
Í gær birti íslenski fjölmiðillinn Fréttatíminn grein um að Paul McCartney og Elton John hefði sungið „Let it be“ fyrir Phil Collins á sjúkrahúsi. Með fréttinni fylgdi mynd af tónlistarmönnunum þremur grátandi og í faðmlögum. Í lok fréttarinnar var myndband af Paul McCartney spila „Let it be“ á tónleikum í New York. Við nánari athugun kemur í ljós að fréttin sjálf er algjörlega ósönn og myndirnar eru gerðar af gervigreind.
Sannleikurinn
Í fyrsta lagi er Phil Collins ekki að kljást við nein alvarleg veikindi á sjúkrahúsi. Í lok júlí greindi People magazine frá því að tónlistarmaðurinn væri að jafna sig eftir hnéaðgerð en ekki kom fram hvort að hann þyrfti innlögn á spítala vegna hennar. Ljóst er að myndirnar sem fylgja fréttinni eru gerðar af gervigreind. Meðal annars má sjá að tónlistarmennirnir þrír hafa allir nákvæmlega sama grátsvipinn sem einkennir myndir gerðar af gervigreind. Á mynd í fréttinni sjálfri sést Paul McCartney spila á gítar með hægri hendi en hann er þekktur fyrir að vera örvhentur og spila á örvhenta gítara. Þar má einnig sjá að gítarinn á myndinni hefur aðeins fjóra strengi, þegar hefðbundnir gítarar hafa sex.

Uppruni fréttarinnar
Grein Fréttatímans er beinþýdd en sjá má nákvæmlega sömu frásögn hjá Facebook-síðunni Rock Metal Society. Sú síða deilir mörgum svipuðum fréttum á dag, allar færslur hafa frægan tónlistarmann og hjartnæmar sögur um heimsókn á spítala eða jarðarför. Með öllum færslunum fylgja myndir sem eru greinilega framleiddar af gervigreind. Í fyrrnefndri færslu Rock Metal Society er notendum bent á að lesa fréttina á vefsíðu Rock Metal Society en hlekkurinn tengir á aðra frétt sem keimlík en einnig ósönn. Sú frétt lýsir hvernig Paul McCartney hafi sungið „Hey Jude“ fyrir hjartveika Phil Collins á sjúkrahúsi.
Undanfarna viku hefur seinni fréttin komist í mikla dreifingu. Fréttin inniheldur dramatíska frásögn að Paul McCartney hafi gengið inn, ekki sagt orð, heldur aðeins spilað „Hey Jude“ fyrir vin sinn Phil Collins sem glímir við hjartavandamál. Margar Facebook- og blogg síður deildu sögunni og fréttaveitur keppast nú við að leiðrétta falsfréttina.

Frétt Fréttatímans.
Framtíðin í gervigreind
Vænta má að af þessu tagi muni einungis færast í aukana á komandi árum. Efnið er unnið af gervigreind svo lítil vinna fer í framleiðslu og enginn tími fer í að sannreyna efni eða afla upplýsinga. Frásagnirnar lýsa hjartnæmum eða sorglegum atburðum um frægt fólk sem flestir kannast og tengja við. Fyrirsagnirnar einkennast oft af smellibrellum til þess að fá sem flesta notendur til að lesa fréttina. Tilgangur þessara Facebook síðna er að vísa notendum á vefsíður sem hægt er að græða auglýsingatekjur af.
Fréttatíminn endurreistur
Fréttatíminn var gefinn út sem prentað fréttablað árin 2010 til 2017. Eftir að félagið fór í þrot undir ritstjórn Gunnars Smára Egilssonar, sem síðar stofnaði Sósíalistaflokk Íslands, voru eignir þrotabúsins seldar Guðlaugi Hermannssyni fiskútflytjenda.
Eigandi og fyrirsvarsmaður Fréttatímans í dag er Magnús Ingi Guðmundsson. Fréttatíminn er skráður hjá Fjölmiðlanefnd og er ritstjórnarstefna hans sögð vera: „Almennar fréttir og afþreyingarefni, eins og tíðkast hjá öðrum vefmiðlum á internetinu.“
Komment