Föstudagur 29. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Á engan hátt einfalt að segja frá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi nokkrum sinnum yfir ævina. Hún segir að það hafi aldrei komið til greina að segja strax frá.

„Þetta eru fleiri sögur en ég kæri mig að hugsa um. Það er erfitt að rifa þetta upp. Það á samt við um allar mínar sögur að ekki í eitt einasta skipti kom til greina að ræða þetta við einhvern alveg í blábyrjun. Ég treysti mér ekki til að ræða þetta við mitt nánasta fólk, hvað þá að fara með þetta eitthvað annað,“ segir Brynhildur sem varð meðal annars fyrir hópnauðgun á Þjóðhátíð í Eyjum þegar hún var tvítug, árið 1997. „Það var bara þungt skammarský yfir mér í langan tíma eftir á. Á meðan ég var að reyna að fóta mig eftir þetta og átta mig á hvað hafði gerst þá var ég engan veginn tilbúin til að fara til lögreglu eða upp á bráðamóttöku. Ég var bara ungur kjáni á þessum tíma og þar var ekkert í umræðunni hvað maður ætti að gera ef svona kæmi fyrir. Þannig að það var bara ekki inni í myndinni.“

„Ég treysti mér ekki til að ræða þetta við mitt nánasta fólk, hvað þá að fara með þetta eitthvað annað.“

Eftir því sem umræðan um kynferðislegt ofbeldi jókst í samfélaginu með árunum fór Brynhildur að átta sig á hvar hún gæti leitað sér hjálpar. „Ég fór smátt og smátt að sjá hvert ég gæti leitað. En innri tilfinningin breytist ekki. Maður var svo tættur.“

Brynhildur segir sögu sína í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Það tók Brynhildi mörg ár að finna styrk innra með sér til að segja frá því ofbeldi sem hún varð fyrir. „Ég þurfti að vinna mikið í mínum málum áður en ég þorði að segja frá. Ég þurfti fyrst að finna út hverjum ég gæti treyst og hvar ég gæti fengið stuðning. Maður er ekki tilbúinn að segja hverjum sem er frá.“

Brynhildur segir að þungu fargi hafi verið af henni létt þegar hún loksins opnaði sig um kynferðislega ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir. „Það breytti lífi mínu að segja frá. Ég var komin í andlegt þrot og fann að það var eitthvað meiriháttar mikið að trufla mig. Og ég vissi undir niðri að það voru þessi kynferðisbrot sem voru rótin að vandanum. Ég þurfti bara að gera eitthvað eða halda áfram í þessu dapurleg lífi sem ég lifði.“

Brynhildur segir það ekki hafa verið auðvelt að takast á við vandamálið. Hún fór í Stígamót. „Í upphafi treysti ég fólki bara fyrir litlu broti af minni sögu. Það var ekkert auðvelt að fara upp á Stígamót og tala við einhvern sem ég þekkti ekki. En smám saman gat ég sagt meira og meira.“

- Auglýsing -

Mundi ekkert í heila viku

Brynhildur tekur fram að hún hafi verið hrædd við að segja frá ofbeldinu sem hún lenti í en hún kveðst einnig hafa verið í afneitum og náð að loka á vondar minningar. „Í langan tíma barði ég sjálfa mig niður fyrir að hafa lent í kynferðislegu ofbeldi og oftar en einu sinni. Ég spurði sjálfa mig af hverju ég gæti nú ekki komið mér út þessum aðstæðum, af hverju ég fraus alltaf. Mér leið eins og ég væri aumingi sem ekki gæti staðið sem sjálfri mér. Ég ýtti þessu frá mér og fannst ég mislukkuð,“ útskýrir Brynhildur.

„Í langan tíma barði ég sjálfa mig niður fyrir að hafa lent í kynferðislegu ofbeldi og oftar en einu sinni.“

Hún bætir við að hún hafi upplifað hversu öflugur mannsheilinn geti verið þegar mikið bjátar á. „Eftir eitt áfallið þá mundi ég ekkert hvað gerðist í heila viku eftir á. Ég rankaði hreinlega við mér viku síðar og man ekkert hvað gerðist í millitíðinni, frá því að árásin átti sér stað og þar til ég rankaði við mér nokkrum dögum síðar, undir stýri í umferðinni.“ Hún líkir því ástandi við autopilot-stillingu á farartæki. „Í þessu tilfelli þá gat andlega hliðin greinilega ekki tekist á við þetta. Það var bara skellt í lás.“

- Auglýsing -

Ekki hægt að kenna brotaþolum að bregðast rétt við

Brynhildur viðurkennir að hún reiðist þegar hún verður vör við að fólk sé að undra sig á af hverju brotaþolar geti ekki tilkynnt kynferðislegt ofbeldi strax. „Það er bara á engan hátt einfalt að segja frá. Ég verð alveg vör við háværar raddir sem segi að nú þurfi bara að kenna fólki að bregðast við. Það er þessi umræða í samfélaginu þar sem karlmenn eru nú aldeilis búnir að finna lausnina, það þarf bara að kenna ungum stúlkum að láta í sér heyra og standa með sjálfum sér. En þetta virkar ekkert svona. Það er ekki hægt að þjálfa fólk í svona lagað.“

Brynhildur bendir svo á að í langflestum tilfellum er árásin gerð af einhverjum sem brotaþoli þekkir. „Og þá eru fyrstu viðbrögð ekkert að rjúka af stað og segja frá. Maður er bara í mikilli flækju.“

Erfitt en mikilvægt að taka slaginn

Eftir að Brynhildur fór að opna sig um ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir á lífsleiðinni hefur hún reynt að tala opinskátt um reynslu sína í von um að hjálpa öðrum. „Ég er þannig andlega stemmd núna að mér líður eins og ég skuldi sjálfri mér að taka þátt í þessari baráttu, eftir að hafa unnið með þessi áföll í fjöldamörg ár. Ef ég get hjálpað einhverjum, þó það sé ekki nema ein manneskja, í að finna sinn vilja til að takast á við það sem viðkomandi hefur lent í, þá er ég tilbúin til að taka slaginn. Ég hefði nefnilega vilja hafa svona umræðu í gangi þegar ég var ung. Maður las alveg eitt og eitt viðtal á sínum tíma við fólk sem hafði orðið fyrir nauðgun en það var alltaf undir nafnleynd. Og maður drakk þetta alveg í sig. En það sem vantaði í þær frásagnir voru svörin; hvað gerði viðkomandi og hvernig vann þessi einstaklingur sig út úr áfallinu. Í dag er fókuserað á úrræðin og það er frábær breyting.“

„Ég hefði nefnilega vilja hafa svona umræðu í gangi þegar ég var ung. Maður las alveg eitt og eitt viðtal á sínum tíma við fólk sem hafði orðið fyrir nauðgun en það var alltaf undir nafnleynd. “

Brynhildur viðurkennir að það geti verið krefjandi að tjá sig opinskátt um ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir en að það sé mikilvægt að berjast fyrir málstaðinn. „Þegar efasemdarraddir heyrast, þar sem fólk dregur frásagnir brotaþola í efa og gefur í skyn að það sé ekkert mál að segja frá, þá er mikilvægt að taka slaginn og hjálpast að. Þetta er svolítið eins og boðhlaup, við verðum að hjálpast að. Stundum líður mér eins og ég sé bara að öskra út í vindinn en á sama tíma vill maður ekki að baráttunni sé tapað.“

Hún vonast til að hjálpa öðrum með sínu framlagi til umræðunnar um kynferðislegt ofbeldi og áhrif þess þó að það séu ekki allir tilbúnir að hlusta. „Ég tek alveg eftir að fólk er ekki alltaf tilbúið að heyra mig tala um þetta. Ég hef alveg verið beðin um að hætta að tala um þessa hluti. Fólk er bara mistilbúið. En eitt það versta sem fólk getur gert þegar brotaþoli opnar sig um kynferðislegt ofbeldi er að reyna að eyða umræðunni og snúa samtalinu í aðra átt. Það er auðvitað ekki hægt að stjórna því hvernig fólk bregst við en það er ágætt að hafa þetta í huga.“

Að lokum segist Brynhildur vera bjartsýn og ánægð með hvernig umræðan um kynferðislegt ofbeldi hefur þróast á undanförnum árum. „Umræðan er að opnast en við eigum enn þá langt í land. Mér finnst eins og við séum í lyftu á leið á efstu hæð. Nú erum við erum komin á aðra hæð en byggingin er tólf hæðir. Við erum komin af stað en það er hellingur eftir.“

Mynd / Hákon Davíð

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -