Miðvikudagur 27. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Ærandi afskiptaleysi heilbrigðisyfirvalda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Forsíðuviðtal Mannlífs í dag segir átakanlega sögu. Sögu sem við þekkjum öll frá annarri hlið. Hlið lækna og sérfræðinga í meðferð á manni frá fjarlægu landi. Manni sem ekki þekkti rétt sinn og var ekki fræddur um hvaða aðrir möguleikar stæðu til boða í hans veikindum. Plastbarkamálið svokallaða er skammarblettur á íslensku og sænsku heilbrigðiskerfi og sú hlið sem birtist í viðtalinu við Merhawit Baryamikael Tesfaslase, eiginkonu plastbarkaþegans Andemariams Beyene sem lést af völdum heilbrigðiskerfisins árið 2014, bætir enn svertu í þann skammarblett.

Merhawit upplýsir í viðtalinu að síðan Andemariam lést hafi enginn frá heilbrigðiskerfinu haft samband við hana. Henni hefur ekki verið boðin hjálp af neinu tagi, hún hefur ekki verið upplýst um rétt sinn til bóta vegna dauða Andemariams og hvorki íslensk né sænsk heilbrigðisyfirvöld virðast hafa grennslast af alvöru fyrir um örlög hennar og sona hennar þriggja eftir dauða eiginmanns og föður.

Í skýrslum um málið kemur skýrt fram að Merhawit eigi mögulega rétt á bótum en viðbára heilbrigðisstarfsmanna hefur verið sú að ekki hafi tekist að hafa upp á henni. Það hljómar ekki sérlega sannferðugt því eins og fram kemur í viðtalinu býr hún í Svíþjóð og vinnur þar fulla vinnu þannig að það ætti að vera hægðarleikur að hafa upp á heimilisfangi hennar og símanúmeri með lítilli fyrirhöfn. Það reyndist blaðamanni Mannlífs að minnsta kosti auðvelt að finna þessa „týndu“ konu með lágmarks eftirgrennslan og ansi erfitt að trúa því að starfsfólk Landspítalans hafi lagt sig mikið fram um að hafa upp á henni.

„Er enn verið að reyna að þagga þetta mál niður og gera sem minnst úr því? Láta eins og þessi skelfilegu mistök og fúsk hafi aldrei átt sér stað?“

En hvað ætli valdi þá þessu afskiptaleysi? Gæti hluti af skýringunni verið sá að bæði Merhawit og eiginmaður hennar eru frá Erítríu og að mestu ókunnug vestrænu réttarkerfi og réttinum til bóta? Er áhugi heilbrigðiskerfisins á því að uppfylla þann skýlausa rétt ekkjunnar að fá bætur vegna hrapalegra mistaka lækna í Svíþjóð og einnig á Íslandi ekki meiri en svo að starfsmenn þess láta það dragast von úr viti að hafa samband við hana, skýra henni frá þeim rétti og aðstoða hana við að ná honum fram? Er enn verið að reyna að þagga þetta mál niður og gera sem minnst úr því? Láta eins og þessi skelfilegu mistök og fúsk hafi aldrei átt sér stað?

Við skulum vona að það sé ekki skýringin. En hafi íslensk heilbrigðisyfirvöld minnsta áhuga á því að uppfylla skyldur sínar við fjölskyldu fórnarlambs mistakanna ættu þau að sjá sóma sinn í því að ganga í það mál með hraði. Skömm þeirra er nógu djúpstæð fyrir.

Mynd / Árni Torfason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -