Föstudagur 29. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Ýtti leikmönnum út fyrir rammann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heimildarmyndin Síðasta áminningin er ný íslensk kvikmynd sem Hafsteinn Gunnar Sigurðsson gerði í samvinnu við Guðmund Björn Þorbjörnsson og frumsýnd var í vikunni. Þar velta þeir félagar fyrir sér tengslum íslenska þjóðsöngsins og árangurs íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og komast, að sögn Hafsteins, að óvæntri niðurstöðu.

„Þetta byrjaði þannig að ég fékk símtal í janúar frá Sigurjóni Sighvatssyni framleiðanda þar sem hann setti fram hugmynd um að gera eitthvað út frá þessu fótboltadæmi en beina samt fókusnum meira að samfélaginu út frá þessari Öskubuskusögu sem árangur íslenska landsliðsins í fótbolta er,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri um tilurð heimildamyndarinnar Síðasta áminningin sem nú er sýnd í Bíó Paradís.

„Ég var nýbúinn að hlusta á þættina hans Guðmundar á Rás 1, Markmannshanskarnir hans Alberts Camus, og datt í hug að það gæti verið sniðugt að fá hann til samstarfs við mig við gerð myndarinnar, því ég veit í raun og veru ekkert um fótbolta,“ útskýrir Hafsteinn. „Ég horfi bara á stórmótin og hef enga þekkingu á því hvernig þetta virkar, ég er betri í að búa til bíómyndir.“

Boðar auðmýkt og lítilæti
Spurður um grunnkonseptið að baki myndinni segir Hafsteinn að þeir hafi lagt út frá þjóðsöng Íslendinga sem er það síðasta sem leikmennirnir heyra áður en þeir hefja leik á fótboltavellinum og þaðan sé nafn myndarinnar, Síðasta áminningin, dregið.

Í myndinni er rætt við þrjá liðsmenn landsliðsins auk nokkurra þjóðþekktra einstaklinga sem sumir tengjast knattspyrnu en aðrir alls ekki.

„Þjóðsöngur okkar er ólíkur flestum öðrum þjóðsöngvum þar sem hann er byggður á sálmi,“ segir Hafsteinn. „Flestir aðrir þjóðsöngvar eru einhvers konar ættjarðarsöngvar þar sem verið er að upphefja föðurlandið og þjóðina sem þar býr, eða þá stríðsmarsar þar sem menn eru hreinlega hvattir til þess að fara út á vígvöllinn og drepa andstæðinginn. Okkar þjóðsöngur hins vegar boðar auðmýkt og lítilæti og minnir manneskjuna á hversu lítil hún er gagnvart sköpunarverkinu. Við fórum að velta því fyrir okkur hvort það fælist ekki þversögn í því að þetta væri síðasta áminningin sem leikmenn íslenska liðsins fá áður en þeir fara út á völlinn að reyna sig við útlendinga sem eru mjög oft miklu betri en þeir í fótbolta. Við fórum að skoða þetta betur og í framhaldi af því verður myndin ferðalag þar sem við skoðum íslenskt samfélag og hugarfar út frá þessu og hvort Íslendingar hafi nokkurn tímann tileinkað sér þessa auðmýkt og lítilæti sem þjóðsöngurinn boðar.

Hugsanlega komumst við að þeirri niðurstöðu að kannski eru meðlimir landsliðsins þeir einu sem hafa raunverulega gert það. Hvort það sem hafi komið þeim áfram sé að þeir þekki sín takmörk,“ segir Hafsteinn dularfullur.

Ýttu leikmönnum út fyrir rammann
Í myndinni er rætt við þrjá liðsmenn landsliðsins auk nokkurra þjóðþekktra einstaklinga sem sumir tengjast knattspyrnu en aðrir alls ekki.

- Auglýsing -

„Við fylgjum þessum þremur leikmönnum, sem kannski eru ekkert endilega alltaf mest í sviðsljósinu,“ segir Hafsteinn. „Einn þeirra spilar í Tyrklandi, annar hér heima á Íslandi, sá eini sem spilar hér reyndar, og sá þriðji spilar í Englandi. Hugmyndin var að fá þá til að velta vöngum yfir íslensku þjóðfélagi og fá þá til að tala um hluti sem þeir eru ekki endilega alltaf að ræða í þessum viðtölum sem þeir fara í, þetta eru oft dálítið stöðluð viðtöl sem birtast í íþróttatengdu efni, þannig að við reyndum svolítið að ýta þeim út fyrir það svið og fá að sjá aðrar hliðar á þeim en við gerum venjulega. Síðan vorum við með sjö aðra viðmælendur sem eru þjóðþekktir einstaklingar sem tengjast fótbolta nánast ekki neitt, eða jú, sumir eitthvað en aðrir ekki.“

Flestir, ef ekki allir, viðmælendur voru spenntir fyrir heimsmeistaramótinu.
„Ég held það sé einhver ógurlegur fiðringur í flestum gagnvart þessu.“

Ekki að skoða þjóðrembu
Spurður hvort myndin komi eitthvað inn á það hvernig þessi árangur landsliðsins ýti undir þjóðrembu Íslendinga dregur Hafsteinn við sig svarið.
„Já og nei,“ svarar hann véfréttarlega og heldur áfram. „Einn viðmælandinn nefnir að í kringum íþróttir skapist eini vettvangurinn þar sem það þyki í lagi að vera þjóðveldissinni að einhverju leyti og leyfa stórkarlalegum hugmyndum um samfélagið að brjótast fram, en við köfum ekki djúpt í tengsl þjóðerniskenndar og íþrótta í þessari mynd.“

- Auglýsing -

Sitt af hverju, eins og óvænt tengsl, kom á óvart við gerð Síðustu áminningarinnar.
„Já, kannski bara þessi niðurstaða sem við komumst að í myndinni um tengsl þjóðsöngsins og þessarar taktíkur sem liðið spilar,“ segir Hafsteinn. „Það komu óvænt tengsl þar upp sem ég vil ekki uppljóstra um hér, enga spoilera, takk. En þetta var mjög skemmtilegt ferðalag og líka skemmtilegt að það skuli vera hundrað ára afmæli fullveldisins sem er gott augnablik til að líta í spegilinn, dvelja aðeins við og hugsa um hver við erum og hvert við viljum stefna.“

„Hugmyndin var að fá þá til að velta vöngum yfir íslensku þjóðfélagi og fá þá til að tala um hluti sem þeir eru ekki endilega alltaf að ræða í þessum viðtölum sem þeir fara í, þetta eru oft dálítið stöðluð viðtöl sem birtast í íþróttatengdu efni, þannig að við reyndum svolítið að ýta þeim út fyrir það svið og fá að sjá aðrar hliðar á þeim en við gerum venjulega.“

Lætur heillast í augnablikinu
Hafsteinn ætlar að sjálfsögðu að fylgjast með leikjum landsliðsins á HM.
„Ég segi nú ekki að ég muni setja upp víkingahjálminn, en þetta er spennandi móment sem maður fylgist auðvitað með. Ég á reyndar ekki landsliðstreyju, því miður, en þegar við fórum til Tyrklands að heimsækja Theodór Elmar keyptum við okkur allir tyrkneska upphitunargallann og ég verð kannski bara í honum,“ bætir hann við og glottir.

Ef við gefum okkur að Íslendingar komist ekki í úrslit þarf Hafsteinn að finna sér annað lið til að halda með því hann á ekkert sérstakt uppáhaldslið.

„Yfirleitt gerist það eftir að ég fer að fylgjast með þessum stórmótum að ég verð ástfanginn af einhverju liði í augnablikinu og læt það heilla mig til fylgilags svo það fær mitt atkvæði þegar upp er staðið. Ég verð bara að sjá til eftir að mótið byrjar hvaða liði tekst það í þetta sinn.“

Síðasta áminningin var frumsýnd í Bíó Paradís í vikunni og er nú þar í almennum sýningum en verður einnig sýnd í sjónvarpi, bæði hér heima og erlendis fljótlega.

„Hún verður sýnd á RÚV síðar og það er líka búið að selja hana til bæði dönsku og norsku ríkisstöðvanna, þar sem hún verður sýnd á næstu dögum,“ segir Hafsteinn. „Þannig að þetta er allt að fara af stað.“

Aðalmynd  /  Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri gerði myndina í samvinnu við Guðmund Björn Þorbjörnsson.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -