum við á nokkra spennandi matsölustaði í Kongsens Kobenhavn sem gæti verið skemmtilegt að prófa.

Paté paté
Slagterboderne 1

Þessi veitingastaður er í hinu rísandi hverfi Meatpacking district (kodbyen) á Vesturbrú. Þetta er elsti veitingastaðurinn á svæðinu og á því sérstakan stað í hjörtum margra íbúa. Boðið er upp á morgun-, hádegis- og kvöldverð og er mjög notaleg stemning á staðnum allan daginn. Matseðillinn er innblásinn af Marokkó, Mið-Austurlöndum, Spáni, Ítalíu og Frakklandi.

AUGLÝSING


Boðið er upp á morgun-, hádegis- og kvöldverð og er mjög notaleg stemning á Paté Paté.

Vínúrvalið er gríðarmikið og vandað og staðurinn snýr þannig að ef sólin skín má sjá marga gesti fyrir utan með rósavínsglas að njóta veðursins. Hægt er að panta nokkra litla rétti og ég mæli með að panta þrjá til fjóra, til að smakka sem flest.

Coffee collective
Godthåbsvej 34B
Jægersborggade 57

Metnaðarfullt kaffihús þar sem eigendurnir kaupa baunirnar beint frá bændum sem þeir heimsækja árlega. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á „fair trade“ og með því að vera í nánu sambandi við bændurna nær það ekki aðeins að framfylgja stefnunni heldur getur komið því nákvæmlega til skila hvaða vöru það vill.

Eigendurnir staðarins kaupa baunirnar beint frá bændum.

Starfsfólk er áhugasamt og hefur mikla þekkingu á kaffinu sem boðið er upp á. Hér ættu allir að finna kaffibolla við sitt hæfi. Kaffihúsið við Jægersborggade er sérstaklega huggulegt en þess má geta að staðurinn er með útibú á Torvehallerne-matarmarkaðnum þar sem er án efa að finna besta kaffið á markaðnum. Ég mæli með að fólk kaupi þarna ómalaðar baunir til að taka með heim úr fríinu.

Mother
Høkerboderne 9-15

Mother er súrdeigspítsustaður í hinu upprennandi matarhverfi Kodbyen eða Meat packing district á Vesturbrú. Mother sækir nafn sitt til súrdeigsmóðurinnar sem leggur til grunninn í öll pítsadeig staðarins. Aðaláherslan er fyrst og fremst á góðar pítsur en einnig er hægt að fá antipasti og dásamlegar bruschettur. Skemmtilegur staður sem er mjög vinsæll meðal Kaupmannahafnarbúa þar sem alltaf er notalegt andrúmsloft og nauðsynlegt að ljúka máltíðinni með espressó-martini sem þeir gera einstaklega vel.

Mother er súrdeigspítsustaður.

Øl & Brød
Viktoriagade 6

Það er varla hægt að fara til Kaupmannahafnar án þess að fá sér gott smurbrauð og þeir hjá Øl & Brød gera það einstaklega vel og svo er staðurinn þeirra í afar fallegu umhverfi. Hann er ekki stór þannig að gott er að vera búinn að panta borð en hægt er að borða bæði í hádeginu og á kvöldin.

Staðurinn er í eigu sömu aðila og Mikkeler þannig að bjórúrvalið lætur ekki standa á sér og eru þeir mjög flinkir í að para saman ákveðna bjóra við hvert smurbrauð. Ásamt því að bjóða upp á mikið úrval af snaps og ákavíti frá Norðurlöndunum eins og sönnum „smørrebrød-stað“ sæmir, eru þeir ekki feimnir við að brugga sitt eigið og eru alltaf spenntir að leyfa viðskiptavinum að prófa nýjustu blöndurnar eins og til dæmis ákavíti með fersku dilli og fennel sem kom skemmtilega á óvart.

Mikkeller

Mikkeller-brugghús var stofnað árið 2006 af tveimur vinum og heimabruggurunum, þeim Mikkel Borg Bjergso og Kristian Klarup Keller, sem vildu kynna bjórinn sinn fyrir almenningi og skora á fólk að prófa nýtt og framsækið bragð í bjórgerð.

Mikkeller-brugghús var stofnað árið 2006.

Mikkeller starfar ekki sem eiginlegt brugghús heldur fer gjarnan í samstarf við önnur brugghús sem brugga samkvæmt þeirra uppskrift eða þá að staðirnir fara saman í ákveðna tilraunastarfsemi. Mikkeller-barirnir eru staðsettir víða í Kaupmannahöfn og þeir selja einnig hluta af bjórunum sínum í kjörbúðum. Þó að gestir viti ekki alveg hvernig bjór þá langar í á Mikkeller, eru allar líkur á því að barþjónarnir geti notað sína miklu þekkingu til að benda á hinn eina rétta og sniðugt er að fá sér í lítið glas þannig að hægt sé að smakka fleiri.

Lestu meira

Annað áhugavert efni