Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Alls ekkert fyrir aumingja

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

6.750 krónur á mánuði. 80.000 á ári. Jafnvel 200.000 ef þú átt börn. Þetta kallar ríkisstjórnin aðgerðir til kjarabóta fyrir þá sem eru á lægstu laununum. Launum sem reyndar eru langt undir framfærsluviðmiðum og allir vita að ekki er hægt að framfleyta sér á. 80.000 á ári. Það eru þriggja daga laun alþingismanns, nær ekki einu sinni dagslaunum bankastjóra. En nógu gott fyrir aumingjana, greinilega. Þeir eiga bara að bukta sig og þakka.

Það hefur mikið verið skrifað og skeggrætt um ofstækisframgöngu nýrra verkalýðsleiðtoga undanfarið og af greinaskrifum og fréttaflutningi síðustu mánaða mætti ætla að þetta fólk, þessi nýja ofstækisforysta, sé ekki í neinum tengslum við veruleikann og gangi fram í fullkominni blindu á bolmagn atvinnurekanda og ríkis til að greiða fólki mannsæmandi laun. En sé málið skoðað betur blasir við að það er ekki verkalýðsforystan sem er úr takti við raunveruleikann. Það er ríkisstjórnin og alþingismenn, forsvarsmenn atvinnurekanda og fjármagnseigendur. Fólkið sem á Ísland og lætur eins og það sé að gera undirtyllunum stórkostlegan greiða með því að bjóða þeim tveggja prósenta skattalækkun sem ganga mun í gegn á þremur árum. Hvað verða 6.750 krónur mikils virði eftir þrjú ár? Eins og staðan er í dag duga þær varla fyrir einum helgarinnkaupum í Bónus, hvað þá skópari eða einum Food and Fun-matseðli. En láglaunafólk þarf náttúrlega ekki svoleiðis lúxus og er svo sem ekki að biðja um hann heldur. Það sem verið er að fara fram á er einfaldlega að geta komist af frá mánuði til mánaðar af laununum sínum. Það er nú allt ofstækið og yfirgangurinn.

Málið er auðvitað ekki alveg svona einfalt, við vitum það. Alls kyns atriði sem þarf að reikna inn í jöfnuna til að hún gangi upp. En venjulegum leikmanni sýnist samt að það sé nákvæmlega enginn áhugi hjá þeim sem með völdin fara að gera nokkuð sem skiptir máli til að bæta hlut þeirra verst settu. Bara alls enginn áhugi. Það er passað upp á að þeir sem best hafa það missi ekki svo mikið sem flís úr spóni úr sínum aski, en aumingjarnir geta átt sig. Það má ekki minnast á hátekjuskatt sem gæti aukið þetta margumtalaða svigrúm til alvöruskattalækkana á þá lægst launuðu. Fjármálaöflin passa upp á sitt með dyggri aðstoð ríkisstjórnar sem er undir forsæti „vinstri“-sinnaðasta flokks landsins. Er furða að fólk sé orðið langþreytt og búið að missa þolinmæðina og velji sér forystu sem gengur hart fram og gefur ekkert eftir í kröfunum um betri afkomu fyrir þá lægst launuðu? Var það ekki löngu tímabært?

Það virðist nokkuð borðleggjandi að það komi til verkfalla í næsta mánuði og þau gætu orðið löng. Verkfallsvopnið er eina vopnið sem launafólk hefur til að reyna að knýja fram breytingar á óviðunandi kjörum sínum. Hvort það muni bera tilætlaðan árangur er hins vegar alls óvíst. En það ætti að minnsta kosti að koma þeim sem með völdin fara í skilning um að mælirinn er fullur. Hér þurfa að verða breytingar og þær róttækar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -