Föstudagur 19. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Breiða út samsæriskenningar öfgaaflanna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vefur Útvarps Sögu hefur margoft endurbirt efni af síðum sem birta falskar og skrumskældar fréttir sem ætlað er að kasta rýrð á innflytjendur. Sænskur sérfræðingur segir umræddar síður grafa undan stofnunum lýðræðisins og kynda undir fordómum.

Uppgangur öfgasinnaðra afla í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar hefur haldist í hendur við útbreiðslu fjölmiðla á Netinu sem dreifa hatursfullum boðskap, setja á flot samsæriskenningar og falsa eða skrumskæla fréttir í þeim tilgangi að kynda undir hatri gagnvart minnihlutahópum.

Í sumum Evrópulöndum hafa þessi fyrirbæri, sem oft eru tengd nánum böndum, náð fótfestu og þó nokkurri útbreiðslu, ekki síst með stóraukinni notkun samfélagsmiðla og á síðustu árum hefur hugtakið „falsfréttir“ bæði orðið að raunverulegu vandamáli og er ofnotaður frasi stjórnmálamanna og fylgitungla þeirra.

Ísland hefur fram til þessa verið að mestu laust við þessi fyrirbæri. Þeim flokkum sem hafa boðið sig fram undir merkjum útlendingahaturs hefur verið fálega tekið og íslenskir fjölmiðlar hafa sniðgengið fréttamiðla sem þessa. Undantekningin er þó vefur Útvarps Sögu þar sem ítrekað eru birtar fréttir sem vísa í umfjöllun öfgasinnaðra miðla sem breiða út kynþáttahyggju og samsæriskenningar.

Þetta eru miðlar eins og Friatider, Samhällsnytt, Nya Tider og Nyheter Idag í Svíþjóð. Þannig hefur á vef útvarpsstöðvarnnar birst fjöldi greina þar sem ýjað er að því að Svíþjóð sé í heljargreipum innflytjenda og að þar ríki viðvarandi neyðarástand. Annars staðar er sótt í smiðju öfgahægrisins í Evrópu með hefðbundnum samsæriskenningum um George Soros, Evrópusambandið og afneitun vísindalegra niðurstaðna, einkum er varðar loftslagsmál. Vefurinn fer heldur ekki leynt með aðdáun sína á stjórnmálamönnum á borð við Donald Trump og Viktor Orban.

Leiðandi í framleiðslu „ruslfrétta“

Rannsókn sem gerð var fyrir þingkosningarnar í Svíþjóð í fyrra sýndi að ein af hverjum þremur fréttum sem dreift var á samfélagsmiðlum í aðdraganda kosninganna hafi verið svokallaðar „ruslfréttir“ (e. junk news). 86 prósent þessara frétta komu frá Samhällsnytt, Fria Tider og Nyheter Idag.

- Auglýsing -

Til að bregðast við fréttaflutningi af þessu tagi hafa fjölmiðlar og önnur samtök tekið að sér það verkefni að staðreyna sannleiksgildi frétta. Þar eru umræddir jaðarmiðlar fyrirferðarmiklir. Åsa Larsson, blaðamaður Metro sem staðreynir fréttir undir merkjum Viralgranskaren, kannast vel við málefni Friatider.

„Þetta er hægri síða sem skrifar mikið um innflytjendur. Þeir eru hluti af róttæku hægri hreyfingunni og hafa tengsl við jaðarhóp sem kallar sig Granskning Sverige og hefur ráðið fólk til að áreita blaðamenn, stjórnmálamenn og fleiri. Þeir eru ónákvæmir, við höfum margoft farið yfir fréttir þeirra og sýnt fram á að þeir snúa út úr frásögnum hefðbundinna miðla. Það er hins vegar ekki hægt að afskrifa allt sem þau skrifa byggt á því hver þau eru, það þarf að sannreyna allar fullyrðingar.“

Aðgerðasinnar með tilgang

- Auglýsing -

Jonathan Leman, sérfræðingur hjá Expo sem eru samtök sem berjast gegn kynþáttahatri, segir umrædda miðla þjóna tvennum tilgangi. „Annars vegar að sýna innflytjendur í neikvæðu ljósi og kenna þeim um allt sem aflaga fer í samfélaginu. Hins vegar að útmála pólitíska andstæðinga sem svikara og hluta af spilltri elítu. Þetta eru aðgerðasinnar með tilgang.“

Jonathan Leman, sérfræðingur hjá Expo.

Leman segir að þótt tilgangur þessara miðla sé iðulega sá sami, þá sé ekki hægt að setja þá alla undir sama hatt. Sumir miðlanna séu dyggir stuðningsmenn Svíþjóðardemókrata, sem er sá flokkur sem rekur hvað harðasta innflytjendastefnu, á meðan aðrir miðlar séu jafnvel enn lengra til hægri og tengdir Norrænu andspyrnuhreyfingunni sem eru hreinræktuð nýnasistasamtök. Þá séu efnistök miðlanna ólík.

Samhällsnytt keyri til að mynda meira á eigin fréttum sem settar séu fram undir orðræðu hægri popúlisma á meðan NyaTider sé mjög langt til hægri og geri til að mynda mikið úr ætluðu gyðingasamsæri. „Það sem er kannski sérstakt í þessu öllu saman að flestir þessir miðlar gefa sig út fyrir að vera að segja fréttir sem hinir hefðbundnu miðlar þagga niður, samt gera þeir lítið annað en að endursegja fréttir hefðbundnu miðlanna en skrumskæla þær þannig að þær láta innflytjendur líta illa út.“

Þessir miðlar hafa áhrif. Þeir grafa undan trausti á pólitískum stofnunum og hafa kynt undir róttækni og útlendingahatri í samfélaginu.

Auk þess að hafa tengsl við stjórnmála- og öfgahreyfingar í heimalandinu þá hafa þessir fréttamiðlar sambönd við sams konar hópa í Evrópu og víðar. Til að mynda eru margir þessara miðla hallir undir stjórnvöld í Rússlandi og bendir Leman á að útgefandi Nya Tider hafi náin tengsl við Alexandr Dugin, þekktan rússneskan fasista. „Þessir miðlar hafa áhrif. Þeir grafa undan trausti á pólitískum stofnunum og hafa kynt undir róttækni og útlendingahatri í samfélaginu,“ segir Leman.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -