Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Bergmálsklefi einræðisherrans

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar saga nokkurra alræmdustu einræðisherra sögunnar er skoðuð má sjá að valdarán nútímans fara sjaldnast fram með vopnaðri uppreisn. Valdaránin felast í því að veikja lýðræðið, með því að veikja lýðræðislega stofnanir og gera alla tortryggilega sem eru líklegir til að gagnrýna. Það sem einræðisherrar eiga oftast sameiginlegt er hörð gagnrýni á menntað fólk, þá sérstaklega háskólafólk og það fjölmiðlafólk sem spyr erfiðra spurninga, og reyna þannig að draga tennurnar úr þeim sem eru líklegastir til að sjá í gegnum innihaldslausar upphrópanir þeirra, afneitun hamfarahlýnunar af mannavöldum, kvenhatur, kynþáttaníð, og almennt þvaður um þriðja orkupakkann. Allt gert til að grafa undan hverjum þeim sem eru líklegir til að hafa þekkingu á staðreyndum um þau málefni sem eru til umræðu hverju sinni.

Á meðan vaða sjálfskipaðir einræðisherrar uppi á öldum ljósvakans með það eina markmið að fá sem mesta athygli í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Tilvonandi einræðisherrar hika ekki við að nota grímulausar lygar til að sópa að sér óánægjufylgi. Bergmálsklefi einræðisherrans – sá hópur fólks sem elskar málflutning hans, mun aldrei gagnrýna sinn mikla leiðtoga, lækar allt sem hann segir og skrifar – magnar boðskapinn upp. Bergmálsklefinn endurvarpar boðskapnum út í samfélagið og til baka, til hins verðandi einræðisherra sem glaður herðist enn frekar í trúnni á eigin yfirburði.

Þannig molnar smám saman undan lýðræðinu, smátt og smátt í því sem næst ósýnilegum skrefum. Gagnrýnendur eru gerðir ótrúverðugir, sjálfstæðir gagnrýnir fjölmiðlar eru veiktir með minna fjármagni og eftir atvikum lögbanni á birtingu óþægilegra frétta, þeir sem ekki eru í klappliði einræðisherrans fá ekki framgang í starfi, dómstólar eru veiktir og löggjafarvaldinu er gert því sem næst ómögulegt að sinna aðhaldshlutverki sínu gagnvart framkvæmdavaldinu. Lýðræðislegar stofnanir sem standa eiga vörð um lýðræðið eru notaðar gegn lýðræðinu og í þágu einræðisherrans – þannig fer valdaránið fram.

Tilvonandi einræðisherrar geta sagt hvað sem er vegna þess að þeir þurfa aldrei að standa reikningsskil gjörða sinna. Sannleikur og staðreyndir skipta ekki lengur máli. Þegar lygar eru orðnar að normi, jafnvel leiðandi í daglegri umræðu, þurfum við að staldra við. Hvernig látum við sannleikann skipta máli aftur?

Staðreyndir og skynsemi eru eina móteitrið sem virkar. Á tímum sem þessum er full ástæða til að styðja enn frekar við starfsemi háskólanna og þá sérstaklega rannsóknir vísindafólks. Vísindamenn og -konur gegna lykilhlutverki í heilbrigðu lýðræðissamfélagi. Við þurfum að geta treyst því að vísindafólk hafi traustan starfsgrundvöll og að stjórnmálamenn með einræðistilburði geti ekki refsað þeim fyrir að vera rödd skynsemi og staðreynda.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – miðstöðvar um máltækni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -