2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Ekki tími til að baka? Hentu þá í þessa snilldar „köku“

Hæfileikar fólks til að baka eru misjafnir og svo eru sumir sem bara hafa engan tíma. Flestir vilja samt bjóða upp á köku eða eitthvað sætt til dæmis í saumaklúbbunum eða í matarboðinu og þá er tilvalið að hugsa út fyrir boxið og redda sér.

 

Það er ekkert að því að kaupa stundum tilbúna botna og sósur fyrir þá sem hafa alls engan tíma og útkoman getur verið skemmtileg eins og þessi marens „kaka“ ber til að mynda með sér.

Hér er líka heldur betur leyfilegt að prófa eitthvað nýtt og spennandi og því um að gera að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.

Marens með myntu og margvíslegum ávöxtum
fyrir 10-12

AUGLÝSING


4 eggjahvítur
2 dl sykur
2-4 kókósbollur, eftir smekk
½ ananas, skorinn í bita
1 appelsína, afhýdd og skorin í sneiðar
u.þ.b. 1 dl granateplafræ
ástaraldinfræ úr 2-3 ástaraldinum
nokkrar greinar fersk mynta
1 peli létt þeyttur rjómi, ef vill

Hitið ofn í 120°C. Stífþeytið eggjahvíturnar, bætið helmingnum af sykrinum saman við og þeytið áfram þar til blandan er stíf og glansandi. Blandið þá restinni af sykrinum varlega saman við með sleikju.

Búið til 6-8 marensbollur á bökunarpappír og bakið í 1 ½-2 klst. Slökkvið þá á ofninum og látið marensinn kólna alveg inni í honum. Raðið marens á bakka, brjótið hann gjarnan gróft upp, skerið kókosbollur í grófa bita og raðið inn á milli. Skerið ananas og appelsínur í bita og raðið ofan á.

Dreifið granateplafræjum og ástaraldinfræjum yfir og skreytið með ferskri myntu. Dreifið myntusósu yfir þegar kakan er borin fram eða hafið hana í lítilli skál við hliðina. Berið fram með létt þeyttum rjóma ef vill.

Myntusósa:

1 búnt fersk mynta (50 g), laufin
½ dl hlynsíróp
safi úr ½ límónu
Setjið allt saman í blandara og látið ganga þar til sósan er slétt og falleg.

Uppskrift / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Lestu meira

Annað áhugavert efni